24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

83. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 frá 23. júlí 1974, um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Flm. ásamt mér er hv. 8. þm. Reykv. Stefán Benediktsson. Þetta er 83. mál Ed. á þskj. 85.

Þetta frv. er endurflutt óbreytt frá 105. og 106. löggjafarþingi. Grg. fylgja þrjú fskj.; grein eftir Jón Sigurðsson um starfsemi Verðlagsráðs sjávarútvegsins, grein eftir Friðrik Pálsson um starfshætti Verðlagsráðs sjávarútvegsins og grein eftir Vilmund Gylfason um frjálst fiskverð úr Nýju landi frá 1981.

Vilmundur Gylfason lagði þetta frv. fyrir 105. löggjafarþing.

Þetta frv. um breyt. á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins felur í sér eina breytingu þess efnis að 10. gr. laganna falli niður, en í stuttu máli fjallar 10. gr. laganna um sérstaka yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins með oddamanni frá Þjóðhagsstofnun. Með slíku fyrirkomulagi hefur ríkið bein afskipti af ákvörðun um fiskverð.

Þegar útflutningsbótakerfið var lagt niður í ársbyrjun 1960 var ákveðið að opinberum afskiptum af fiskverðsákvörðunum skyldi hætt og teknir upp frjálsir samningar um verð milli fiskseljenda og fiskkaupenda. Þessi tilhögun reyndi á þolrif samningsaðila því komið var nærri vertíðarlokum áður en samningar tókust um fiskverð, en ekki kom samt til verkfalla.

Í upphafi árs 1961 voru gerðir nýir kjarasamningar milli sjómanna og útvegsmanna. Meginefni hinna nýju samninga var gagnger breyting á hlutaskiptareglum sem miðast við það m.a. að sjómenn taki sinn hlut úr sama verði og útgerðarmenn fengju fyrir fiskinn, en það hafði ekki áður verið. Framvegis skyldi hvorki samið um sérstakt skiptaverð, eins og áður hafði verið gert, né um frádrag frá fiskverðinu áður en til hlutar væri reiknað. Með þessum breytingum urðu hagsmunir sjómanna við verðlagsákvörðun enn skýrari en áður, en sjómenn gerðu vitaskuld þá kröfu að eiga beina hlutdeild að öllum fiskverðsákvörðunum. Eins og allir vita í dag standa þessir samningar ekki vegna þess að með lögum hefur skiptaverði verið breytt, mikill hluti verðmæta aflans fer fram hjá skiptum.

Árið 1961 lá nærri að til verkfalla kæmi hjá síldveiðiflotanum vegna þess að ekki hafði tekist að ákveða verð á síld. skipaði þáv. sjútvrh., Emil Jónsson, nefnd átta manna, einn frá hverju hagsmunasambandi. Á vegum þessarar nefndar var samið frv. til l. sem varð stofn að lögum nr. 97 18. desember 1961, um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Með þessum lögum var gert ráð fyrir að hagsmunaaðilar semdu um verð á sjávarafurðum óháðir ríkisafskiptum.

Breyting var gerð á þessum lögum í des. 1964, á skipun yfirnefndar sem fól í sér að forstöðumaður Efnahagsstofnunar eða fulltrúi hans var gerður sjálfkjörinn oddamaður yfirnefndar. Þetta ákvæði er enn óbreytt nema hvað Þjóðhagsstofnun er komin í stað Efnahagsstofnunar. Þar með tekur ríkisvaldið sér stöðu á milli samningsaðila. Þessi tilhögun hefur leitt það af sér að ójafnvægi hefur skapast milli fiskkaupenda og fiskseljenda. Hefur ríkisvaldið því vegna afskipta sinna af fiskverðssamningum gripið til ýmissa hliðarráðstafana, svo sem gengisfellinga eða uppbóta úr verðjöfnunarsjóðum. Þessar ráðstafanir hafa sjaldnast dugað lengur en þrjá mánuði með tilsvarandi verðbólguhækkunum og þörf á endurtekningu vegna hækkunar á rekstrarkostnaði.

Í fskj. II með þessu frv, segir í grein eftir Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóra Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem birt var í tímaritinu Ægi 1978, með leyfi hæstv. forseta:

„Á því er enginn vafi, að stofnun Verðlagsráðs sjávarútvegsins á sínum tíma og svo stofnun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins voru spor í rétta átt, en því miður er svo komið, að hvorug þessara stofnana stendur lengur undir nafni. Það gerist æ algengara í störfum beggja þessara stofnana, að forstjóri Þjóðhagsstofnunar og aðrir embættismenn í krafti ríkisstj. ákveði bæði fiskverð yfirnefndar Verðlagsráðs og viðmiðunarverð í Verðjöfnunarsjóði. Þær ákvarðanir eru sjálfsagt ekkert verri fyrir það, en við erum komin langt frá upphaflegum tilgangi með stofnun Verðlagsráðs, sem var að koma á frjálsum samningum milli kaupenda og seljenda án beinna afskipta ríkisstj.

