26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2677)

288. mál, eftirlit með innflutningi matvæla

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Á þskj. 468 hef ég leyft mér að flytja fsp. til heilbr.- og trmrh. um eftirlit með innflutningi matvæla. Ég vildi mega leyfa mér að lýsa því í örfáum orðum hvers vegna þessi fsp. er fram komin.

Aðalástæður hennar eru þær að eins og allir vita flytjum við inn gífurlega mikið af matvælum bæði sem niðursuðu og í pökkum. Þessi matvæli koma inn í landið að því er virðist gersamlega án nokkurs eftirlits. Þá á ég við að ekki fer fram neitt eftirlit með því hver ending þessara matvæla kunni að vera. Bent hefur verið á að það virðist fara nokkuð í vöxt að flutt sé inn pakkavara og niðursuðuvara sem á mjög skammt í það að endingartími hennar sé útrunninn. Gæði hennar fyrir kaupandann eru því ekki nærri eins mikil og ef um eðlilegan endingartíma slíkrar vöru væri að ræða.

Á þeim margvíslega varningi, sem fluttur er inn í pökkum eða niðursoðinn eru auðvitað alls kyns leiðbeiningar og upplýsingar um innihald, efnagreiningu, vigt og þar fram eftir götunum sem neytandanum eiga að koma til góða. Aftur á móti er ekki um nemar íslenskar upplýsingar að ræða á þessum innflutningi. Það er m.ö.o. beinlínis gert ráð fyrir því að fólk sé afskaplega vel að sér í hinum ýmsu þjóðtungum jarðarinnar og alls ekki sjaldgæft að sjá megi áritanir á jafnframandi tungumálum eins og kínversku, japönsku og fleiri austurlenskum tungum. Tæpast eru þeir margir hér á landi sem komast fram úr leiðbeiningum af því tagi jafnvel þó að orðabækur væru fyrir hendi. Gagnrýnin hefur m.a.s. gengið svo langt að menn hafa fullyrt að Ísland sé á góðri leið með að verða nokkurs konar ruslakista, þ.e. að varningur sem ekki væri boðinn til sölu í verslunum í nágrannalöndum okkar vegna þess að hann uppfyllti ekki þau skilyrði, sem þar eru sett fyrir dreifingu matvæla, eigi mjög greiðan aðgang að markaði hér á Íslandi, þá náttúrlega ekki hvað síst vegna þess að e.t.v. er hægt að fá hann á eitthvað vægara verði í heildsölu en ella, en með þeim annmörkum sem ég lýsti áðan fyrir neytendurna. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja eftirtalinna þriggja spurninga:

1. Hvernig er háttað eftirliti með innfluttum matvælum til landsins? — og þá á ég við öll matvæli, ekki bara þau sem hugsanlega eru beinar húsdýraafurðir.

2. Hvaða reglur gilda um heilbrigðis- og gæðavottorð með slíkum matvælum?

3. Stendur til að endurskoða löggjöf um þessi efni? Og ef svo er hvernig líta þau áform út?