27.02.1985
Neðri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

5. mál, útvarpslög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það má segja, að með afgreiðslu nefndar á þessu útvarpslagafrv. sem hér er til umr. hilli undir að á ný verði leyfður frjáls útvarpsrekstur hér á landi, og ég tala um frjálsan útvarpsrekstur í þeirri merkingu að það séu aðrir en ríkisvaldið sem standi að slíkum rekstri. Útvarpsrekstur var í höndum einkaaðila á 3. tug þessarar aldar, en árið 1930 var stofnað til ríkisrekstrar útvarps. Það var ekki fyrr en 1934 sem ríkið fékk einkarétt á útvarpsrekstri, en í þá tíð sveif andi Jónasar frá Hriflu yfir vötnum íslenskra stjórnmála. Frá þessum tíma eða árunum milli 1930 og 1940 eru einnig lög um einkasölu ríkisins á eldspýtum og fleira í þeim dúr.

Það var árið 1977 sem Guðmundur H. Garðarsson, þm. Sjálfstfl., flutti frv. til breytinga á útvarpslögum þar sem gert var ráð fyrir afnámi einkaréttar Ríkisútvarpsins. Það frv. var síðan endurflutt ári síðar og var ég þá meðflm. frv. Árið 1981 fluttum við svo nokkrir sjálfstæðismenn heillegt frv. um útvarpsrekstur annarra en ríkisvaldsins. Auk mín voru flm. hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Halldór Blöndal sem báðir eiga sæti í hv. menntmn. og auk þeirra hv. þm. Pétur Sigurðsson og hæstv. fjmrh., Albert Guðmundsson. Það frv. hafði sem betur fer talsverð áhrif á störf útvarpslaganefndar sem þá stóðu sem hæst, en það er sú nefnd sem samdi það frv. sem hér er til umr. og var lagt fram s.l. haust öðru sinni.

Ég viðurkenni að ég hefði kosið að frv. kæmi fram í öðrum búningi frá hv. menntmn., þ.e. gerðar yrðu aðrar og fleiri brtt. við frv. en koma frá meiri hl. n. Mér sýnist of mikið bera á því að reynt hafi verið að ná samkomulagi milli stjórnmálaflokka sem hafa mjög ólíka skoðun á þessu máli. Þau atriði sem ég tel að þyrftu að breytast eru í fyrsta lagi að útvarpsréttarnefnd verði . embættismannanefnd skipuð en ekki kjörin af Alþingi. Ég tel að starfssvið útvarpsréttarnefndar sé framkvæmdalegs eðlis og að mínu áliti að hún hafi tiltölulega lítil völd. Hins vegar tel ég að þeir aðilar sem mestu ættu að ráða um leyfi til útvarpsreksturs séu sveitarstjórnir þar sem reksturinn fer fram.

Á sínum tíma kom það viðhorf fram hjá Bandalagi jafnaðarmanna — það var fyrir síðustu kosningar — að menntmn. þingsins ættu að hafa veruleg afskipti af útvarpsrekstri hér á landi, en sem betur fer virðist sá stjórnmálaflokkur hafa horfið frá því sjónarmiði og eru tillögur hans nú mun frjálslyndari en þá.

Því er stundum haldið fram að ekki sé hægt að setja völd í hendur sveitarstjórna í þessum málum þar sem heyrist í útvarpi eða sést í sjónvarpi út fyrir mörk viðkomandi sveitarfélaga. Þetta eru að sjálfsögðu ekki rök í málinu fremur en þau, að auðvitað getur hver og einn hér á landi fylgst með sendingum erlendra útvarpsstöðva og eru þó Íslendingar ekkert spurðir um það hvort slíkar stöðvar séu leyfðar eða ekki.

