24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

83. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Þetta frv., sem hér er lagt fram til umr., var einnig hér á ferðinni í fyrra um líkt leyti. Það var ekki afgreitt þá í sjútvn., en lá þar til athugunar og var það gert í samkomulagi við flm. að láta það bíða aðeins. Hér er svo veigamikið mál á ferðinni að sjálfsagt geta orðið um það nokkuð deildar meiningar.

Ég hafði nokkur orð um frv. við framlagningu þess hér í fyrra og vil ég, með leyfi forseta, aðeins grípa niður í það sem ég lét mér um munn fara þá.

Fiskverðsákvarðanir gegna stærra hlutverki í þjóðarbúskap okkar en flest annað. Þær ráða ekki aðeins miklu um rekstrarskilyrði fiskveiða og fiskvinnslu, heldur ráða þær verulega þróun í launamálum sjómanna þar sem aflahlutur er svo veigamikill þáttur í launum þeirra. Fyrr á árum voru þessi verðlagsmál oft í miklu öngþveiti, og t.d. á sjötta áratugnum, eins og kom fram hjá flm. hér áðan, valt oft á ýmsu. Þá ríkti oft megn óánægja hjá sjómönnum með fiskverð og voru þá oft margþættir samningar í gangi sem voru engum til góðs.

Eftir þá reynslu sem menn höfðu fengið af hinum ýmsu erfiðleikum við verðlagningu og verðlagsákvarðanir á ferskum fiski var Verðlagsráð sjávarútvegsins sett á stofn 1961. Þar tel ég að hafi verið stigið rétt spor í rétta átt. Og þótt að öllu megi finna sé ég ekki að annað kerfi bjóði upp á betri eða réttlátari möguleika í dag. Að sjálfsögðu fær þetta frv. rækilega umfjöllun í þingnefnd og leitað verður vafalaust umsagnar hagsmunaaðila, og ef fram koma í þeirri umræðu veigamiklir þættir, sem yrðu á einhvern hátt til bóta á núverandi kerfi, þá tel ég víst að allir verði sammála um að gera breytingu þar á.

En við skulum ekki gleyma því að hjá okkur Íslendingum ríkir sérstaða í verðlagningu sjávarafurða. Hjá hinum stærri fiskveiðiþjóðum ríkir hinn frjálsi uppboðsmarkaður, sem byggir á nálægð stórra neytendamarkaða, meðan við hér á Íslandi verðum að taka mið af neytendamörkuðum erlendis fyrir unninn fisk. Þeim markaðssveiflum, sem þar myndast, erum við því miður háð. Þetta ástand gerir okkur alltaf erfiðara fyrir í öllum verðákvörðunum á ferskum fiski. Ég dreg því mjög í efa að breyting á núverandi kerfi verði til bóta fyrir þá aðila sem þarna eiga hlut að máli og sennilega yrði þetta síst til bóta fyrir sjómenn og útgerðarmenn.

Þetta er lítil glefsa úr því sem ég sagði við 1. umr. í fyrra og bið ég afsökunar á því að ég skuli endurtaka það hér, en það er að gefnu tilefni því að hér er þetta komið fram aftur.

Ég vara enn við því að þetta frv. sé samþykkt. Sú tillaga, sem þar er, að leggja Verðlagsráð niður í þeirri mynd sem það er nú í, er slík gerbreyting.

Framsögumaður vitnaði í fyrra, ef ég man rétt, í nefnd sem var skipuð af fyrrv. sjútvrh. 17. febr. 1983. Þá skipar þáv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, í nefnd með vísun til ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 1 10. febrúar 1983, um olíusjóð fiskiskipa, olíugjald o. fl.:

„Eruð þér hér með skipaður formaður nefndar sem skal endurskoða lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins.“ — Þetta er bréf til Jóns Sigurðssonar, forstjóra Þjóðhagsstofnunar. (Gripið fram í: Oddamanns.) Oddamanns já. — „Alþingi hefur kosið fjóra menn í nefnd þessa. Það eru Matthías Bjarnason, Marteinn Friðriksson, Garðar Sigurðsson og Sighvatur Björgvinsson. Enn fremur eiga sæti í nefndinni Ingólfur Stefánsson, tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Kristján Ragnarsson, tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna, Óskar Vigfússon, tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands, og Sigurður Einarsson, tilnefndur sameiginlega af Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sambandi ísl. samvinnufélaga.“

Þetta er ritað 17. maí 1983. Þessi nefnd er nýlega búin að skila af sér og hef ég þau gögn undir höndum og e.t.v. flm. einnig. Við fyrstu yfirsýn sé ég að þeir gera tillögur um verulegar breytingar sem má ræða um. Ég ætla ekki að rekja þær hér. Það verður einmitt hlutverk sjútvn. að fjalla um þær breytingar sem þarna eru, en hvort þær verða felldar inn í frv. til l. um breyt. á lögum um Verðlagsráð, það skal ég ósagt látið. Þetta eigum við eftir að ræða í sjútvn. Ég vildi að þetta kæmi fram við þessa umr. Nm. þeir sem um þessi mál fjölluðu leggja til verulegar breytingar. Sumt af því er í þá átt sem flm. gat hér um þó ekki sé eins langt gengið og hún vildi í sínu frv.

En þetta mun allt verða nánar til umfjöllunar í sjútvn., þangað kemur málið. Þetta er mikið mál sem þarf mikla og yfirvegaða umfjöllun.