11.03.1985
Neðri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3459 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

5. mál, útvarpslög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umr. er ekki nýtt af nálinni. Það var samið og lagt fram í ágúst árið 1982 af nefnd skipaðri af menntmrn. í sept. 1981 til að endurskoða útvarpslögin. Ég átti sæti í þeirri nefnd, en segja má að nefndin hafi verið samsett með þeim hætti að sjónarmið þeirra stjórnmálaafla sem á þeim tíma voru ráðandi hafi átt fulltrúa í nefndinni. Nefndin starfaði undir ágætri forustu Markúsar Á. Einarssonar veðurfræðings og það er rangt að halda því fram, eins og fram kemur í einu þskj., að frv. beri þess merki að það sé afsprengi mikilla pólitískra átaka, því sannleikurinn er sá að samkomulag og samstarf í þessari endurskoðunarnefnd var með ágætum. Hins vegar er því ekki að leyna að í veigamiklum atriðum var farið bil beggja, eða allra, gerð málamiðlun um ákvæði, efnisatriði og orðalag.

Meginatriðið var og er að samkomulag náðist um afnám einkaréttar Ríkisútvarpsins og verður það tvímælalaust að teljast afrek út af fyrir sig og tímamótaviðburður að fulltrúar ólíkra stjórnmálaskoðana skyldu þannig ná saman um aukið frjálsræði í útvarpsrekstri. Enginn vafi er á því að meginástæðan var sú að flestum var þá þegar, árið 1981 og 1982, orðið ljóst að einkaréttur í höndum eins aðila var tímaskekkja með hliðsjón af tækniþróun, breyttum samfélagsháttum og síðast en ekki síst nýjum viðhorfum meðal alls þorra fólks. Sá stjórnmálaflokkur og það þjóðmálaafl sem ekki vill horfast í augu við þróunina á þessum vettvangi. sem vill hefta framgang frjálsræðis og valfrelsis á sviði fjölmiðlunar var, er og verður dæmdur sem argasta afturhald sem ekki fylgist með tímanum og getur ekki vænst fylgis meðal fólksins í landinu þegar til kosninga kemur.

Óhætt er að segja að á þeim tæplega þrem árum sem liðin eru síðan frv. var lagt fram í ágúst 1982 hefur þróun og framvinda mála öll verið á sama veg, ekki aðeins hér á landi heldur hvarvetna. Útvarpsstöðvar spretta upp svo tugum skiptir í öðrum löndum. Kapalsjónvörp, myndbandavæðing, gervihnettir og samfellt upplýsingastreymi í gegnum fjölmiðla sem er í höndum flestra annarra en ríkisvaldsins, allt gerir þetta óhjákvæmilegt að lög um Ríkisútvarpið séu endurskoðuð hér á landi og þau færð til nútímans, bæði að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins sjálfs svo og hitt meginatriðið, að öðrum aðilum sé gefinn kostur á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Ef þörf hefur verið á breytingum og endurskoðun í september 1981 er svo sannarlega tímabært að taka til hendinni nú þegar langt er liðið fram á árið 1985.

Þau umbrot sem áttu sér stað í október s.l., þegar Ríkisútvarpinu var lokað og aðrir fjölmiðlar voru ekki heldur reknir vegna verkfalla og upp spruttu ýmsar útvarpsstöðvar á þeim tíma, staðfesta enn frekar þá skoðun að gagngert breytinga sé þörf á lögunum sem hér um ræðir. Nú þegar mestur móðurinn er runninn af mönnum, þegar menn sjá atburðina í október í réttu samhengi, ég tala nú ekki um þegar atburðarásin er skoðuð í ljósi sögunnar, hljóta menn að átta sig á að útvarpsstöðvar löglegar eða „ólöglegar“ eru afsprengi undanfarandi þróunar og nútímaviðhorfa. Krafan um frjálsræði í fjölmiðlun, krafan um frjálsa tjáningu fékk útrás í frjálsum útvarpsstöðvum sem skutu rótum í þeim jarðvegi sem við lifum við, voru nánast nokkurs konar börn síns tíma, viðbrögð almennings þegar lokað var fyrir aðra fjölmiðla, fréttir og þá frumþörf samfélagsins að njóta upplýsinga um atburði líðandi stundar.

Þó ég haldi því ekki fram að ný útvarpslög séu óhjákvæmileg vegna þessara afmörkuðu atburða á s.l. hausti hljóta stjórnvöld, löggjafarvald og unnendur lýðræðis að átta sig á að það kemst engin siðuð og upplýst þjóð upp með að viðhalda og ríghalda í löggjöf sem brýtur í bága við réttlætiskennd og tjáningarfrelsi, það kemst engin stjórn og ekkert þing upp með það að standa fast á einkarétti og einokun í þeim iðandi straumi breytinga, byltinga og umskipta sem orðið hafa í öllu því sem lýtur að fjölmiðlun í dag.

Það er sorglegt til þess að vita að þrátt fyrir svo augljósa og sjálfsagða þjóðfélagsumbót sem frjáls útvarpsrekstur hlýtur að vera skuli enn vera hér á landi á meðal okkar talsmenn þeirra sjónarmiða að ríkisvaldið eigi eitt að sitja að slíkum rekstri. Frv. Kvennalistans ber þess því miður vott að sumir þm. og jafnvel heilir flokkar hafa dagað uppi eins og nátttröll og skilja ekki vitjunartímann. Frv. sem hafnar auknu frelsi, frv. sem einblínir á alræðisforræði ríkisins er táknrænt dæmi um málflutning sem ekki er í takt við samtíð sína. Jafnvel Alþb., sem er þó allajafna fulltrúi ríkisforsjár og miðstýringar, hefur ekki treyst sér til að bera fram svo forneskjuleg viðhorf. Alþb. er þó a.m.k. að gera heiðarlega tilraun til að tala í taki við tímann þótt sá flokkur reyni með öðrum hætti að bregða fæti fyrir frelsið í þessu máli, en það er önnur saga sem ég vík að hér á eftir.

