28.02.1985
Sameinað þing: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3435 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

328. mál, þróunarverkefni á Vestfjörðum

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ásamt hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi till. til þál. um þróunarverkefni á Vestfjörðum:

„Alþingi ályktar að fela Framkvæmdastofnun ríkisins að semja álitsgerð um framkvæmd þróunarverkefna í atvinnumálum á Vestfjörðum í því skyni að hraða nýsköpun í atvinnulífi, örva framtak einstaklinga og félaga, efla vöxt byggðarkjarna og auka fjölbreytni í atvinnustarfsemi. Í álitsgerðinni skulu koma fram, auk ábendinga um æskileg verkefni, hugmyndir um hvernig að framkvæmdum skuli staðið, þ. á m. um hvaða sértækum aðgerðum skuli, beita af hálfu sveitarstjórna og ríkisins til þess að greiða fyrir framgangi atvinnuþróunarverkefna sem líkleg væru til þess að treysta grundvöll atvinnulífsins og búsetu fólks á svæðinu.“

Tillaga sama efnis og þessi var flutt á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu. Það er íhugunarvert að frá því að þessi till. til þál. var fyrst flutt hafa borist fréttir af því úr herbúðum stjórnarliðsins að í undirbúningi sé ný löggjöf um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins þar sem gert er ráð fyrir því m.a., ef marka má blaðafréttir, að stofnuð verði sérstök stofnun, byggðaþróunarstofnun, til þess að vinna að tilteknum byggðaþróunarverkefnum. Það er einnig mjög athygli vert að ef marka má þessar sömu blaðafréttir þá virðist vera í hugum þeirra sem þetta nýja frv. sömdu að tilgangur þeirrar stofnunar sem þar er um fjallað, byggðastofnunar, sé einmitt að vinna svipuð þróunarverkefni í hinum einstöku landshlutum og hinum einstöku byggðum á landsbyggðinni og hér er gerð tillaga um. M.ö.o., það virðist vera að þegar við þremenningarnir fluttum þessa till. á Alþingi í fyrra höfum við þá a.m.k. verið að boða brot af þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstj. er nú að hugsa um að framkvæma því að þetta á víst að vera ósköp svipuð fyrirmynd, sem verið er að setja upp í sambandi við starfsemi væntanlegrar Byggðastofnunar ríkisins, eins og gerð er till. um að falið sé Framkvæmdastofnun ríkisins á þessu þskj.

Herra forseti. Þessari till. var fylgt úr hlaði á síðasta þingi og er því ástæðulaust að fara mjög mörgum orðum um efnisatriði hennar að öðru leyti en því að ég kemst ekki hjá því, þó svo að töflugerð sé ekki skemmtilegt lesefni, að vekja athygli á nokkrum upplýsingum sem draga má út úr þeim töflum sem birtar eru sem fskj. með frv.

Mjög athyglisvert er t.d. að skoða þar samband fólksflutninga til og frá landsbyggðinni annars vegar og hins vegar þróun atvinnutekna. Í töflum á bls. 8, fskj. III, má t.d. sjá breytingar á brottflutningstíðni í einstökum landshlutum á árabilinu 1965–1970 annars vegar og 1977–1982 hins vegar. Langmest dregur úr fólksflótta frá Vestfjörðum af öllum landsbyggðarkjördæmunum í heild. Brottflutningstíðni á Vestfjörðum 1965–1970 er 12.8%, brottflutningstíðni 1977–1982 er hins vegar 3.75%. Það dregur ekki jafnört úr brottflutningi í nokkrum öðrum landshluta eins og einmitt þarna. Ef menn skoða síðan aðra töflu á bls. 10, þar sem greint er frá meðalbrúttótekjum framteljenda eftir skattumdæmum og skattumdæmin flokkuð með sama hætti í kjördæmi, þá kemur í ljós að það helst í hendur að á sama tíma og dregur svo ört úr brottflutningi frá Vestfjörðum aukast atvinnutekjur þar að sama skapi umfram það sem atvinnutekjur aukast í öðrum landshlutum. Af þessu má beinlínis leiða að því gild rök að a.m.k. gagnvart landsbyggðinni sé mikið samhengi á milli búsetuþróunar annars vegar og atvinnuteknaþróunar hins vegar. Þegar atvinnutekjur vaxa í landshluta eins og Vestfjörðum, þar sem búsetuflutningar hafa verið miklir, þá stöðvast fólksflóttinn a.m.k. um skeið. Þegar hins vegar atvinnutekjur fara að dragast aftur úr á ný, eins og hefur verið að gerast undanfarin ár, þá hefst brottflutningurinn aftur.

