26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

295. mál, lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. ráðh. svör hans þó að þau hafi að mörgu leyti verið mjög furðuleg svo að ekki sé meira sagt.

Hæstv. ráðh. sagði að hér væri um óraunhæfar spurningar að ræða. Ég verð að segja að ég skil ekki svona svör. Hér liggur fyrir og fram hefur komið að það eigi að skera af því ráðstöfunarfé sem fyrir hendi er og ætlað var til Byggingarsjóðs ríkisins árið 1985. Þá er eðlilegt að spurt sé hvaða áhrif þetta hafi á þær áætlanir sem gerðar hafa verið og á þær lánveitingar og umsóknir sem fyrir liggja. Þess vegna vil ég mótmæla harðlega svörum eins og fram komu hjá hæstv. ráðh.

Í húsnæðislöggjöfinni er t.d. talað um að af fjárlögum eigi að koma 40% af samþykktri útlánaáætlun, ef ég man rétt. — Ég er ekki með lögin fyrir framan mig. — Er þá eðlilegt að samþykkja fjárlögin fyrr en útlánaáætlun liggur fyrir? Ég fæ ekki skilið orð ráðh. öðruvísi en að þessi útlánaáætlun liggi ekki fyrir fyrr en Alþingi hafi afgreitt lánsfjárlög. Mér finnst það nokkuð furðulega að verki staðið.

Eftir að ég lagði þessa fsp. fram fékk ég að vísu upplýsingar um að það hefði verið gerð bráðabirgðagreiðsluáætlun hjá Húsnæðisstofnun ríkisins um miðjan febrúar, miðað við þær upplýsingar um fjármagn sem nú liggja fyrir. Mér finnst að ráðh. hefði getað gefið Alþingi upplýsingar um ýmislegt sem þar kemur fram. Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir þá nefnd sem fjallar um lánsfjáráætlun. Það er mjög brýnt fyrir þá nefnd að hafa slíka áætlun undir höndum.

Í þeirri áætlun kemur t.d. fram að það vanti 700 millj. í Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, miðað við óbreyttar reglur og venjur eftir því sem lánveitingar hafa verið á undanförnum árum.

Ég fæ heldur ekki betur séð af þeirri áætlun en um sé að ræða töluvert mikla skerðingu á ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins 1985, miðað við það sem hann hafði til ráðstöfunar á árinu 1984. Á árinu 1984 hafði sjóðurinn til ráðstöfunar 1552 millj. kr., en miðað við þessa áætlun, sem ég hef hér undir höndum og ég fékk eftir að ég lagði fsp. fram, kemur fram að ráðstöfunarfé, þegar búið er að draga frá - ef gert er ráð fyrir því að það sé tekið af fé Byggingarsjóðs ríkisins-það sem fara á til aðstoðar fólki sem nú á í greiðsluerfiðleikum, þá verða einungis um 1100–1200 millj. til ráðstöfunar til nýbyggingarlána.

Ég vil taka undir þá fsp. sem fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni: Ef ekki er gert ráð fyrir að taka þetta af nýbyggingarlánum, hvaðan á þetta fé að koma? Er ráð fyrir því gert að afla þess með aukafjárveitingu eða er ráð fyrir því gert að lánsfjáráætlun taki þeim breytingum að auka enn á lántökurnar frá því sem ráð er fyrir gert í lánsfjáráætlun? Hvernig verður fjár aflað? Ég fæ ekki skilið af hverju svona mikil leynd þarf að hvíla yfir þessu og af hverju Alþingi getur ekki fengið upplýsingar um stöðuna í svo mikilvægu máli sem húsnæðismálin eru.