26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

295. mál, lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að eyða talsverðum misskilningi.

Eins og allir hv. þm. vita er eftir að afgreiða lánsfjárlög frá Alþingi. Auðvitað er ég ekki að vefengja að ríkisstj. eigi eftir að gefa ákveðin fyrirmæli um það til fjh.- og viðskn. Ed., þar sem lánsfjáráætlunin er til meðferðar, hvernig verður staðið að till. um lánsfjárlögin. Það liggur alveg ljóst fyrir. En ég hélt að það hefði komið greinilega fram í svari Húsnæðisstofnunarinnar við 1. lið fsp. að Húsnæðisstofnunin hefur ekki enn þá lagt fram neina sundurliðaða útlánaáætlun fyrir árið 1985. Það kom fram í svarinu að það sem liggur fyrir í lánsfjáráætluninni, sem er til meðferðar á Alþingi, eru hugmyndir sem fjárlaga- og hagsýslustofnun lagði fram en ekki Húsnæðisstofnunin sjálf.

Það kom einnig fram í svari mínu að því hefur ekki verið slegið föstu í þessu sambandi að þær 154–200 millj. sem er áættað að fari í ráðstafanir til húsbyggjenda sem eiga í erfiðleikum, verði teknar af nýbyggingafé, heldur er möguleiki á því að taka fé það af heildinni og deila því niður á lánaflokka eftir nánari athugun sem verður rætt við Húsnæðisstofnunina sérstaklega um.

Ég vil minna hv. 3. þm. Reykv. á að skv. gildandi lögum hefur félmrh. á hverjum tíma vald til að leggja til breytingar bæði að því er varðar að bæta við útlánaflokkum og eins breytingar á því fjármagni sem ætlað er í hvern lánaflokk. Auðvitað mun hann gera það í samráði við húsnæðismálastjórn og það verður engin breyting á því. En það er ekki hægt, að mínu mati, og ekki skynsamlegt að leggja til nákvæma útlánaflokkun fyrir árið fyrr en Húsnæðisstofnunin er búin að fá tryggingu fyrir því fjármagni sem um verður að ræða í þessum málaflokki í heild. Þá mun hvorki standa á félmrn. né Húsnæðisstofnuninni að gera það. Auðvitað er það nauðsynlegt og verður að ganga eftir því og það er svo sjálfsagt að áður en lánsfjárlög verða afgreidd frá Alþingi, t.d. Ed., verði slík áætlun lögð fram.