11.03.1985
Neðri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

5. mál, útvarpslög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hafa verið fluttar margar og miklar ræður um það málefni sem hér er á dagskrá og fyrir deildinni liggja brtt. það margar að segja má að stjórnarandstaðan hafi brotnað upp í frumeindir sínar. Engu að síður er yfir því kvartað að ekki skuli hafa verið haldið áfram að vinna í n. og ná fram einingu um málið. Ég vil hvetja menn til að hugleiða hvort þeir yfir höfuð telji að það hafi verið hægt. Þeir valkostir hlutu að blasa við að annaðhvort yrði haldið áfram að þrefa um þetta mál í n. og það færi hvergi þaðan út eða að sá skoðanaágreiningur, sem til staðar var, hlyti að koma fram á þskj. hér í þinginu.

Ég hef einnig mátt hlusta á að hér hafa verið fluttar ræður — og þó sérstaklega ein ræða — þar sem samræmið á milli þess tillöguflutnings sem verið var að tala fyrir og þess efnisinnihalds sem var í ræðunni var ekkert. Og það er dálítið sérstætt þegar slíkt gerist. Annars vegar er flutt áhrifamikil ræða sem hefði átt að bera yfirskriftina „Frelsið“ og svo koma brtt. sem hefðu átt að bera yfirskriftina „Fjötrar“, svo furðulegur var þessi málflutningur.

Hv. 1. landsk. þm. Kristín Kvaran segir í sinni ræðu, lokaorðum, eins og til að hnykkja á talinu um frelsið, með leyfi forseta:

„BJ hefur í störfum sínum lagt á það áherslu að eitt meginhlutverk laga og þar með lagasetningar sé að tryggja fólki frelsi. Það verður að gera ráð fyrir því sem allra mest innan lagasetningar að fólki verði treyst sjálfu, að treysta verði á dómgreind þess og rétt til að velja og hafna. Það felst í einföldustu skilgreiningu á mannréttindum að hafa réttinn til að tjá sig. Það eru hin einföldu og sjálfsögðu mannréttindi sem BJ berst fyrir að fólk fái.“

Í hvaða landi búum við? Búum við í landi þar sem fólki er bannað að tjá sig? Búum við í landi þar sem menn eru geymdir í fangelsum fyrir málflutning, fyrir ritsmíðar? Ég kem af fjöllum ef svo er.

En þegar kemur að brtt. BJ, þá segir í 5. brtt.: „Einstaklingum [sem eiga hlut í fyrirtæki í öðrum greinum fjölmiðlunar, svo sem dagblöðum,] er óheimilt að eiga hlutdeild að útvarpsrekstri. Þetta ákvæði á einnig við um fyrirtæki.“

Er þetta í nafni frelsisins? Mega menn m.ö.o. annaðhvort fá að tala eða skrifa, en fráleitt að þeir megi hvort tveggja? Hvert er verið að stefna? Er það traust á fólki og þess dómgreind ef það á að fara að ákveða á þennan hátt á hvað það má hlusta? Mér finnst að hér hafi orðið alvarlegur ruglingur.

Er verið að leggja til að ef Alþýðusamband Íslands gerðist eigandi að útvarpsstöð og kæmi þar sinni fræðslu á framfæri væri þar með ákveðið að það yrði að leggja niður öll dreifibréf til sinna félaga? Er það þetta sem verið er að segja eða er það óttinn við að Morgunblaðið fari að reka útvarpsstöð sem blundar þar á bak við? Og ef menn vildu nú hlusta á útvarpsstöð Morgunblaðsins er þá ekki dómgreind fólksins lengur treystandi? Þarf að setja lög til að koma í veg fyrir slíkt? (SJS: Er þm. áhugamaður um útvarpsrekstur Morgunblaðsins?) — Það er spurt úr hliðarsal hvort þm. sé áhugasamur um útvarpsrekstur Morgunblaðsins. Ég er hlynntur því frelsi að ef menn vilja lesa Morgunblaðið á morgnana, hlusta á fréttaskýringar úr Morgunblaðinu um miðjan daginn í útvarpi og fá svo kvöldsöguna lesna úr Morgunblaðinu um kvöldið megi þeir það. En það er greinilegt að til eru aðilar hér í þinginu sem vilja hafa þetta í fjötrum og eru hræddir við þetta af því að þeir treysta ekki dómgreind fólksins.

Ég held að það hefði verið skynsamlegt hjá hv. flm. að samræma brtt. og ræðuna og falla ekki í þá gildru að flytja ræðu um frelsið, en setja svo upp tillögur um breytingar þar sem fjötrarnir eru inntakið.

