28.02.1985
Sameinað þing: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3432 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

310. mál, viðmiðunargrunnur verðtryggingar langtímalána

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa íhugunarverðu till.

Taflan sem birt er með þessari till. og mismunurinn sem kemur þar fram varðandi árin 1983 og 1984 varðandi vísitölu kauptaxta og lánskjaravísitöluna segir í raun og veru allt sem segja þarf um þann gífurlega mismun sem hér er á orðinn og sem hlýtur að verða að leiðrétta. Ég vil ekki trúa því að óreyndu að stjórnvöld vilji ekki gera einhverja tilraun til þess að leiðrétta þá gífurlegu mismunun sem þar er á ferðinni, nema það sé vísvitandi stefna þeirra að sú mismunun eigi að ganga yfir fjölskyldurnar í landinu og yfir heimilin í landinu. Það þarf því að leita allra leiða. Að miða þetta við þann kaupmátt sem fólk hefur er vitanlega eðlilegri og sjálfsagðari leið þegar svo er komið að allar vísitölur í landinu eru í gangi nema þessi eina, þ.e. kaupgjaldsvísitalan, og er ég þó ekki að segja að sú vísitala hafi á sínum tíma verið ógölluð, langt í frá, og skapaði sér kannske sem slík þær óvinsældir hjá launafólki, m.a. vegna prósentureglunnar þar, að launafólk var jafnvel farið að tala um það sjálft að það bæri að taka hana úr sambandi og taka upp eitthvert annað kerfi. En hitt er svo annað mál að þegar fyrir því er staðið að allar aðrar vísitölur, byggingarvísitalan, vísitala opinberrar þjónustu og að ég tali nú ekki um lánskjaravísitöluna, eru í gangi, en kaupgjaldsvísitalan ein, sem ræður launum fólks, er bundin, þá hljóta hlutföll að raskast hér svo að eitthvað verður að gera. Það er því ótækt annað en að taka á þessum málum.

Það er greinilegt að þær fálmkenndu tilraunir sem við sjáum þessa dagana, m.a. í húsnæðismálunum, gera ekki ráð fyrir þessu. Þar er aðeins um lengingu í snörunni að ræða, ef svo mætti segja, fyrir velflesta, því miður. Það er ekki tekið þar á neinu sem raunhæft er hæ t að kalla svo að fólk geti séð út úr sínum vanda.

Ég skal því ekki hafa um þetta fleiri orð hér, en taka undir meginhugsunina í þessari till. því það er útilokað annað en að þær skuldbindingar sem launafólk tekur á sig séu í samræmi við þau laun sem það hefur þó að vissulega sé þar að öðru að gæta og stærra máli en hér er komið að þó óbeint sé, þ.e. launamismuninum í landinu og þeim ólíku möguleikum sem fólk hefur vissulega á því að mæta sínum skuldbindingum eftir því hvaða laun það hefur. En viðmiðunin hlýtur að vera eðlilegri, sjálfsagðari og réttlátari, einkum þegar svo er komið málum eins og taflan með þessari till. segir til um, og þarf ekki fleiri orð að hafa þar um.