26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3243 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég er nú ekki kominn hér til þess að keppa í orðum við þá fróðu menn um sjávarútveg og fiskvinnslu sem hér hafa talað og kannske eiga eftir að tala. En ég get ekki látið hjá líða að lýsa stuðningi við þessa till. hv. 7. þm. Reykv. og tel að í ræðu hans hafi komið fram fjölmörg atriði sem eru þess eðlis að allir Íslendingar, sem láta sig framleiðslu þjóðarinnar og hag hennar nokkru skipta, verði að velta fyrir sér. Það er enginn vafi á því að þetta eru mál sem hljóta að teljast með hinum stærri málum á þessu þingi og reyndar eiginlega hvenær sem væri þegar rætt er um efnahags- og atvinnulíf á Íslandi.

Það var skemmtilegt hvernig hv. 7. þm. Reykv. tengdi þetta mál atburðum fyrir um það bil hálfri öld þegar upp hófst mikil atvinnubylting í landinu. Kannske erum við núna að renna inn í nýtt Rauðkutímabil þar sem tekið er á málunum á ferskan hátt og mikil uppbygging er fram undan. Eins og bent hefur verið á í þessum umr. hefur ríkisstj. ákveðið að verja allmiklu fé til þróunar atvinnulífs. Ég held að það hljóti að liggja í augum uppi að verulegur hluti þess hlýtur að renna til sjávarútvegs eða greina sem tengdar eru sjávarútvegi og þá gefst tækifæri til þess að fjalla rækilega um ýmsa kosti sem tæpt er á bæði í grg. með till. og eins í hinni ágætu framsöguræðu.

En það eru tvö atriði sem ég vildi einkum og sér í lagi undirstrika, þar sem ekki ríður minna á að vel verði unnið. Það eru markaðsmálin. Þau hljóta að fara saman við allar nýjungar í þessum efnum, og tengd því eru útflutningsmálin. Ég held að það hljóti að líða að því að taka verði útflutningsmál okkar Íslendinga til rækilegrar athugunar og þá með það fyrir augum að veita þar meira frelsi, meira svigrúm en nú er. Það gefur auga leið að þurfi að sveigja framleiðsluna að nýjum markaði, eins og hv. 4. þm. Reykv. benti á að hugsanlegt væri, þá er mikilvægt að útflytjendur hafi möguleika á því að hreyfa sig, ef svo mætti að orði kveða, án þess að vera of njörvaðir af reglugerðum og lagaákvæðum. En ég ætla ekki að lengja þessa umr. Ég vil aðeins lýsa ánægju minni með þær umræður sem þessi till. hefur vakið. Það eru umræður sem reyndar aldrei lýkur hér á landi en ég get með sanni sagt að a.m.k. ég er nokkru fróðari um ýmsa þætti íslensks atvinnulífs eftir að hafa hlýtt á ræður hv. þingmanna um þetta mál.