Í 4. brtt. BJ stendur svo:

„Sveitarstjórnir hafa einkarétt á uppsetningu kapalkerfa en heimilt skal sveitarstjórn að framselja þennan rétt til einstaklinga eða félaga með samningum.“

Er ekki verið að tala þarna um einokun sveitarfélaganna hvers á sínu svæði? Er það í átt til frelsisins sem þetta er lagt til? Nei, hér hlýtur eitthvað að hafa ruglast. Það er einkennilegt að það skuli gerast á hinu háa Alþingi að menn flytji brtt. sem draga úr frelsi, en boði svo í hástemmdri ræðu meira frelsi en vitað er um í nokkru ríki á jörðinni.

Ég ætla að leyfa mér að víkja að brtt. frá Hjörleifi Guttormssyni. Hann vill halda inni umsagnarrétti sveitarstjórna þar sem stofna skal útvarpsstöð. Ég veit ekki hvað liggur á bak við, en mér sýnist að t.d. hér á stór-Reykjavíkursvæðinu sé fráleitt að tala um að stofnuð verði útvarpsstöð sem nær t.d. bara til Seltjarnarnessins, Kópavogs og Garðabæjar. Eru menn þá að tala um að sveitarstjórnirnar þyrftu að komast að sameiginlegri niðurstöðu eða er það tilfellið að mönnum finnist að þarna sé um landfræðileg mörk á milli að ræða sem réttlæti það að þeir gerist umsagnaraðilar? Og hvað eiga sveitarstjórnirnar að gera ef það heyrist nú í stöð erlendis frá eða frá öðru bæjarfélagi? Eiga þær þá að senda athugasemdir við slíkt? Ég fæ ekki séð að þetta mál heyri undir sveitarstjórnir.

Við viljum hafa ein lög um útvarpsrekstur í þessu landi og eina framkvæmd þeirra og það tjáningarfrelsi sem því fylgir. Ég er andvígur því að sveitarstjórnir setji þar sérstakar leikreglur hver á sínu svæði. Auðvitað geta þær sent umsögn ef þeim sýnist svo. Það bannar enginn.

Hv. 5. þm. Austurl. víkur að því í 2. brtt.: „Óheimilt er að veita erlendum aðilum leyfi til útvarpsrekstrar eða félagi eða stofnun sem útlendingar eiga hlut í.“

Ég hygg að sú brtt. sem meiri hl. flytur, þar sem niður er njörvað að eignarhlutdeild erlendra aðila megi ekki fara yfir 10%, hljóti að ná tilganginum sem fyrir flm. vakir hvað þetta snertir. Því markmiði að útlendingar reki ekki hér útvarpsstöðvar er ég sammála, en mér sýnist aftur á móti að undir mörgum kringumstæðum geti það gerst að Íslendingar sem flytjast til útlanda hafi verið eignaraðilar að slíkri stöð og þá sé ekki réttlætanlegt, þrátt fyrir þeirra brottför, að þar með beri að svipta stöðina rétti til útvarpsreksturs.

Ég hygg að hugmyndir sem hér eru fram settar um takmarkaðan ráðningartíma útvarpsstjóra hljóti að falla undir það sem verði almenn regla við ráðningu forstöðumanna opinberra stofnana, en ekki sérstaklega þegar talað er um útvarpið. Af þeirri ástæðu tel ég ekki eðlilegt að taka undir það sjónarmið hér þó að mér finnist margt mæla með því að æviráðning embættismanna ætti að leggjast niður.

Það er einnig minnst hér á hlustendakannanir. Þetta eru atriði sem ég tel sjálfsagt að séu framkvæmd. Hins vegar er mikil spurning hvort Ríkisútvarpið á að framkvæma hlustendakannanir eða hlutlaus aðili. Það er margt sem mælir með því að það sé miklu eðlilegra að t.d. Háskólinn eða einhver almenn stofnun leggi það fyrir sig að gera almenna hlustendakönnun og úttekt einnig á því lesefni sem þjóðin kynnir sér. Mér finnst þess vegna að það sé óþarfi að binda þetta í lögum.

Ég tel að þær hugmyndir, sem hér eru settar fram um að skipta afnotagjaldi sem innheimt væri eða innheimta sérstakt afnotagjald fyrir þessar stöðvar og taka upp þá stefnu að í gegnum afnotagjöld verði greitt fyrir frjálsar útvarpsstöðvar, gætu leitt til mikillar misnotkunar miðað við aðstæður í dag. Menn gætu gefið rangt upp hvaða stöðvar þeir hlusta á. Það gæti verið að þeir, hreinlega af pólitískum ástæðum, vildu að gjaldið sem þeir greiddu rynni til ákveðinnar stöðvar fremur en annarrar þó að þeir teldu að í bili væri hún ekki fær um að veita þá þjónustu sem þeir vildu una. Þess vegna er það ekkert launungarmál að að mínu viti er betur frá þessu gengið í frv. eins og það er í upprunalegri mynd.

