26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3218 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

306. mál, samvinnufélög og samvinnusambönd

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það frv. sem hv. þm. spyr hér um mun væntanlega verða tilbúið svo tímanlega að unnt sé að leggja það fram áður en þessu þingi lýkur.

Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt skipaði fyrrv. viðskrh. Tómas Árnason nefnd, sem falið var að semja frv. til l. um samvinnufélög og samvinnusambönd, eftir að samþykkt hafði verið á Alþingi þáltill. sem hann vék hér að. Nefndin lauk störfum í byrjun maímánaðar 1983. Um áramótin næst á eftir ákvað ég hins vegar að sett skyldi á laggirnar ný nefnd til að endurskoða lög um félög og stofnanir í atvinnurekstri almennt. Þar á meðal var nefndinni falið að yfirfara og endurmeta það frv. sem fyrri nefndin hafði skilað af sér og samræma frumvörpin um rekstrarform eftir því sem rétt þætti. Hin nýja nefnd hefur starfað af krafti og innan tíðar vænti ég þess að fá í hendurnar þau frv. til breytinga á lögum um rekstrarform sem nefndinni hefur verið ætlað að semja.

Nefndin mun að sjálfsögðu gera þann samanburð sem ég lagði sérstaka áherslu á á milli rekstrarforma. Ég vænti þess að hv. fyrirspyrjandi sé mér sammála um það að hér sé um rétt vinnubrögð að ræða og ég vænti þess að ég geti, eins og ég sagði í upphafi, lagt þessi frv. fram áður en þessu þingi lýkur og þá væntanlega með þeim hætti að hægt verði að veita þeim skjóta fyrirgreiðslu og góða afgreiðslu á Alþingi.