Það er einnig mjög athyglisvert að skoða það sem ég held að sé nýmæli líka og kemur fram í töflu á bls. 4; og bera saman annars vegar innanlandsflutninga, þ.e. brottflutninga og aðflutninga frá Vestfjarðakjördæmi í heild, og hins vegar búsetuflutninga í þéttbýli á Vestfjörðum. Í ljós kemur allt önnur mynd þegar menn skoða þéttbýlisstaðina á Vestfjörðum eina út af fyrir sig heldur en gefin er ef menn aðeins staðnæmast við landshlutann sjálfan. Ef menn staðnæmast við landshlutann sjálfan þá hefur orðið mikill fólksflótti frá Vestfjörðum á ellefu árum, 1971–1982. Brott hafa flutt á því árabili 1166 einstaklingar umfram þá sem að hafa flust.

Sama mynd er hins vegar ekki uppi á teningnum ef við horfum á þéttbýlisstaðina eina út af fyrir sig. Þar hefur ekki verið um fólksflótta að ræða. Þvert á móti hafa þéttbýlisstaðirnir á Vestfjörðum staðið sig ákaflega vel í þessu sambandi. Fólk hefur ekki flutt þaðan. Miklu frekar hefur fólki fjölgað á þessum þéttbýlisstöðum. Þó að ekki sé það mikið ef á heildina er litið er það talsvert ef skoðaður er hver staðurinn fyrir sig. Þetta segir okkur þá sögu, sem við nánast þekkjum, að fólksflóttinn frá Vestfjörðum er fyrst og fremst úr hinum dreifðu byggðum, úr hinum gömlu landbúnaðarbyggðum og stafar af breyttum atvinnuháttum.

Þá er einnig mjög athyglisvert að skoða í fskj. með þessari till. ýmsar upplýsingar sem þar koma fram um atvinnugreinaþróun á Vestfjörðum og aukningu ársverka. Kemur það sjálfsagt mörgum nokkuð á óvart, að á s.l. 10 árum er næstmesta vaxtargrein atvinnulífsins á Íslandi í fiskiðnaði. Störfum hefur fjölgað mest í þjónustu, eins og allir vita, en næstmesta vaxtargreinin á eftir þjónustunni er ekki iðnaðurinn, eins og margir hafa talið, heldur fiskvinnslan. Þess vegna mætti ætla að landshluti þar sem t.d. þjónusta væri mjög ríkur þáttur í atvinnulífi, eins og t.d. Reykjavíkursvæðið, mundi njóta mjög mikils góðs af þeirri atvinnugreinasamsetningu í sambandi við atvinnuþróun á staðnum. Með sama hætti mætti ætla að landshluti eins og Vestfirðir þar sem fiskvinnsla, næstmesta vaxtargreinin í atvinnulífinu, er mjög ráðandi hlyti að njóta atvinnulega góðs af samsetningu atvinnulífsins hvað varðar fjölgun atvinnutækifæra. En það kemur í ljós þegar hvort tveggja þetta er skoðað, að af ýmsum ástæðum stenst þetta ekki.

