26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3198 í B-deild Alþingistíðinda. (2671)

263. mál, ullariðnaðurinn

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég tek fram að ég tel það mjög mikilvægt að styrkja myndarlega, eins og ákveðið er, úttekt á rekstri einstakra fyrirtækja í ullariðnaði og gera svo ráð sín í framhaldi af því. Ég ítreka þá áherslu sem ég hlýt að leggja á þessa atvinnugrein, einkum og sér í lagi vegna atvinnumála landsbyggðarinnar.

Ég er því miður ekki í færum um að svara hv. 10. landsk. þm. Ég hefði að ósynju ætlað að þetta mál eigi heima hjá hæstv. menntmrh. og þá mun það væntanlega hafa verið fyrrverandi menntmrh., hv. þm. Ingvar Gíslason sem hefur haft með höndum þessa nefndarskipan. Ég kannast ekki við nefndina eða starfsemi hennar og ég sé á látbragði fyrirrennara míns að honum er það einnegin hulin ráðgáta. Ég mun því vafalaust eiga kollgátuna að hv. þm. og fyrrverandi ráðh. Ingvar Gíslason hafi sómann af þeim framkvæmdum í þessu máli sem til framkvæmdavaldsins heyra.