27.02.1985
Efri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Þar sem ég hef ekki haft tækifæri til að fjalla um þetta frv. í n. þeirri sem hafði það til umfjöllunar vil ég við þessa umr. leggja nokkur orð í belg.

Hinar öru breytingar sem orðið hafa í þjóðlífinu á undanförnum árum hafa leitt til þess að uppeldi og gæsla barna hefur færst frá foreldrum yfir á aðra í auknum mæli, þ.e. dagvistarstofnanir og skóla. Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að líta fram hjá, alveg án tillits til þess hvort menn telja þessa þróun góða eða slæma.

Það heyrir til undantekninga að fjölskyldan samanstandi af jafnvel þremur ættliðum, eins og í bændasamfélaginu hér áður fyrr. Nú eru það aðeins foreldrar og börn eða foreldri og barn eða börn því við búum í iðn- og tæknivæddu þjóðfélagi þar sem verkfært fólk verður að sækja út af heimilunum á vinnumarkaðinn til að afla tekna til heimilisins. Framleiðslan fer ekki lengur fram á heimilunum. Hún hefur flust í verksmiðjurnar sem kalla á fleiri verkfærar hendur, skapa fleiri atvinnutækifæri. Þannig hefur þjóðfélagið kallað á húsmæðurnar út á vinnumarkaðinn.

Fyrir svo sem tveimur áratugum var það ekki orðið algengt að húsmæður ynnu utan heimilis, a.m.k. ekki á meðan þær voru með ungbörn á framfæri eða börn á skólaaldri. Síðan hefur þetta breyst, eins og áður sagði, með breyttum atvinnuháttum og auk þess sem menntun kvenna hefur aukist. Konur nota nú hæfileika sína og menntun til að sinna hugðarefnum sínum utan heimilis, ef þau er þar að finna, og nú vinna, eins og kunnugt er, um 80% kvenna utan heimilis. Ekki þarf að minna á jafnréttisbaráttuna sem einnig vegur þungt í þessum málum.

Það er ekki heldur hægt að líta fram hjá því að launatekjur einnar fyrirvinnu duga ekki til framfærslu heimilis ef hafðar eru í huga kröfur tímans í lífsgæðakapphlaupinu.

Til þess að mæta þessari þróun verða opinberir aðilar að bregðast við og skapa þau skilyrði að foreldrar hafi sem flesta valkosti til að leysa þessi mál. Það verður að líta jöfnum höndum á konur og karla sem aðalfyrirvinnu heimilisins. Þess vegna verður á svo mörgum sviðum að taka tillit til breyttra aðstæðna og bregðast við þeim. Það ætti t.d. í frjálsum samningum vinnuveitenda og launþega að taka tillit til þarfa fjölskyldunnar, t.d. með því að gefa kost á sveigjanlegum vinnutíma þar sem því verður við komið og gera ráð fyrir fjarvistum foreldra ungra barna. Einnig mætti gera ráð fyrir tímabundnu hlutastarfi meðan þörfin er mest fyrir umönnun og að foreldrar geti jafnvel tekið launalaust leyfi í stuttan tíma ef það hentar þeim betur. Ríki og sveitarfélög eiga að sjálfsögðu að ganga á undan og bæta möguleika foreldra með þessum hætti.

Varðandi það frv. sem hér er á dagskrá, þá tek ég undir það að engum dylst að gera þarf stórátak í uppbyggingu dagvistarheimila. Það er brýnt að finna leið út úr þeim vanda.

Skv. frv. er lagt til að lögbinda ákveðna prósentu á fjárlögum til bygginga dagheimila. Ég er sammála þeim sem telja varhugavert að fara út í slíkar ráðstafanir, að ganga lengra en orðið er á þeirri braut að marka tekjustofna ríkisins til ákveðinna verkefna. Ég er því sammála nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. í þessu máli.

Í nál. kemur fram að ríki og sveitarfélög kosta byggingu dagheimila sameiginlega og er hlutdeild hvors um sig 50%. Þar erum við e.t.v. komin að kjarna málsins, þ.e. samskipti ríkis og sveitarfélaga varðandi verkefni sem betur væri komið í höndum annars aðilans. Ég tel að bygging og rekstur dagheimila eigi að vera alfarið í höndum sveitarfélaga, þeirra sem standa þessum verkefnum næst og þekkja best til þarfa á hverjum stað. Þetta eru staðbundin verkefni þar sem aðstæðurnar eru misjafnar og þörfin mismunandi eftir byggðarlögum. Sums staðar er hún mikil, annars staðar er hún lítil eða jafnvel engin. Núverandi fyrirkomulag skapar oftar en ella erfiðleika, eins og hér hefur greinilega komið fram í umr., þar sem fjárhagsgeta samskiptaaðilanna fer ekki saman. Sveitarfélögin lenda í erfiðleikum t.d. vegna þess að þau byggja hraðar en samið hefur verið um og ríkissjóður lendir þar af leiðandi í erfiðleikum með að standa við sínar skuldbindingar og safnar skuldahala sem erfitt reynist að losna við. Með því að færa þetta verkefni yfir til sveitarfélaganna, með tekjustofna að sjálfsögðu, tel ég að þessum málum yrði miklu betur sinnt og meiri möguleikar á sveigjanleika í rekstri eftir því sem hentar á hverjum stað.

Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga hefur verið í athugun og til umræðu árum eða áratugum saman. A.m.k. minnist ég þess að í þá tvo áratugi sem liðnir eru frá því að ég tók fyrst þátt í sveitarstjórnarmálum hafa þessi mál verið á dagskrá. En það verður minna úr framkvæmdum.

Mig langar að lesa hér greinarkorn úr álitsgerð verkaskiptanefndar ríkis og sveitarfélaga sem kom út árið 1981. Að vísu er hún orðin fimm ára gömul, en hún er svo sannarlega ekki orðin úrelt hvað varðar þau mál sem hér er verið að fjalla um. Með leyfi forseta langar mig að lesa hérna greinarbút úr þessari ályktun sem varðar dagvistarmálin. Þar segir:

„Telja verður að tilgangurinn með setningu laga nr. 29/1973 [þ.e. upphaflega lagasetningin] um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarstofnana hafi verið sá að örva sveitarfélög og aðra aðila til að auka starfsemi sína á þessu sviði. Nefndin vekur athygli á að fjárveitingar til dagvistarmála hafi verið mjög takmarkaðar. Þó svo að þátttaka ríkisins í stofnkostnaði hafi e.t.v. örvað sveitarfélögin til framkvæmda, þá hefur það jafnframt valdið sveitarfélögunum óvissu um framkvæmdahraða og væntanlega starfrækslu. Í sem fæstum orðum telur nefndin óeðlilegt að sveitarfélög bindi fjármagn í framkvæmdum sem síðan dragast á langinn vegna þess að framlög ríkisins eru ekki innt af hendi. Þá telur nefndin staðla menntmrn. of einhliða og lítt til þess fallna að sveitarfélög eða áhugamannafélög leiti hagkvæmustu leiða í dagvistarmálum.“

Þá segir einnig í þessum kafla um tillögur nefndarinnar „að þátttaka ríkis í stofnkostnaði dagvistarstofnana verði felld niður, en kostnaðurinn greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi og þeim er þjónustuna vilja nota.“

Ég held að það væri vel við hæfi að taka á þessu verkefni sérstaklega með það í huga að koma þessum málum í viðunandi horf með því að færa þau yfir til sveitarfélaganna, þó það sé ekki það sem við getum leyst hér í dag, og tryggja þannig framtíðarlausn þeirra.

Það hefur komið fram í umr. að með því að vísa þessu máli til ríkisstj. óttaðist t.d. hv. flm. frv., hv. 11. þm. Reykv., að verið væri að svæfa málið eða fela það niðri í skúffu. Ég er ekki sammála þessu. Eins og fram kom í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. klofnaði n. í þrjá hluta, en var samt sammála um megininntakið. Eins og svo oft áður greinir okkur stundum á um leiðir að sama markmiði, en það er ekki sanngjarnt að segja að ekki sé einnig einlægur vilji meiri hl. n. Þó að ég eigi nú ekki að svara fyrir hönd meirihlutamanna finnst mér málflutningur þeirra og nál. bera þess vott að þeir séu sama sinnis og þeir þm. sem flytja tvö nál. minni hl.

Það kemur skýrt fram í nál. meiri hl. að tekið er undir meginmarkmið frv., að það verði að gera stórátak í dagvistarmálum barna sem miði að því að fullnægja þörf fyrir dagvistarrými. Mér finnst þetta vera gott vegarnesti fyrir ríkisstj. og um leið stuðningur fyrir hæstv. menntmrh. sem mér er vel kunnugt um að hefur einnig mjög mikinn áhuga á þessu máli, en orðið að sætta sig við, eins og við öll hin, að geta ekki staðið að því að auka fjárveitingar til þessa málaflokks. En þetta er góður stuðningur við þann vilja hennar að hlúa að þessum málum eftir því sem tök eru á. En við verðum að hafa í huga að niðurskurður á framlögum til dagvistarheimila varð ekki meiri en bitnaði á öðrum þáttum, þ.e. það var 50% niðurskurður frá till. hæstv. menntmrh. Það er nefnilega ekki spurning um vilja í þessu efni, heldur spurning um fjárhagsgetu.