26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (2686)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það hafa orðið hér nokkrar umr. um hugtakið bankaleynd. Hv. síðasti ræðumaður sagði að það væri að hverfa. Hugtakið hverfur nú ekki, en það má vel vera að menn vilji ekki hafa bankaleynd með sama hætti hér eftir sem hingað til. Að vísu hefur orðið á þessu nokkur breyting.

Hér spurði hv. 10. landsk. þm. um skattaeftirlit. Óski skattrannsóknastjóri eftir upplýsingum úr bönkunum biður hann um þær og ég veit ekki betur en svarað sé þeim ákveðnu spurningum sem hann spyr vegna rannsókna á málum sem þar fara fram. Þessu var breytt fyrir nokkuð mörgum árum, en þar áður voru ekki slíkar upplýsingar veittar.

Skiptum bönkum annars vegar í ríkisbanka og hins vegar í einkabanka. Við skulum átta okkur á því að Alþingi kýs líka endurskoðendur ríkisbankanna. Það er ekki bara reglan að Alþingi kjósi bankaráð til að taka þátt í stjórnun bankanna, heldur kýs það endurskoðendur. Þeim er auðvitað ætlað, nákvæmlega eins og bankaráðsmönnum, að fylgjast með því að bankarnir starfi skv. þeim lögum sem um þá gilda.

Hv. fyrirspyrjandi spurði um mína skoðun varðandi bankaleynd. Ég hef fengist nokkuð við þessi mál um langan tíma, aldarfjórðung, og ég er þeirrar skoðunar að mjög nauðsynlegt sé að sá sem vill ávaxta sitt fé geti treyst því að það sé trúnaður á milli hans og þeirrar stofnunar sem hann óskar eftir því að geyma sitt fé í. Viðkomandi bankastjórar ráðstafa svo fjármagninu skv. sínu stöðuumboði. Ég held að það verði enn fremur að ríkja trúnaður — og það mikill trúnaður — á milli þeirra sem leita eftir fyrirgreiðslu og þeirra stofnana sem leitað er til.

Þessi mál öll fá þm. að sjálfsögðu til umræðu þegar frv. til almennrar löggjafar verður lagt fram, sem verður áður en margir dagar eru liðnir, og þá koma menn fram sínum sjónarmiðum. Þá geri ég ráð fyrir því að ég láti í ljós það sjónarmið mitt og þær skoðanir sem ég hef á því máli sem hér hefur verið til umfjöllunar.