Ég vil víkja að brtt. frá Jóni Baldvini Hannibalssyni. Sumar þær brtt., sem þar eru, eru einnig í þeim brtt. sem meiri hl. flytur. Hann hnykkir t.d. á því að Ríkisútvarpið skuli starfrækja fræðsluútvarp. Það er einnig tekið upp í brtt. meiri hl. að þannig skuli að málum staðið.

Hann er fylgjandi því að nefskattur verði tekinn upp við innheimtu gjalda til útvarpsins. Ég vil taka það fram að ég er sammála þessu sjónarmiði og meiri hl. n. var búinn að ná samkomulagi um að leggja til að nefskattur yrði upp tekinn. Það kom svo í ljós að Ríkisútvarpið var með miklar athuganir á því hvernig best væri að haga innheimtu gjalda fyrir þjónustu þess og samkomulag varð um að það mál skyldi skoðað á milli 2. og 3. umr. Ég veit ekki hvort afstaða mín á eftir að breytast í þessum efnum vegna þess að fram komi ný gögn í því máli, en mér sýnist mjög margt mæla með því að nefskattur verði upp tekinn. Ég vil í því sambandi minna á viðtal sem ég held að Morgunblaðið frekar en Dagblaðið hafi átt við formann menntmn. þar sem hann fagnar því að nefskattur verði upp tekinn.

Það eru e.t.v. ýmis rök sem menn geta fært fyrir því að viðhalda afnotagjaldi. Gagnvart sjónvarpi er hugsanlegt að koma á sérstökum lykli sem mundi koma í veg fyrir að menn næðu íslenska sjónvarpinu nema þeir hefðu þennan lykil undir höndum og hefðu þá greitt ákveðið gjald. En mér er ekki ljóst hvernig hægt væri að viðhafa slíkt þegar hljóðvarpið er annars vegar. Miðað við að Ríkisútvarpið er og verður jafnframt mikið öryggistæki sýnist sjálfsagt að ætlast til þess að allir þegnarnir taki þátt í greiðslu þess kostnaðar. Með nefskatti ætti að vera hægt að dreifa því gjaldi á réttlátari hátt en nú er gert.

Það kemur aftur á móti fram í þessum brtt. að bæði hv. 5. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Austurl. vilja setja ákveðnar kvaðir á þær sjónvarps- og hljóðvarpsstöðvar sem leyfi fengju varðandi dagskrárgerð. Jón Baldvin vill leggja á kvaðir um hversu stór hluti skuli vera innlent efni, en hv. 5. þm. Austurl. vill leggja á kvaðir um hve stór hluti af efninu skuli saman tekinn af viðkomandi stöð. Mér er til efs að þetta sé framkvæmanlegt. Mér sýnist að eins og þetta er sett upp gæti þetta verkað sem mjög mikil bremsa á að þessar stöðvar gætu farið af stað og þróað sína dagskrárgerð.

Þá vil ég víkja að þeim brtt. sem hér hefur verið talað fyrir af hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég vil sérstaklega undirstrika það í hans mátflutningi að ég tel að umræður um boðveitur hljóti að falla undir fjarskiptalög. Mér sýnist að hér sé um grundvallaratriði að ræða. Auðvitað geta menn haft skiptar skoðanir á því hvort Póstur og sími eigi að hafa þau einkaréttarákvæði sem þar eru inni í. Það er hugsanlegt að menn vilji brjóta þetta upp og fela sveitarstjórnunum hluta af þessu valdi. Ég hef þó miklar efasemdir um að það sé rétt. En ég held að það breyti þó engu um að breytingar sem tækju á þessu hljóta að falla undir breytingar á fjarskiptalögunum. Ég held að ef þetta hefði á annað borð verið tekið inn í breytingar við útvarpslögin hefði þó nokkuð stór hluti menntmn. litið svo á að eignarréttur á slíkum boðveitum ætti að vera í höndum sveitarfélaga fremur en einstaklinga. Þar kemur m.a. inn sú staðreynd að það þarf að grafa þessar boðveitur í jörðina. kaplana, og það er mjög óheppilegt að fleiri aðilar standi í því að koma köplum í land sveitarfélaganna en nú er. Hins vegar er tækniþróunin mjög hröð og það er engum ljósara en þeim sem hafa staðið að vinnu við þessar brtt., enda er gert ráð fyrir því að þessi lög yrðu endurskoðuð innan þriggja ára. Það má vel vera að tækniframfarir geri það nauðsynlegt að leita eftir þeirri endurskoðun enn fyrr.

