26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3215 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

277. mál, afurðalán í sjávarútvegi

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram við hæstv. viðskrh. eftirfarandi fsp. á þskj. 455:

„Hver var ástæða þess að bankar veittu ekki lán út á sjávarafurðir frá 1. til 30. janúar í ár?“

Eins og fram kemur í fsp. voru ekki veitt afurðalán út á sjávarafurðir, a.m.k. hjá sumum viðskiptabönkunum, á tímabilinu 1. til 30. jan. s.l. Á þingfundi hér í Sþ. 29. f. m. spurðist ég fyrir um það hjá hæstv. viðskrh. í utandagskrárumræðum hverju slíkt sætti, að ekki væri enn farið að veita afurðalán út á sjávarafurðir. Svör ráðh. voru á þann veg að nú væru þessi mál að leysast og bankarnir mundu verða tilbúnir að lána afurðalán næsta dag, þ.e. 30. janúar. Það fór eftir. Hinn 30. janúar vartekið við veðsetningargögnum og 31. janúar voru lán afgreidd. Stór hluti bankakerfisins á Íslandi var óvirkur í heilan mánuð gagnvart aðalútflutningsframleiðslugrein okkar. Afurðalánadeild Landsbankans lýsir ástandinu þannig með leyfi forseta:

„Nýjar veðsetningar byrjuðu að berast afurðalánadeild strax upp úr áramótum, þ.e. loðnuverksmiðjur er tóku við hráefni loðnubáta fram eftir desembermánuði. Fyrstu veðsetningarskýrslur vegna annarrar framleiðslu bárust 12. janúar s.l. og sum fyrirtækin hafa nú skilað inn fjórum veðsetningarskýrslum.“

Það er Seðlabankinn sem enn hefur með höndum útreikning útlánsverða og endurkaupaviðskipti eru þar eins og áður þótt margir haldi að þar hafi breyting átt sér stað s.l. haust. Endurkaupaviðskipti Seðlabankans eru enn í gangi gagnvart viðskiptabönkum. Á vegum hans er það tölvukerfi sem notað er við útlánin. Þar eru notuð viðmiðunarverð sem Seðlabankinn samþykkir. Þau eru grundvöllur þess að hægt sé að veðsetja. Hvernig getur það komið fyrir að heilan mánuð standi á þessum verðum frá Seðlabanka? Hvernig er það réttlætt að fyrirtækjum í aðalatvinnugreinum okkar sé neitað um eðlileg bankaviðskipti í 30 daga? Getur það verið því að kenna að Seðlabankinn sé svo stirðnuð stofnun að smávægilegar breytingar á verði afurða stöðvi starfsemi jafnmikilsverðs þáttar í starfsemi bankans og endurkaup á afurðalánum eru? Eða metur þessi stofnun sjávarútveginn ekki meira en það að það sé álit að því sjálfsagður hlutur að stöðva grundvallarbankaviðskipti við sjávarútveginn án fyrirvara og án skýringa?

Margir efast um ágæti ýmissa uppátækja þessarar sjálfumglöðu stofnunar og eflaust með réttu. Það reynist svolítið erfitt að fá skýringu á ýmsu sem þar gerist.

Það liggur fyrir að útgerð fór mun hægar af stað í janúar vegna þessara aðgerða eða aðgerðaleysis bankans heldur en orðið hefði ef eðlileg bankaviðskipti hefðu átt sér stað. Verkafólk, sem var atvinnulaust vegna þess að ekki voru veitt afurðalán, sjómenn, sem ekki sóttu fisk í sjó vegna þess að fiskkaupandi fékk ekki fyrirgreiðslu, fiskverkun og útvegsmenn, sem fengu stöðugt sama svarið: Athuga eftir helgi — og fengu ekki lánafyrirgreiðslu í heilan mánuð, allir þessir aðilar þurfa að fá að vita hvernig á því stendur að aðalbankastofnun landsins veitir ekki afgreiðslu á slíkum lánum í heilan mánuð.