26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir hugmyndir hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar og þakka honum fyrir að flytja þetta ágæta mál. Þarna er um að ræða grundvallaratriði fyrir afkomu Íslendinga. Það gegnir því furðu að svo illa skuli búið að því fólki sem að þessum undirstöðuatvinnuvegi vinnur eins og raun ber vitni og komið hefur fram í máli annarra þm. Það er ekki bara um að ræða lág laun heldur líka það óheyrilega vinnuálag sem bónusfyrirkomulagið er og sá skortur á undirbúningsverkmenntun sem menn sætta sig við. Mér hefur í seinni tíð orðið hugsað til þess að það jaðri við fyrirlitningu hvernig búið er að fiskvinnslufólki og ég spyr: Síðan hvenær hefur þjóð haft efni á því að fyrirlíta lífsviðurværi sitt?

Kvennalistinn hefur frá upphafi lagt þunga áherslu á nauðsyn þess að auka verðmæti íslensks sjávarafla með því að láta sér annt um gæði hans og fjölbreytni. Við búum að slíku kostahráefni að við höfum þar úr meiru að spila en flestar aðrar þjóðir. Þær kröfur sem við gerum til lífsins knýja okkur til að láta af því hlutverki sem við höfum hingað til leikið í útflutningsmálum, þ.e. hlutverki nýlenduþjóðarinnar. Við getum ekki lengur staldrað við á veiðimannastiginu eingöngu í sjávarútvegi, við verðum að fara yfir í iðnaðinn í þessum efnum og huga betur að úrvinnslu ef við ætlum okkur að halda áfram að lifa af fiskveiðum. Við verðum að virkja hugvit okkar í ríkara mæli en áður í þann grundvallaratvinnuveg sem sjávarútvegurinn er og við verðum að endurskipuleggja þennan atvinnuveg og fjárfestingar í honum.

Hv. þm. Gunnar G. Schram hefur þegar rakið dæmi úr mjög fróðlegum fyrirlestri, sem við heyrðum bæði og haldinn var nýlega af Steinari Berg Björnssyni á fundi hjá Rannsóknaráði ríkisins, svo að ég ætla ekki að orðlengja frekar um það. En möguleikar okkar eru fjölmargir og lítt kannaðir.

Ég vil lýsa eindregnum stuðningi okkar þm. Kvennalista við þetta ágæta mál og ég vona að því verði veitt verðskulduð athygli og stuðningur jafnt innan þings sem utan.