26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er synd að hæstv. forseti skuli þurfa að sitja þarna fastur í stólnum sínum þar sem hann er nú einn af bankaráðsmönnum og væri ekki úr vegi að fá varamann til þess að hann gæti gefið við þessu svör.

Sannleikurinn er sá að það hefur verið allmikill gusugangur í þessum umr., ekki síst hjá hv. kvenkyni hér í salnum og varð enginn hissa. Eins hafa menn látið hér uppi dálítið einkennilegar skoðanir og engin leið að svara því á mjög stuttum tíma. Ég er ansi hræddur um að ef ríkið færi úr bönkunum og ekkert væri nema einkabankar, þá gæti nú orðið erfitt að fjármagna undirstöðuatvinnuvegina með einkabönkum, a.m.k. ef þeir verða eins og þeir sem fyrir eru.

En ég undrast það þegar einn hv. þm. kemur hér og spyr: Hvers vegna þingmenn í bankaráð? Og heldur áfram: Er það til þess að menn geti reynt að hygla vinum sínum og viðskiptavinum í kjördæmum eða eru þeir til þess að þegja yfir fjármálahneykslum þjóðarinnar? Sem eru allt annars staðar. Og hvernig stendur á því að ekki er hægt að fá að vita um stöðu bankanna? Það getur hver kjaftur gert-og kvenfólk líka-því að það eru gefnir út ársreikningar bankanna á eðlilegum og reglulegum tímum. Þar geta menn fengið fram stöðu bankanna ef þeir kæra sig um og kunna að lesa það.

Það er auðvitað ekki, að mínum dómi, neitt nauðsynlegt að hafa þm. í bankaráðum, því fer víðs fjarri. Og það eru ekki allir bankaráðsmenn þm. Hvernig stendur á því að hv. Alþfl.-menn, sem eru að spyrja svona spurninga eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, spyrja ekki sína fulltrúa þar og athuga hvort þeir fái meiri svör? En ég er ansi hræddur um að þessar spurningar séu ósköp ómerkileg forvitni og svörin, þó gefin yrðu, yrðu varla til eins eða neins.

En þm. sem hafa verið kosnir í bankaráð hafa, a.m.k. þó nokkrir, lagt sig fram í því að kynna sér bankamál, vaxtamál og fjármögnun atvinnuveganna svo eitthvað sé nefnt, umfram aðra. Það veitti svo sannarlega ekki af því að hér væru einhverjir inni sem veltu þessum málum fyrir sér í stað þess að vera með upphrópanir og gaspur.