27.02.1985
Efri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3359 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Frsm. 1. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hér hafa tekið til máls og lagt sín lóð á vogarskálar þessa málefnis. Það er þó ástæða til að minnast frekar á fáein atriði og svara sumu af því sem hér hefur komið fram.

Þegar ég gerði grein fyrir nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. svaraði ég í rauninni flestu af því sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég get þó ekki látið fram hjá mér fara setningu, sem mér heyrðist detta upp úr hv. þm., á þá leið að ekki væri við hæfi að láta sér detta hvaða upphæð sem er í hug sem framlag til þessara mála. Okkur Kvennalistakonum hefur ekki dottið hvaða upphæð sem er í hug til þessara mála. Eins og er rækilega gerð grein fyrir í grg. með frv. er sú upphæð, sem við leggjum til að verði varið til þessara mála, vandlega miðuð við áætlaða þörf á aukningu dagvistarrýmis. Ég sé ekki ástæðu til að lesa grg., en þar er ítarlega gerð grein fyrir hvers vegna við teljum að þetta mikið fé þurfi.

Hv. þm. taldi að um yfirboð væri að ræða, að sveitarfélögin mundu ekki nýta sér þetta fé, það eru þá ekki hundrað í hættunni. Féð rennur ekki út í sjó á meðan, eins og hv. þm. tiltók. Fjárveitingin fellur einfaldlega niður um hver áramót. Mér finnst eins og ég sagði áðan, að það sé heldur hæpið að taka mið af óskum sveitarfélaganna á síðasta ári við ákvörðun framlaga. Óskir sveitafélaganna eru ekki náttúrulögmál. Þær eru háðar pólitískum vilja og forgangsröðun í sveitarstjórnum hverju sinni. Því finnst mér hæpið að taka mið af fjárhæð eins árs þegar verið er að leggja til svona langa bindingu á fjármunum eins og hér er gert.

Það virðist vera sem svo að hv. þm. geri ekki ráð fyrir breytingu á forgangsröðun sveitarfélaganna í þessu efni og þar með e.t.v. ekki ráð fyrir breytingu á pólitískum meiri hl. í sveitarstjórnum. (Gripið fram í: Þá breytum við lögunum.) Við getum vitaskuld á hverju einasta þingi, borið fram frv. um að breyta lögum, en lagafrv. eru borin fram til þess að þau hafi eitthvert gildi, vænti ég.

Mér þykir öllu heppilegra að þegar við erum að gera tillögur um lög tökum við mið af því að lögin geti reynst haldgóð, a.m.k. það tímabil sem þau eiga að vara.

Ég þakka mörg ágæt orð sem hæstv. forseti lét falla hér um þessi mál, en ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel ekki rétt að færa dagvistarmál alfarið frá ríkinu til sveitarfélaganna. Ég tel þjónustu dagvistarstofnana vera sambærilega við þjónustu skóla og heilsugæslustöðva. Það er ljóst að fjárhagsgeta sveitarfélaganna er mismunandi og þar af leiðir að ef ríkið tæki ekki þátt í fjármögnun dagvistarheimila gæti það leitt af sér mismunun. Sá jöfnunarþáttur sem ríkið getur þó sinnt er þá ekki lengur til staðar. Með þátttöku sinni er ríkið í stakk búið til að sjá um að menn sitji við sama borð í þessum efnum óháð búsetu, þ.e. óháð því hvaða sveitarfélagi menn búa í.

Hv. þm. nefndi það sem rök fyrir því að færa þessi verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga að framkvæmdir vildu oft dragast á langinn hjá sveitarfélögunum vegna þess að það stæði á framlagi ríkisins. Þetta er alveg rétt. Það er einmitt tilgangur frv. sem hér er nú til 2. umr. að tryggja að ekki standi á framlagi ríkisins til þessara mála og að framkvæmdir dragist ekki á langinn af þeim sökum.

Hv. 3. þm. Suðurl. og hv. 4. þm. Austurl. bentu báðir á að ekki væri ráðlegt að færa verkefni til sveitarfélaganna án þess að marka þeim tekjustofna í leiðinni. Ég er vitaskuld fyllilega sammála þessu. Við höfum þegar mörg dæmi um og slæma reynslu höfum við af að hafa fært verkefni á milli aðila án þess að hugsa fyrir tekjum.

Hæstv. forseti vildi álíta að ég hefði efast um góðan vilja hv. meirihlutamanna í fjh.- og viðskn. Ég tók það skýrt fram að ég efaðist ekki um góðan vilja þessara ágætu hv. þm. Það sem ég efaðist um var að stefnubreyting mundi verða í þessum málum hjá ríkisstj.

Hv. 4. þm. Reykn. taldi að frv. gæti orðið góð stoð fyrir hæstv. fjmrh. við gerð næstu fjárlaga og hefði gildi sem slíkt. Ég vona svo sannarlega að hæstv. forseti reynist þar sannspár og að hæstv. fjmrh. hafi mikla stoð af þessu frv. sem meiri hl. leggur til að verði vísað til ríkisstj. með góðum vilja.

Að endingu vil ég aðeins minnast á það, sem hv. 4. þm. Austurl. nefndi áðan, að það væri mikill þrýstingur í sveitarfélögunum í þá átt að ráðast í framkvæmdir í dagvistarmálum. Ég vona að hv. þm. hafi þar lög að mæla. Það er ósk mín og von með því að bera fram þetta frv. að aukin fjárframlög ríkisins til þessara mála verði sveitarfélögunum mikil hvatning til að gera það stóra átak sem allir eru sammála um að þurfi að gera í þessum málum.