24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

83. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Eins og hv. 3. þm. Vesturl. tók fram er það frv. sem hér liggur fyrir gamall kunningi. Mér finnst reyndar að ætíð síðan ég fór að hafa afskipti af sjávarútvegsmálum hafi háværar deilur um fiskverð og ákvörðun þess verið regla fremur en undantekning. Það er reyndar líka svo að tillögurnar um að fiskverð skuli ákveðið með frjálsum samningum, sem kallað er, eru ekki nýjar.

Í Verðlagsráði eru kaupendur og seljendur að semja um fiskverð með frjálsum samningum og tekst það stundum, sbr. það síldarverð sem ákveðið var síðast. Þó svo að þessu frv. fylgi mjög góðar og ítarlegar greinar eftir Jón Sigurðsson forstjóra Þjóðhagsstofnunar og Friðrik Pálsson framkvæmdastjóra Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, þá eru niðurstöður þessara manna, þó að þeir gagnrýni Verðlagsráð, ekki þær sömu sem koma fram í þessu frv. Þeirra mat er einfaldlega það að ekki sé um annað betra að ræða.

Það hefur verið rifjað upp hér hver var aðdragandi að stofnun Verðlagsráðs fyrir rúmum 20 árum, en það er rétt að undirstrika að það var fyrst og fremst krafa sjómanna, eðlileg og sjálfsögð að því er nú virðist, sem varð þess valdandi að Verðlagsráð varð til. Yfirnefndin var sett á stofn seinna til að skera úr óleysanlegum deilumálum. Hún varð æðsti áfrýjunarréttur í óleysanlegum deilumálum og þar er oddamaðurinn sáttasemjari sem reynir og hefur ætíð reynt að ná samkomulagi með því að greiða atkv. með öðrum hvorum aðilanum, þegar ekki var um annað að gera, samkvæmt bestu fáanlegu rökum og upplýsingum sem hann hafði yfir að ráða. Það er mjög fjarri því að sá oddamaður hafi ætíð verið efnahagsráðgjafi ríkisstj. Um langan aldur var það hæstaréttardómari, Hákon heitinn Guðmundsson. En ákvarðanir stjórnvalda í gengismálum, í launamálum, í skatta- og tollamálum hafa veigamikla og æ meiri þýðingu fyrir fiskverðsákvörðun svo og almenn efnahagsstefna ríkisstj. sem hefur haft mikil áhrif á fiskverð ætíð og æ meir eftir því sem á hefur liðið. Þannig get ég, til gamans, sagt sögu af því þegar oddamaður fékk fiskkaupendur til að bjóða tiltölulega hátt verð fyrir sjávarafurð og sjómenn og útvegsmenn voru reiðubúnir til þess að lýsa því yfir að þeir gætu samþykkt verð sem var þó nokkuð lægra en hinir buðu. starf sáttasemjarans hefur því stundum kannske gengið óþarflega langt.

Flestir hafa fyrir löngu gert sér ljóst að erlendar fyrirmyndir, svo sem uppboðskerfi og fiskmarkaðir, henta ekki íslenskum aðstæðum. Öll íslenska þjóðin lifir á því sem hægt er að fá fyrir fiskafurðir og þess vegna verður verðlagning að vera sem allra næst réttu lagi en ekki háð duttlungum óábyrgra spekúlanta. Það er svo með sumar sjávarafurðir, t.d. skelfisk, að það eru nánast 80% unnin af einum aðila. Það er önnur ástæða sem gerir ákvörðun lágmarksfiskverðs nauðsynlega. Það er landfræðileg ástæða. Bátur sem er kominn til síns heima með fisk sem ekki selst þar á viðunandi verði, e.t.v. vegna offramboðs á fiski þar á staðnum, hefur mjög litið gagn af því þó að fisk vanti einhvers staðar annars staðar á landinu. Þó að fiskuppboð séu hugsanleg, þá er það aðeins á Suðurnesjum og í Reykjavík. Það kæmi sjómönnum t.d. á Grenivík eða Þórshöfn að ósköp litlu haldi þó að vantaði fisk í Reykjavík. Góður afli er mjög oft á stóru hafsvæði í kringum landið og það þýðir að á öllum nærliggjandi höfnum er nánast offramboð á fiski. Það mundi þýða, samkvæmt því svokallaða frjálsa kerfi sem hér er boðað, að fiskverð mundi hrapa niður úr öllu valdi á þessum tímum. Það er einnig hætt við því að sveiflur í efnahagslífinu mundu magnast ef þess háttar skipan yrði á höfð. Það er a.m.k. hætt við því að allir möguleikar til að nota verðjöfnunarsjóð til að draga úr sveiflum á markaðsverði erlendis væru þá úr sögunni. Ég vil nú segja að hvað sem um verðjöfnunarsjóði má segja hafa þeir þó orðið til þess, þegar á allt er litið, að jafna sveiflur í lífskjörum í landinu og gera það enn.

Það var minnst á það hér áðan að fyrir lægi endurskoðun á lögum um Verðlagsráð. Ég vildi gera það að tillögu minni að þetta frv., sem hér liggur fyrir, yrði athugað í því samhengi. Ég geri ráð fyrir að hæstv. sjútvrh. fylgi þeim tillögum sem fram eru komnar um endurskoðun á lögum nr. 81/1974, um Verðlagsráð. Ef hæstv. sjútvrh. fylgir þeim eftir með frv. legg ég til að frv. sem hér liggur fyrir og væntanlegt frv. yrðu skoðuð í samhengi í þeirri n. sem um þetta mun fjalla.