27.02.1985
Efri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3345 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Félmn. Ed. hefur haft til meðferðar þetta frv., um ríkisábyrgð á launum, frá því í nóvembermánuði s.l. Það er þess vegna orðinn nokkuð langur tími sem farið hefur í umfjöllun um þetta mál. Nefndin hefur haldið nokkra fundi um málið og kallað til viðræðna aðila, svo sem fram kemur í nál.

Ég mun e.t.v. hafa nokkru fleiri orð í framsögu um þetta frv. en ef skammt væri síðan mælt hefði verið fyrir því, ekki síst til upprifjunar.

Eins og hv. alþm. er kunnugt er þessu frv. um ríkisábyrgð á launum ætlað að leysa af hólmi lög um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot nr. 31/1974 eins og þeim var breytt að nokkru með lögum nr. 8/1979. Samanburður á frv. og núgildandi lögum leiðir í ljós að í upphaflegri mynd hefur frv. ekki verið ætlað að gera umtalsverðar efnislegar breytingar frá núgildandi lögum. Þetta er raunar nefnt í grg. með frv. Það má þó segja að á hinn bóginn séu meginbreytingarnar, sem frv. stefnir að, formlegs eðlis. Þær eru einkum tvíþættar:

Annars vegar eru í frv. skilgreind nokkur grundvallarhugtök varðandi ríkisábyrgð á launum. Það kemur fram í 3. og 4. gr. þess hvað átt er við með hugtökunum „vinnulaun“ og „launþegi“. Einnig er í 4. gr. tíundað nákvæmlega til hvaða krafna launþega ríkisábyrgð eigi að ná. I núgildandi lögum vantar skilgreiningar af þessu tagi að miklu leyti og hefur þetta gert þau ómeðfærileg í framkvæmd, auk þess að leysa hefur orðið úr réttaróvissu fyrir dómstólum um atriði sem skilgreiningar þessar taka til. Í grg. með frv. kemur fram að skilgreining þess á þessum atriðum er í samræmi við túlkun núgildandi laga og niðurstöður dómstóla um vafaatriði. Þótt ekki væri nema af þessum ástæðum er ekki nema eðlilegt að menn leggi nokkra áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga til þess að skýrar reglur verði lögfestar um þessi atriði.

Hin meginbreytingin, sem frv. ráðgerir, varðar formlega meðferð stjórnvalda á kröfum um greiðslu í skjóli ríkisábyrgðar. Núgildandi lög eru um margt ófullkomin að þessu leyti og framkvæmd þeirra hefur reynst nokkuð örðug. Í frv. koma fram reglur um þessi atriði í III. kafla. Ákvæði þessi eru þannig úr garði gerð að tilefni ætti ekki að vera til vafa um hvernig standa eigi að framkvæmd, en meginkostur þeirra er hins vegar sá að úrlausn stjórnvalda um greiðsluskyldu ríkissjóðs ætti að verða greiðari en nú er.

Við meðferð nefndarinnar á þessu máli hefur verið komið á framfæri óskum frá ASÍ um breytingar á frv. frá því horfi sem það var lagt fram. Óskir þessar beinast einkum að því að ríkisábyrgð verði víðtækari en gert er ráð fyrir í 4. gr. frv. og látin ná til iðgjalda, til lífeyrissjóða og sjúkra- og orlofsheimilasjóða. Enn fremur óskaði ASÍ eftir breytingum á þeirri tilhögun, sem frv. mælir fyrir um, á orlofsfjárkröfum.

Innan nefndarinnar hefur orðið samstaða um það sjónarmið að ríkisábyrgð verði rýmkuð frá núgildandi lögum þannig að hún verði látin ná til réttinda sem tengjast launþega persónulega. Samkvæmt því sjónarmiði hefur nefndin talið rétt að leggja til breytingar á frv. í þá veru að ríkisábyrgð verði einnig látin ná til lífeyrissjóðsiðgjalda. Þau iðgjöld skapa persónubundin réttindi fyrir launþega. Ef iðgjöld til lífeyrissjóðs vegna launþega fara forgörðum yfir eitthvert tímabil gæti hlotist af stórfellt tjón fyrir hann ef þær aðstæður skapast að hann þarf að leita bóta eða lífeyrisgreiðslu frá sínum lífeyrissjóði. Þess vegna er brýnt að tryggt verði að gjaldþrot vinnuveitanda leiði ekki til þess að hagsmunum launþega verði stefnt í hættu að þessu leyti.

