26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3247 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Flm. (Guðmundur J. Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætlaði að segja aðeins örfá orð.

Ég ætlaði fyrst og fremst að þakka þeim hv. þm. úr öllum flokkum sem hér hafa tekið til máls fyrir jákvæðar undirtektir og að mörgu leyti mjög athyglisverðar ábendingar. Ég ítreka þær þakkir og jafnframt vil ég segja við hv. þm. Valdimar Indriðason, minn ágæta vin, að það er misskilningur að ég fari nokkuð hjá mér þegar mér er hrósað eitthvað. Mér líður aldrei betur.

Ég legg áherslu á að komið hafa fram ákaflega fróðleg sjónarmið og tillögur. Ekki var tilgangurinn að löggilda einhverjar ákveðnar vinnsluaðferðir eða skoðanir. Ég held það séu rannsóknirnar sem þarf að leggja áherslu á.

Ég trúði því varla í upphafi að það yrði jafnmiklar og jákvæðar umr. um þetta mál, en það hefur sýnt sig, eins og reyndar vita mátti ef maður hugsaði málið betur, áhugi hv. alþm. á þessu brennandi máli að reisa við íslenskan sjávarútveg og íslenska fiskvinnslu.

Ég vil svo þakka hv. alþm., sem til máls hafa tekið, fyrir mjög jákvæðar umr.