Hitt er svo annað mál að viss grundvallaratriði hafa menn rætt í sambandi við þessa lagasetningu. Eitt er það að Framsfl. fer ekki dult með þá skoðun sína að efla beri Ríkisútvarpið og það beri að hafa hér öflugt ríkisútvarp. Ég hygg að sama sinnis sé mjög stór hluti þjóðarinnar. Við erum aftur á móti hlynntir því að einokun Ríkisútvarpsins verði afnumin og fleiri aðilum gefin tækifæri til að spreyta sig á útvarpsrekstri. Ef aftur á móti er þannig að þessum málum staðið að þeir aðilar hefðu bæði rétt til að hafa afnotagjöld og einnig auglýsingar og gætu afmarkað sína starfsemi við þann hluta landsins sem þéttbýlastur er. þá bendir allt til þess að rekstrargrundvöllur slíkra stöðva væri það miklum mun betri en Ríkisútvarpsins. sem þarf að sinna skyldum við landsmenn alla, að hér væri ekki um heiðarlega eða réttláta samkeppni að ræða.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. 4. þm. Reykv. að hann vitnaði í það samkomulag forsrh. og menntmrh. að þm. flokkanna hefðu óbundnar hendur um að styðja brtt. eða vera andvígir varðandi auglýsingar. Hér liggur fyrir brtt. frá 2. þm. Reykv. Að sjálfsögðu þarf ekkert samkomulag á milli forsrh. og menntmrh. um það hvernig menn greiða atkvæði hér í þinginu. Sá réttur er þm. gefinn í stjórnarskránni að greiða atkvæði samkvæmt sinni samvisku. Þess vegna er það í sjálfu sér fráleitt að láta sér detta í hug að það sé verið að versla með þann rétt og bjóða upp á það að núna sé einhver undanþága, nú megi menn greiða atkvæði eins og þeir sjálfir vilji. Auðvitað er það réttur þm. að greiða ávallt atkvæði eins og samviskan býður. Hitt verða þeir að hugleiða, þ. á m. hv. 2. þm. Reykv., hvort þeir vilji þetta mál fram eða hvort þeir vilji það feigt. Ekki veit ég hvort hv. 2. þm. Reykv. hefur hugsað það til enda. Að sjálfsögðu er til lítils að gera samkomulag í nefndum um mál og reyna að þoka þeim fram ef aðrir telja sig svo hafa miklu meiri þekkingu á þessum málum, miklu meiri hæfni til að dæma þar um og ráðast að sínum samþm. á þann hátt að þeir flytji brtt. þvert á það efni sem samið hefur verið um.

Ég vil vekja athygli á þeirri staðreynd að í þessari ágætu menntmn. sitja fyrir hönd Sjálfstfl. fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkurborgar, núverandi formaður þingflokks Sjálfstfl. og einn af stjórnarmönnum í þingflokknum, hv. formaður n., 2. þm. Norðurl. e. (HBI: Það er raunar öll stjórn þingflokksins sem er í nefndinni.) Hv. skrifari vekur athygli á því að öll stjórn þingflokksins sé í nefndinni. Það verður þess vegna að flokka það undir uppreisn í þingflokknum ef einhver einstaklingur þar getur ekki unað samkomulagi sem stjórn þingflokksins hefur staðið að í nefndarstörfum. Hitt er þó öllu verra að svona vinnubrögð, ef þau ná meirihlutafylgi innan þess þingflokks sem þeim er ætlað að hafa áhrif á, hljóta að hafa það í för með sér að átökin um þetta mál færast aðeins úr Nd. upp í Ed. Og ég vil biðja hv. 2. þm. Reykv. að hugleiða hvort hann hefði viljað fá á sig brtt. við meirihlutaálit sem hann hefði staðið að, e.t.v. í tollamálum eða skattamálum, jafnvel þó að flm. brtt., þm. úr liði Sjálfstfl., teldi að hann hefði getað slegið sig til riddara hjá vissum öflum innan flokksins. Hefði honum ekki fundist það eins og rýtingsstunga í bakið? Ég veit ekki hvort hv. 2. þm. Reykv. hefur yfir höfuð hugsað mikið um það sem hann gerði þegar hann ákvað að varpa inn þeirri brtt. sem hann er hér flm. að.

Ég vil að lokum segja þetta: Þetta frv. til útvarpslaga er samið af nefnd sem lauk störfum 1982. Það var vissulega málamiðlun þegar það var samið. En ég vil vekja athygli á að að þeirri málamiðlun stóðu fulltrúar allra flokka, Alþb. sem annarra. Ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að láta á það reyna, með því að samþykkja þetta frv. og gera það að lögum, hvort það getur ekki hjálpað okkur að komast áfram á þeirri braut sem ég hygg að við viljum öll komast, en það er að meira frelsi verði í fjölmiðlun á Íslandi án þess að það verði til þess að sú stofnun, sem hefur haft einkaleyfi til útvarpsrekstrar til þessa, þurfi að bíða þann skaða að hennar dagskrá verði verri en hún hefur verið.