26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3199 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

295. mál, lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir fsp. til félmrh. um lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna, en fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hver verður fjöldi nýbyggingarlána úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna eftir þá ákvörðun ríkisstj. að skerða ráðstöfunarfé sjóðanna til nýbyggingarlána um 150–200 millj. á árinu 1985?

Óskað er eftir að fram komi hvaða breytingar verða á fjölda lánveitinga og upphæð í hverjum útlánaflokki fyrir sig frá því sem ráð var fyrir gert í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985, svo og hvort þessi ákvörðun muni hafa áhrif á afgreiðslufrest útlána úr byggingarsjóðunum.

2. Hve margar umsóknir liggja nú fyrir um lán í hverjum útlánaflokki fyrir sig hjá Byggingarsjóði ríkisins annars vegar og Byggingarsjóði verkamanna hins vegar?

3. Hvaða reglur munu gilda um þá aðstoð sem veitt verður þeim sem eru í greiðsluerfiðleikum og hafa fengið lán úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna á tímabilinu 1. janúar 1981 til desember 1984?“

Tilefni þessarar fsp. er að, eins og fram hefur komið, stofnuð hefur verið ráðgjafarþjónusta fyrir þá sem nú eru í miklum greiðsluerfiðleikum vegna húsnæðislána. Hefur ríkisstj. ákveðið að verja hluta af því fé sem áætlað var til nýbyggingarlána á þessu ári til að aðstoða þá sem eru í greiðsluerfiðleikum. Því ber vissulega að fagna að reynt er að létta á þeim drápsklyfjum sem nú eru að sliga húsbyggjendur og íbúðakaupendur, en þar sem fram hefur komið að ráðstafa eigi í þessu skyni af mjög takmörkuðu fjármagni Byggingarsjóðs ríkisins til nýbyggingarlána er nauðsynlegt að Alþingi fái vitneskju um hvaða áhrif þetta hefur á útlánagetu Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári.