11.03.1985
Efri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3443 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

285. mál, verslun ríkisins með áfengi

Frsm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Efni þessa frv. er afar einfalt. Það fjallar í stuttu máli um að fella niður úr lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf einkasöluákvæði að því er varðar eldspýtur og vindlingapappír. Um það var ítarlega fjallað í framsögu fyrir þessu máli hvers konar tímaskekkja það væri að enn væri hér í lögum ákvæði um einkasölu ríkisins á eldspýtum. Að því er varðar hina síðari vörutegundina, vindlingapappír, þá mun nú afar lítið flutt inn af henni og viðskiptin með þá vörutegund mjög lítil. T.d. hygg ég að það hafi komið fram í viðræðum n. við forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins að í fyrra hafi ekkert verið flutt inn af vindlingapappír. En það er auðvitað eins og hver önnur tímaskekkja að hér sé einokun á eldspýtum.

Nefndin ræddi þetta frv. á tveimur fundum og kom forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Jón Kjartansson. á fund n. og veitti upplýsingar. Það varð niðurstaða n. að mæla með að þetta frv. verði samþykkt. Einstakir nm. áskilja sér þó rétt til að flytja og fylgja brtt. Stefán Benediktsson sat fundi n. og er samþykkur þessu áliti. Einn nm. Egill Jónsson var fjarstaddur við afgreiðslu málsins, en hv. þm. Ragnar Arnalds hefur þann fyrirvara um afstöðu sína og fylgi við þetta frv. að samþykkt frv. hafi ekki í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Annars leggur n. til að þetta frv. verði samþykkt.