Í öðru lagi finnst mér það íhugunarvert, hvort Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins eigi að byggjast upp á 10% framlögum, eins og gert er ráð fyrir í frv., algerlega óháð afkomu útvarpsins hverju sinni. Það verður þó að segjast að fjármagnið sem safnast saman í framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins á skv. lagafrv. að nýtast til fleiri framkvæmda en gert er ráð fyrir í núgildandi lögum. Þá finnst mér enn fremur varhugavert að taka inn í 16. gr., eins og segir í 16. gr. frv., ákvæði þess efnis að aðflutningsgjöld af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau skuli renna til Ríkisútvarpsins. Þessi háttur var á hafður fyrir nokkrum árum en var afnuminn, ef ég man rétt, árið 1977. Og ég tel það ekki til bóta að taka þessa fjármögnunarleið upp á ný. Í reynd þarf annað lagaákvæði til að koma en þetta, sem hér um ræðir, því varla verður það talið nægja til að innheimt verði aðflutningsgjöld beint til Ríkisútvarpsins.

Í þriðja lagi tel ég það ekki til bóta, sem kemur fram í till. meiri hl. hv. menntmn., að stofna eigi menningarsjóð sem verði til með skatti á auglýsingar í útvarpi, — útvarpi í merkingu þessa lagafrv. og mun ég ekki ræða um það atriði að sinni.

En það eru hins vegar önnur atriði í þessu frv. og í brtt. hv. n., þ.e. meiri hl. n., sem horfa til bóta frá mínum sjónarhóli. Annars vegar tel ég það til bóta að nú er gert ráð fyrir að hægt sé í vissum tilvikum að leyfa útvarp einkaaðila á miðbylgju auk FM-útvarps og í annan stað er gert ráð fyrir að útvarpsstöðvar geti nú átt og rekið þau tæki sem þær nota við útvarpsreksturinn. Það sem ég tel hins vegar alvarlegast og kannske vafasamast við frv. eins og það liggur fyrir nú og var lagt fram á sínum tíma, kom reyndar þannig frá útvarpslaganefndinni, er að það verður varla séð að nægilega sé gert ráð fyrir samkeppni í útvarpsrekstri og það frelsi sem verður til með lögunum virki ekki, enda er fjáröflun stöðvanna skorður settar. Það er af þessari ástæðu sem ég flyt brtt. sem nánast er orðrétt tekin úr því frv. sem við nokkrir sjálfstæðismenn fluttum á þinginu 1981–82. Skv. þessari brtt., sem er á þskj. 514, er gert ráð fyrir að ekki verði lögð höft á auglýsingar, hvort sem um er að ræða kapalútvarp eða þráðlaust útvarp og er enginn munur gerður á því, hvort afnotagjald er innheimt eða ekki. M.ö.o., þessar fjáröflunarleiðir, ef nota má það orð yfir þessi atriði, eru opnaðar þannig að hægt er að reka útvarpsstöðvar með svipuðum hætti og gerist með blöð og tímarit hér á landi. Jafnvel gæti Tófuvinafélagið gefið út tímarit og safnað auglýsingum í það rit og haft áskrift samhliða og nefni ég Tófuvinafélagið sérstaklega til heiðurs hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem ræddi það sérstaklega áðan eins mikið og það kom málinu við. (HG: Gefa út fréttabréf.) Vegna þessa innskots frá hv. þm., þá er það misskilningur að samkvæmt tillögu minni séu útvarpsstöðvar skyldaðar til þess að auglýsa. Hér er um heimildarákvæði að ræða og ef einhver hugsjónaaðili, svo að ég taki mér í munn það sem helst mátti skilja á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að hann berðist fyrir, vildi nú útvarpa, þá er honum ekki skylt að safna auglýsingum. Hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða.

Ég hef trú á að þessar brtt. nái fram að ganga og að þm. Sjálfstfl. styðji þessar tillögur. Ég tel að nokkrir, a.m.k. nokkrir þm. Framsfl. geri það jafnframt. Bandalag jafnaðarmanna hefur lýst stuðningi við þessar tillögur og reyndar flutt tillögur sem eru nánast eins. Er ég þá að tala um efnisatriði sem koma fram í þessari till. minni fremur en bylt sé í einu og öllu orðalaginu. (Gripið fram í.) Það er hins vegar spurning hvar Alþfl. stendur í þessu máli. Fulltrúi Alþfl. í nefndinni, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, flytur margar brtt. við frv. Þær ganga flestar út á það að fella inn í frv. hugmyndir Björns Friðfinnssonar um boðveitur sem eiga kannske fremur heima í annarri löggjöf sem heyra mundi þá undir samgrn. Verði ekki fallist á tillögur Alþfl. um boðveitur í þessu frv. tel ég ekki loku fyrir skotið að Alþfl. muni styðja þau sjónarmið sem koma fram í þeirri brtt. sem ég hef leyft mér að flytja.