Til er sérstök aðferð, sem kölluð er á ensku máli „shift and share“ sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku, sem notuð er til þess að meta samsetningu atvinnugreinaskiptingar á atvinnuþróun. Ef þessi aðferð er notuð til þess að áætla stöðu og styrk atvinnulífsins á hverjum stað kemur það t.d. í ljós varðandi Reykjavík að þrátt fyrir hina styrku stöðu Reykjavíkur vegna mjög hás hlutfalls þjónustu, sem hefur verið mesta vaxtargreinin undanfarin 15 ár, þrátt fyrir þessa sterku stöðu Reykjavíkur hefur fjölgun atvinnutækifæra í Reykjavík verið langt undir því sem ætla mætti. Með sama hætti hefur vöxtur atvinnulífsins úti á landsbyggðinni verið miklu meiri en ætla mætti af óhagstæðri skiptingu atvinnugreina á landsbyggðinni. Menn geta auðvitað velt því fyrir sér hvaða þýðingu þetta hefur. En í mínum huga sýnir þetta og sannar að sú byggðastefna sem fylgt hefur verið á undanförnum árum hefur borið talsverðan árangur. Hún hefur borið þann árangur að þrátt fyrir það að landsbyggðin stendur höllum fæti hvað varðar atvinnugreinaskiptingu, þá hefur atvinnulífið úti á landsbyggðinni vaxið umfram það sem ætla mætti, en atvinnulífið í Reykjavík, sem stendur mjög vel hvað varðar atvinnugreinasamsetningu, hefur vaxið minna en ætla mætti af samsetningu atvinnugreina á höfuðborgarsvæðinu. M.ö.o., byggðastefnan, sem oft hefur verið harkalega gagnrýnd, hefur þó skilað þessum ótvíræða árangri. Þetta á við öll önnur kjördæmi en Vestfjarðakjördæmi.

Jafnvel þó að Vestfjarðakjördæmi standi betur en flest önnur landsbyggðarkjördæmin hvað varðar hagstæða atvinnugreinaskiptingu með tilliti til vaxtargreina, þá hefur það samt sem áður gerst þar að Vestfirðingar hafa ekki notið þeirrar atvinnugreinasamsetningar í fjölgun atvinnutækifæra. Þvert á móti eru Vestfirðir eini landshlutinn utan Reykjavíkur þar sem skortir mjög verulega á að atvinnutækifærum hafi fjölgað jafnmikið og samsetning atvinnulífsins í landshlutanum gefur tilefni til að ætla. Suðurland er þar ekki samanburðarhæft, þó að einnig sé neikvæður vöxtur þar, af þeirri einföldu ástæðu að eldgosið í Vestmannaeyjum hafði gríðarleg áhrif á atvinnulíf á Suðurlandi og er villandi í því sambandi að bera atvinnugreinaþróunina á Suðurlandi saman við atvinnugreinaþróun í öðrum landshlutum.

Vestfirðir skera sig úr öðrum landshlutum að þessu leytinu til. Þar hefur byggðastefnan ekki skilað sama árangri og annars staðar. Þar hefur atvinnulífið ekki vaxið umfram það sem ætla mætti af atvinnugreinasamsetningu, eins og í öllum hinum landsbyggðarkjördæmunum, heldur hefur atvinnutækifærum fjölgað þar minna en ætla mætti eftir atvinnugreinasamsetningu.

Þessar upplýsingar eru vissulega bæði athyglisverðar og umhugsunarverðar. Þegar haft er í huga að samdráttur er þar mjög verulegur í atvinnutekjuþróun og það bætist ofan á að fólksflótti hefst vegna samdráttar í atvinnutekjum, þá er vissulega ástæða til þess að Framkvæmdastofnun ríkisins eða ný stofnun á svipuðu sviði taki að sér það verkefni, sem gerð er tillaga um í þessu þskj., að semja álitsgerð um framkvæmd þróunarverkefna í atvinnumálum á þessum stað.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa till. til þál. því að hún skýrir sig að öllu leyti sjálf. Ég legg til að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.