Nefndin er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að sama röksemd eigi við um iðgjöld til sjúkra- og orlofsheimilasjóða. Hún leggur því ekki til að ríkisábyrgð verði látin ná til þeirra. Tilhögun frv. á ríkisábyrgð á orlofsfjárkröfum hefur hlotið allnokkra umfjöllun í n., en n. telur ekki ástæðu til breytinga í því efni nú.

Í ljósi þeirra sjónarmiða n. sem ég hef nú farið nokkrum orðum um leggur hún til að 4. gr. frv. verði breytt á þann hátt að nýjum lið, c-lið, verði bætt inn í 1. málsgr. ákvæðisins og fjalli sá stafliður um ríkisábyrgð á lífeyrissjóðsiðgjöldum. Með þessu riðlast einstakir stafliðir ákvæðisins þannig að upphaflegir liðir c-f verða með brtt. nefndarinnar að stafliðum d-g.

Af sömu ástæðum er lögð til breyting á ákvæðum að því leyti að í einstökum stafliðum er tilgreint hverjir geti í hverju tilviki átt kröfur sem ríkisábyrgðar njóta, en í upphaflegri mynd sinni náði 4. gr. frv. aðeins til einstakra krafna launþega eins og segir í upphafi greinarinnar.

Í sambandi við þessa brtt. n. leggur hún enn fremur til að 5. gr. frv. verði einnig breytt þannig að þeir sem í greininni eru taldir og nátengdir eru hinum gjaldþrota njóti ekki ríkisábyrgðar vegna lífeyrissjóðsiðgjalda sinna.

Í 6. gr. frv. hefur verið ráðgert að stytta þann frest, sem veittur er til að koma greiðslukröfu í skjóli ríkisábyrgðar á framfæri við félmrh., frá því sem er í 5. gr. núgildandi laga. Af hálfu ASÍ hefur komið fram að þetta kunni að kosta að launþegi fari á mis við ríkisábyrgð. Eftir þeim upplýsingum sem fram hafa komið um framkvæmd þessa málefnis teljum við þessa hættu svo til enga, enda virðast launþegar gera kröfur

þegar í stað við upphaf gjaldþrotaskipta, þ.e. kröfur til ráðuneytis. Stytting frestsins í 6. gr. úr tólf mánuðum skv. gildandi lögum í sex mánuði skv. frv. ætti þannig ekki að koma að sök svo neinu nemi.

Röksemdin fyrir því að frest þennan eigi að stytta mun vera sú að talið er æskilegt að stuðla að því að launþegar geri hið bráðasta eftir upphaf gjaldþrotaskipta ríkisábyrgðarkröfur til stjórnvalda þannig að ríkið eigi þess kost að hafa áhrif sem kröfuhafi á framvindu skiptameðferðar eins fljótt og mögulegt er. Þetta er eðlilegt í ljósi þess að ef eignir hins gjaldþrota hrökkva ekki til að greiða launakröfur verður ríkissjóður að bera hallann af því. Þrátt fyrir þessa röksemd leggur n. til að í undantekningartilvikum geti krafa komist að þótt hún berist ekki innan sex mánaða frests skv. 6. gr. frv. Því hefur verið gerð till. um að auka við 6. gr. frv. þannig að hægt verði að taka til greina kröfu um ríkisábyrgð þótt hún berist stjórnvöldum síðar en sex mánuðum frá upphafi þessa frests, en þó innan eins árs frá upphafi hans. Það yrði að sjálfsögðu háð mati ráðh. hvort gildar ástæður væru fyrir þeim drætti á kröfugerðinni.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi míns máls að það væri eðlilegra sökum þess að langt er síðan mælt var fyrir þessu frv. og einhverjir e.t.v. farnir að ryðga í efni þess að eyða eilítið lengri tíma í framsögu en oft áður. Með þeim breytingum sem ég þykist hafa gert grein fyrir leggur félmn. til að frv. verði samþykkt.