26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3206 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

288. mál, eftirlit með innflutningi matvæla

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóð svör hans. Ég fagna því líka að það skuli þó vera komin þessi hreyfing á þennan málaflokk, að því er virðist ekki hvað síst fyrir tilstuðlan hæstv. ráðh. Ég álít þetta mjög mikilvægan málaflokk og bendi á það til samanburðar að við höldum hér úti á Íslandi mjög öflugu lyfjaeftirliti, eftirliti með sölu og dreifingu varnings sem eingöngu fer um hendur sérfróðra aðila, þ.e. lækna og hjúkrunarfólks, sem veit mjög vel hvaða vöru það er með í höndunum og hvernig það á að færa hana sínum viðskiptavinum, sjúklingunum. Með varningi sem náttúrlega stendur að sínu leyti undir heilbrigði þjóðarinnar, þ.e. þeim mat sem hún etur, hefur eftirlitið aftur á móti verið mjög lítið, eins og hæstv. ráðh. lýsti, eða nánast ekki neitt.

Það kann vel að vera rétt hjá hæstv. ráðh., og þarf ekki að breyta í neinu minni skoðun, að ekki þurfi til lög heldur þurfi einfaldlega að semja reglur um framkvæmd þessa málaflokks. Ég geri mér grein fyrir því, eins og hæstv. ráðh. sjálfsagt áttar sig á, að þetta kostar peninga. Ég er þó ekki alveg sammála því að til þess þurfi allar þær fjárfestingar sem greinilegt var af máli ráðh. að menn eru farnir að sjá fyrir sér í hillingum. Það hljóta að vera þegar fyrir hendi hér á Íslandi t.d. rannsóknarstofur sem gætu bætt við sig verkefnum af þessu tagi og unnið þau fyrir slíkt matvælaeftirlit. Og mætti nú kannske stinga því að mönnum svona í framhjáhlaupi þegar og ef farið verður raunverulega af stað með þetta eftirlit. En það sem máli skiptir fyrst og fremst er að við viljum öll sem hér sitjum og væntanlega flestallir landsmenn stuðla að heilbrigði með þeim hætti að fyrirbyggja sjúkdóma en ekki að þurfa að eyða kröftum okkar og orku í það að lækna þá þegar þeir koma upp. Ég tel að þetta eftirlit sé mjög stór þáttur í því að stuðla að bættu heilbrigði, þ.e. að fólk borði annars vegar mat sem ekki er mengaður og hins vegar mat sem það veit hvað hefur í sér geymt og býður þar af leiðandi ekki hættunni heim í fávisku sinni einni saman.