27.02.1985
Neðri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3371 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

5. mál, útvarpslög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. beindi í fyrri hluta ræðu sinnar á mánudaginn nokkrum fsp. til mín. Fyrsta fsp. hans var hvert væri viðhorf samgrh. til eignarhalds á dreifikerfum útvarps með þráðum, eða köplum eins og það er einnig kallað, og til sendivirkja sem upp yrðu sett í þessu sambandi eins og endurvarpsstöðvar. Kerfum sem geta hvað endingu snertir þjónað nokkrum kynslóðum er best fyrir komið í opinberri eigu og þá í ríkiseign til að gera öllum jafnt undir höfði. Til álita kemur að kerfi þessi yrðu þó í eigu sveitarfélaga að öllu eða einhverju leyti. Þetta er í örstuttu máli mín skoðun og svar við þessari fyrstu fsp.

Í öðru lagi spurði hv. þm. hvað liði undirbúningi að löggjöf um þessi mál á vegum samgrh. Það er á misskilningi byggt að í samgrn. sé unnið að frv. til l. um þessi mál, enda ný lög um fjarskipti ekki ársgömul. Aftur á móti starfar sérstök sjö manna nefnd á vegum rn. að samningu reglugerðar um fjarskiptamál á grundvelli þessara nýju fjarskiptalaga. Hér er um vandasamt starf að ræða, sem mun taka lengri tíma en bæði ég og aðrir gerðu ráð fyrir, fyrst og fremst vegna þeirra fjölmörgu atriða sem fjalla þarf um.

Hitt er annað mál, að þetta starf nefndarinnar leiðir vafalaust til þess að nauðsyn er talin að breyta núgildandi lögum. En það er varla hægt að fara út í þær breytingar fyrr en reglugerðin liggur fyrir en það vona ég að verði um eða eftir mitt þetta ár.

Þriðja spurningin var hvort ég ætli að beita mér fyrir lagasetningu um þessi efni á þessu þingi. Eins og svar við fsp. á undan gerir ráð fyrir, þá er útilokað að ég muni leggja fram frv. á þessu þingi, en ég vænti þess að þessi mál verði komin það langt á veg að hægt verði að leg ja frv. fyrir snemma á næsta þingi.

Í fjórða lagi spurði hv. þm. mig að því hvort samstaða væri á milli menntmrh. og samgrh. um það á hvern hátt taka skuli á þessum málum og tryggja að þau geti orðið samferða í gegnum þingið ef það er viðhorf ríkisstj. að efni þeirra heyri undir samgrh. og löggjöf um fjarskipti. Það verður, eins og ég sagði fyrr, ekki á þessu þingi sem þessi mál verða lögð fyrir.

Skilgreining fjarskiptalaganna á fjarskiptum er: hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum með rafsegulöldum (radio) eða öðrum rafsegulkerfum eða með sjónmerkjum. Skilgreining laganna á fjarskiptavirki er þessi: Hvers konar tæki, tækjahlutar, leiðslur, búnaður og því um líkt sem sérstaklega er ætlað til að koma á fjarskiptum eða reka þau, hvort heldur er til sendingar eða móttöku.

Skv. 2. gr. laganna hefur ríkið einkarétt á að stofna og reka á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi hvers konar fjarskipti. Í 2. mgr. þessarar greinar eru svohljóðandi ákvæði: „Ráðh. sá sem fer með fjarskiptamál (þ.e. samgrh.) getur heimilað einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að stofna og reka fjarskiptavirki, þó ekki í atvinnuskyni að því er varðar fjarskiptin sem slík. Leyfið skal veitt um ákveðinn tiltekinn tíma með þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þykir til í hverju tilviki.“

Þetta síðasta ákvæði kom inn í fjarskiptafrv. í meðferð Alþingis. Það er því ljóst að sé kapalkerfið rekið í atvinnu- eða fjáraflaskyni er ekki heimilt að veita þeim aðilum, sem þar greinir, heimild til stofnunar og reksturs slíkra fjarskiptavirkja.

Rétt er að taka það skýrt fram að sendingar um kapalkerfi snerta ekki það svið fjarskipfalaga sem er á vegum Póst- og símamálastofnunar. Það er vegna þess að skv. útvarpslögum er flutningur á tali og sjónvarpsefni undir einkarétti Ríkisútvarpsins hvað varðar starfsemina. Varðandi þetta ákvæði er 7. gr. fjarskiptalaganna sem hljóðar svo: „Póst- og símamálastofnunin annast framkvæmd á einkarétti ríkisins til fjarskipta, nema lög kveði á um annað á tilteknum sviðum fjarskipta.“

Að síðustu vil ég taka það skýrt fram að ég tel nauðsynlegt að settar verði reglur um hin svokölluðu kapalkerfi og yfirstjórn með framkvæmd þeirra verði í höndum samgrh. Hins vegar er það öllum ljóst að nauðsynlegt er að mjög gott samstarf sé milli samgrh. og menntmrh. um framgang þessara mála. Þetta eru flókin og erfið mál sem hefur tekið miklu lengri tíma að fjalla um en við var búist, eins og ég sagði í upphafi máls míns. En um leið og reglugerðin liggur fyrir er hægt að hefjast handa um næstu endurskoðun fjarskiptalaganna og verður reynt að hraða þeirri endurskoðun eins og tök eru á. Ég man það ekki alveg en ég held að ekki sé fjarri sanni að endurskoðun þessara fjarskiptamála hafi tekið fimm ár. Loks var svo afgreitt hér seint á síðasta þingi nál. sem þá lá fyrir. Ég lagði á það mjög ríka áherslu litlu eftir að ég varð samgrh. að þessi nefnd hraðaði störfum sínum, en störf hennar höfðu gengið afar hægt að mér er óhætt að segja 1–2 ár á undan. Það varð til þess að nefndin tók til óspilltra málanna og skilaði þessu nál.

Ég skal játa það að sem leikmaður á þessu sviði hélt ég að samning reglugerðar mundi taka tiltölulega skamman tíma. Ég hef hvað eftir annað rætt við formann þeirrar nefndar sem nú fer með þessi mál og hann hefur skýrt mér frá hvað margt sé þarna flókið og þurfi ífarlegrar athugunar við. Því skil ég það núna miklu betur en áður að þetta tekur óhjákvæmilega lengri tíma en við hefðum kosið. En ég get fullvissað hv. fyrirspyrjanda og aðra um það að ég hef fullan hug á því að fylgja þessum störfum vel eftir og í framhaldi af því að hefja nýja endurskoðun fjarskiptalaga.