Hv. formaður menntmn. hefur sagt frá því að frv. fari aftur til skoðunar hjá hv. nefnd milli 2. og 3. umr. Þess vegna þykir mér rétt að sú till. sem ég flyt við frv. verði til umr. í nefndinni og reynt verði að ná sem víðtækastri samstöðu innan nefndarinnar um hana eða þau sjónarmið sem liggja henni að baki. Það væri að mínu viti óverjandi að kanna ekki hvort meiri hl. sé á hv. Alþingi fyrir því að afnema þau auglýsingahöft sem koma fram í frv. Hv. menntmn. á ekki sök á því að þessi ákvæði voru í frv. eins og því var skilað til þáv. menntmrh. Ingvars Gíslasonar, en útvarpslaganefnd vann að undirbúningi málsins fyrir hann þegar hann var menntmrh.

Viðhorf Alþb. koma engum á óvart. Það er óþarfi að hafa mörg orð um þau. Þeir hafa alltaf dregið lappirnar í þessu máli og þegar þeim var ekki stætt á að viðhalda einokun Ríkisútvarpsins sneru þeir sér að því að reyna að takmarka frelsi til útvarpsreksturs eins mikið og þeim var unnt. Þeir hafa bent á Norðurlöndin í þessu sambandi. En ég vil á móti segja að ein meginástæða fyrir því að ekki eru auglýsingar í sjónvarpsstöðvum á Norðurlöndum — það munu vera útvarpsauglýsingar a.m.k. í sumum í Finnlandi — meginástæðan er vernd dagblaðanna. Fulltrúar dagblaðanna í þessum löndum töldu að þau mundu lognast út af, ef aðrir fjölmiðlar, útvarp í skilningi þessara laga, fengi leyfi til að birta eða flytja auglýsingar í dagskránni. Þetta hefur verið til endurskoðunar og ég tel að það líði ekki mörg ár þangað til sjónvarpsstöðvar og útvarpsstöðvar á Norðurlöndum verði í auknum mæli farnar að birta og flytja auglýsingar. Kemur það til m.a. af því að í framtíðinni verður ekki hjá því komist að hægt sé að hlusta á útvarp og horfa á sjónvarp frá öðrum löndum, þar sem auglýsingar eru birtar og ekki nokkur leið að strika þær út úr dagskrá. Á ég þá við þá tækni sem fæst þegar gervihnettir verða notaðir til að varpa niður sendingum frá löndum þar sem auglýsingar eru leyfðar eða eins og gerist í dag. Þegar maður hlustar á erlendar útvarpsstöðvar, sem leyfa auglýsingar, þarf maður að vera ansi snöggur ef maður ætlar að skrúfa fyrir viðtækin til að koma í veg fyrir að auglýsingar flæði út úr útvarpstækjunum. En svona sjónarmið eins og koma fram hjá Alþb. koma ávallt til með að heyrast, ekki síst frá flokki eins og því. Alþb.-menn hafa ávallt alið á óttanum við auglýsendur, kallað þetta peningamenn og athuga ekki að auglýsendur auglýsa fyrst og fremst það sem þeir telja að sé vinsælt og er það kannske ein besta tryggingin fyrir því að vinsælt efni sé sýnt að auglýsendur fái að auglýsa í útvarpi. Þetta skilja ekki Alþb.-menn því að í þeirra hugum er fjölmiðlun aldrei afþreying eða fróðleikur, heldur alltaf áróður. Þjóðviljinn er táknrænt afkvæmi þessarar hugsunar, enda vill enginn auglýsa í Þjóðviljanum. Ég veit ekki af hvaða ástæðum hv. frsm. Alþb. þurfti að koma því að í sínu máli áðan að sumir væru tilbúnir til að selja skrattanum ömmu sína. Ég veit ekki hvaða erindi þetta átti í ræðu hans. Ég skal hins vegar viðurkenna að ég er viss um að Alþb. mundi ekki vilja selja ömmu sína, en þeir væru vísir til þess að gefa hana og senda síðan skattborgurunum reikninginn.