Síðan þessi grein var skrifuð eru liðin sex ár og ástandið hefur versnað með hverju árinu, þori ég að fullyrða.

Ég ætla í sem stystu máli að fara yfir hvernig þessar ákvarðanir hafa verið teknar frá því 1961 til dagsins í dag, en ég tíundaði þetta nokkuð á s.l. ári þegar ég mælti fyrir samhljóða frv.

Á árunum 1961–1982 hafa verið teknar alls 273 ákvarðanir um fiskverð af yfirnefnd Verðlagsráðs. Þar af hefur samkomulag náðst 65 sinnum. Ákvarðanir um fiskverð þar sem atkvæði oddamanns var notað með seljendum gegn kaupendum voru 110, en með kaupendum gegn seljendum 71. 23 ákvarðanir um fiskverð hafa verið teknar með atkvæði oddamanns og annarra fulltrúa á víxl eða með hjásetu. Oddamaður hefur fjórum sinnum úrskurðað fiskverð einn. M.ö.o. hefur 65 sinnum orðið samkomulag á meðan oddamannsúrskurður hefur ráðið 208 sinnum. Þetta segir okkur í stuttu máli þá sögu að atkvæði oddamannsins vegur hér langþyngst.

Ef við látum hugann reika til baka frá því 1982 má segja að frá því 1. sept. 1982 til 31. jan. 1984 hafi fiskverð verið ákveðið með lögum. Það hefur ekki einu sinni þurft oddamann til þess að skera þar úr. Það hefur verið formsatriði að samþykkja þær ákvarðanir í Verðlagsráði. Síðan þá hefur fiskverð verið ákveðið einu sinni og var stór hluti þeirrar ákvörðunar tilfærsla úr sjóðum. Síðasta ákvörðun, sem tekin var núna fyrir stuttu um verð á rækju, hljóðaði upp á 15% lækkun á rækjuverði. Þetta þarf ekki að tíunda fyrir hv. dm. og læt ég þetta því nægja um það.

Nú eru liðin 20 ár síðan ríkisvaldið hóf bein afskipti af fiskverðshækkunum. Vandi þessara atvinnuvega vex með ári hverju. Miðstýring þessara mála og sú núllregla sem er hvað mest í tísku í dag eru ekki þær leiðir sem skila bættum hag til þessara fyrirtækja. Það verður því að teljast rökrétt áskorun til hæstv. ríkisstj. að hún hætti afskiptum af fiskverðssamningum, enda verða samningsaðilar sjálfir að velja sér oddamann eða leita sér sáttasemjara náist ekki samningar. Með þessu fyrirkomulagi er gerð sú krafa til útgerðar og fiskvinnslumanna að þeir sníði sér stakk eftir vexti, enda er það í samræmi við þá kröfu sem gerð er til almennra launamanna.

Ef farið er í gegnum þau gögn Þjóðhagsstofnunar sem hún byggir ákvarðanir sínar á kemur skýrt í ljós að þar er mikill munur á lægstu og hæstu framlegð í fiskvinnslunni. Sá munur er það mikill að meðaltalsútreikningur verður gersamlega ómarktækur. Í gögnum Þjóðhagsstofnunar frá því í sept. kemur glögglega í ljós hve afkoma fiskvinnslustöðvanna er misjöfn. Þar eru tekin til 24 frystihús, bæði hjá SH og SÍS, og er lægsta framlegð, sem er skilgreind sem tekjur að frádregnum hráefnis-, launa- og umbúðakostnaði, 14.8%, en sú hæsta 31.4%. Ef við tökum meðaltal þessara tveggja húsa er meðaltalsframlegðin 23.1%. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur ekki neitt því eftir stendur að önnur fiskvinnslustöðin hefur 16.6% hærri framlegð en hin. Ég bendi aðeins á þetta vegna þess að miðað er við meðaltalsútkomu hjá fiskvinnslunni þegar reiknað er út hverjir það eru sem þoli hærra verð eða hvort fiskvinnslan þoli að borga hærra verð fyrir fiskinn.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. í þeirri von að það verði tekið til efnislegrar umfjöllunar.