27.02.1985
Efri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3357 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Óli Þ. Guðbjartsson:

Virðulegi forseti. Þessi mál, sem hér eru á dagskrá, eru býsna þýðingarmikil og afgreiðslan í n., sem hér hefur verið gerð grein fyrir, sýnir í rauninni að þetta mál hefur á sér margar hliðar. Nál. eru þrjú. Það kann vel að vera að hér gæti bæst við það fjórða. Ég hef að vísu ekki haft aðstöðu til að fjalla neitt sérstaklega um þetta fyrr, en engu að síður langar mig, úr því ég fæ tækifæri, til að láta í ljós skoðun mína á a.m.k. hluta af þessu máli.

Það er alveg rétt, sem hér kemur fram, að átaks í dagvistarmálum barna er sannarlega þörf, sjálfsagt í öllu þéttbýli hér á landi. Eins og kom fram í máli hæstv. forseta áðan er hér um að ræða verkefni sem er sameiginlegt verkefni sveitarfélaga og ríkis í dag, þ.e. bygging þessara stofnana. Þarna er 50% skipting rétt eins og varðandi grunnskólana hér á landi. Ég vil taka undir þá skoðun, sem kom fram í máli hæstv. forseta, að þetta verkefni er dæmigert um það og ætti að minni hyggju að vera eitt það fyrsta sem færa ætti frá ríki til sveitarfélaganna. Það er einmitt vegna þess að þau eru oft og tíðum ekki mjög viðamikil. Þau koma að vísu víða við, en notandinn er í sveitarfélaginu sjálfu og þess vegna eru neytendurnir býsna nærri þar sem þörfin er mest.

En það er önnur hlið þessa máls sem mig langaði sérstaklega til að vekja athygli á. Það eru tekjustofnarnir. Það er alsiða og hefur verið um mörg undanfarin ár að verkefni hafa færst yfir á sveitarfélög frá ríki, en þá án tekjustofna. Ég minni t.d. á, kannske léttvægan þátt þó, viðhald skólahúsnæðis. Ég held að reynslan af þeirri breytingu hafi ekki verið góð. Það var vegna þess að það gleymdist í því sambandi að láta tekjustofna fylgja með. Það er einmitt aðalatriðið til þess að ná árangri að fá um leið öruggan tekjustofn.

Ég er að því leyti sammála flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, að eyrnamerkja ætti tekjustofna í þessu sambandi. Ég held þó að skynsamlegt væri að gera það á einhvern þann veg að ákveðinn hluti t.d. söluskatts eða í framtíðinni virðisaukaskatts yrði í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eyrnamerktur þannig að ákveðin framlög gætu gengið til þeirra sveitarfélaga, af því að þörfin er svo misjöfn í landinu, sem stæðu í framkvæmdum að þessu leyti. Mér sýnist að þetta atriði hafi ekki komið fram í þeim ágætu nál. sem hér er um að ræða, en vildi nota tækifærið til að koma þeirri skoðun minni á framfæri.