27.02.1985
Efri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Frsm. meiri hl. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. um átak í dagvistarmálum barna. Áliti meiri hl. n. hefur verið dreift á þskj. 537. Nefndin klofnaði um afgreiðslu málsins og hafa minni hl. n. skilað áliti á þskj. 538 og 540.

Þrátt fyrir að n. hafi klofnað í málinu var samstaða í henni um það markmið frv., sem kemur fram í nafni þess, að gera þyrfti átak í dagvistarmálum barna. Um það var enginn ágreiningur. Hins vegar greindi menn á um þá leið, sem lagt er til að farin sé til að ná þessu marki, að marka tekjustofna til þessa verkefnis í sjö ár. Við sem skipum meiri hl. n. teljum að fara verði mjög varlega í að marka tekjustofna ríkisins til ákveðinna verkefna. Við teljum það leiða til sjálfvirkni í fjárútlátum og ekki sé trygging fyrir því að slíkt leiði til besta árangurs í framkvæmdum. Fjárveitingavaldið, þ.e. Alþingi og fjárveitinganefnd, á að meta þörfina hverju sinni og veita fé til framkvæmda í samræmi við það. Fram kemur í nál. 2. minni hl. n.hv. nm. eru á sömu skoðun hvað þetta atriði varðar.

Einnig ber að undirstrika sérstaklega að hér er um sameiginlegt verkefni sveitarfélaga og ríkisins að ræða og með ákvörðunum Alþingis í þessu efni er verið að binda hendur sveitarfélaganna í heild. Við þessu varaði Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni um frv.

2. minni hl. n. leggur til að ákveðinni upphæð sé veitt til dagheimila og leggur til að á fjárlögum ár hvert skuli veita til byggingar dagvistarheimila eigi lægri fjárhæð úr ríkissjóði en svarar 75 millj. kr. að viðbættri hækkun skv. byggingarvísitölu frá 1. des. 1984 til 1. des. hvers árs næst á undan nýju fjárhagsári. Þessi afstaða er í samræmi við brtt. sem flokkar hv. þm. í 2. minni hl. fluttu við síðustu afgreiðslu fjárlaga. Það skal undirstrikað í þessu sambandi að fjárlög fyrir 1985 hafa hlotið afgreiðslu og eru framlög til þessara mála því ákveðin fyrir yfirstandandi ár. Meiri hl. n. telur því eðlilegt að málinu verði vísað með jákvæðri umsögn til ríkisstj. og það verði metið af ríkisstj. og Alþingi þegar fjárlög fyrir árið 1986 verða undirbúin.

Undir nál. rita, auk frsm. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Egill Jónsson og Valdimar Indriðason. Þess skal getið að hv. þm. Stefán Benediktsson sat fundi n. og er samþykkur álitinu með fyrirvara.