28.02.1985
Sameinað þing: 55. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3438 í B-deild Alþingistíðinda. (2772)

319. mál, orkufrekur iðnaður á Suðurlandi

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Á þskj. 504 flytur hv. 3. þm. Suðurl. Óli Þ. Guðbjartsson þáltill. um orkufrekan iðnað á Suðurlandi.

Eins og 3. þm. Suðurl. skýrði frá er veruleg fækkun í stórum hluta Suðurlandskjördæmis og tek ég undir það að nauðsynlegt sé að snúa þeirri þróun við og finna leiðir til atvinnuaukningar á þessum landshluta þar sem atvinnulífið er mjög veikt og stendur mjög veikum fótum þar sem dregið hefur mjög úr framkvæmdum nú um sinn, sérstaklega í orkumálum, sem unnið hefur verið að inni á hálendinu. Hvort það á að vera stóriðnaður eða ekki vil ég ekki fullyrða um, en að mínu áliti kæmi alveg eins vel til greina smærri iðnaður, t.d. ýmiss konar raftækniiðnaður og samsetningariðnaður ásamt mörgu fleiru. Á Suðurlandi hefur almennur iðnaður verið fremur lítill og þróun hans verið frekar hæg og tilviljunarkennd. En með stofnun Iðnþróunarfélags Suðurlands og tilkomu iðnþróunarfulltrúa hefur verið unnið mikið starf, bæði til hjálpar iðnaði sem fyrir er og í leit að nýjum iðngreinum. En eigi iðnaður að vera veigamikil undirstaða í atvinnuþróun á komandi árum þarf að taka vel á og skipulega í þessum málum.

Suðurland hefur að vissu leyti sérstöðu að því leyti að þar eru stærstu landbúnaðarhéruð landsins, en samdráttur í landbúnaði kemur mjög hart niður á íbúum þess landshluta, sem byggt hefur afkomu sína að stórum hluta á landbúnaði og þróun og þjónustugreinum ýmiss konar. Núverandi stjórnarflokkar hafa líka tekið myndarlega á til uppbyggingar atvinnu með því að leggja 500 millj. til nýsköpunar í atvinnulífi og vænti ég þess að það eigi eftir að styrkja víða atvinnulíf í þessu landi.

Á Suðurlandi eru stærstu orkuver landsins og hitaorka er þar mikil svo að ekki ætti það að tefja fyrir framgangi uppbyggingar þar. Vafasamt er þó að léttur iðnaður og þjónustugreinar geti leyst vanda okkar í atvinnulífinu svo að eðlilegt er að skoða verði möguleika á stóriðnaði á Suðurlandi, eins og till. hv. 3. þm. Suðurl. Óla Þ. Guðbjartssonar gerir ráð fyrir.