Það útvarpslagafrv. sem hér er á dagskrá hefur áður verið lagt fram á Alþingi, en ekki fengist afgreitt. Það hafa jafnvel liðið heilu þingin án þess að frv. hafi verið sýnt né heldur nokkur önnur í þessa átt. Það var af þeim ástæðum sem ég leyfði mér að taka stórt upp í mig í upphafi þings í haust og gagnrýna Alþingi fyrir dáðleysi. Sú tregða sem ríkt hefur í garð endurskoðunar útvarpslöggjafar er sýnishorn af þeirri staðreynd að Alþingi er allt of oft svifaseint og jafnvel afturhaldssamt þegar framfaramál eru annars vegar. Alþingi hefur hunsað byltinguna í fjölmiðlaheiminum, ekki áttað sig á upplýsingaöldinni og hefur dregið fæturna í þessu stórmáli. Í stað þess að bretta upp ermar og knýja fram úrbætur í frjálsræðisátt stigu menn hér hver á fætur öðrum í pontu á haustdögum og langt fram á vetur til að skammast yfir meintum lögbrotum útvarpsstöðva sem settar voru á stofn í neyð og í svartamyrkri verkfallanna. Í stað þess að sýna því skilning að engin lög. allra síst úrelt lög, geta aftrað þjóðfélaginu frá því að grípa til sinna ráða þegar tjáningarfrelsið og upplýsingaskyldan eru bæld niður gerðust þm. sjálfskipaðir lögfræðingar í deilum um keisarans skegg. Þeir kaffærðu sjálfa sig og þingið í smáatriðum og orðhengilshætti í krafti einokunarlaga, en gleymdu aðalatriðum lýðræðis og samfélagslegra þarfa. Þeir sáu ekki skóginn fyrir trjánum.

Ég ætla ekki að eyða ræðutíma mínum í orðaskak út af öllum þeim ómerkilegu ásökunum sem beindust að mér og öðrum aðstandendum hinna frjálsu útvarpsstöðva í haust, enda er miklu brýnna að snúa sér frekar að framtíðinni en fortíðinni þegar svo mikið mál er í húfi. Við erum ekki aðeins að tala hér um afmarkaða löggjöf, við erum að tala og fjalla um grundvallarmál sem varðar frjálst og opið þjóðfélag. Við erum að tala um tjáskiptin, réttinn til að varðveita lýðræðið, möguleika almennings til að njóta valfrelsis í fjölmiðlum. Við erum að tala um sjálf mannréttindin.

Grundvallarafstaða mín til þessa máls byggist á því að einkaréttur og/eða einokun ríkisins er tímaskekkja og við hana verður ekki unað lengur. Með sama hætti og við treystum einstaklingum, samtökum þeirra, félögum og fyrirtækjum til að tjá sig, athafna sig, velja og hafna, í stuttu máli sagt: með sama hætti og við treystum einstaklingunum til þátttöku í lýðræðinu, hljótum við að treysta þeim til reksturs á þeirri tegund fjölmiðlunar sem hér er á dagskrá.

Vel má vera að ýmsar hvatir búi að baki þeim óskum að útvarp verði gefið frjálst. Það geta verið hugsjónir. hagnaðarvon, tjáningarþörf, athafnaþrá eða einfaldlega áróður sem reka menn til aðgerða á þessu sviði. En má þá ekki segja að slíkt gildi um flest annað sem lýtur að daglegu lífi. Í atvinnustarfsemi. í útgáfurekstri, auglýsingum, félagastarfi og jafnvel pólitík er svo margt sem hvetur menn til dáða án þess að óttinn við meintar eða ímyndaðar forsendur valdi því að við setjum bönn og boð í lög. Annarlegar hvatir til góðs eða ills verða ekki bannaðar með lögum. Ef við trúum á lýðræðið verðum við að treysta fólkinu, treysta frelsinu. Annars erum við ekki sjálfum okkur samkvæm.

Þetta frv. snýst um það að meginefni til hvort við treystum öðrum en ríkinu til að reka útvarp og sjónvarp. Ef menn hefðu fyrr á öldum vantreyst ábyrgð og þroska einstaklinganna þekktum við að sjálfsögðu ekki prentfrelsið. fundafrelsið og félagafrelsið. Þá hefðum við aldrei leyft flokka, dagblöð. bækur, ekki einu sinni málfrelsi. Ef við hefðum ávallt óttast að máttur dagblaða í höndum einstaklinga ögraði lýðræði hefðum við ekki leyft útgáfu þeirra. Ef við værum sífellt haldin þeim kvíða að einhver kynni að græða á atvinnurekstri hefðum við aldrei notið góðs af allsherjararðinum. Ef við hefðum hræðst ómenningu af völdum frjálsrar menningarstarfsemi þekktum við ekki grósku fjölbreytts menningarlífs. Gildi fjölmiðlunar í útvarpi og sjónvarpi er fólgið í valfrelsinu, fjölbreytileikanum, hugmyndaauðginni og útrásinni sem menn fá við fjölgun slíkra stöðva. Menningin hefur aldrei beðið hnekki af frelsinu og pólitíkin ekki heldur, lýðræðið allra síst. einfaldlega af því að frelsið er forsenda lýðræðisins.

Ef við göngum út frá þeirri forsendu að meiri hluti alþm. sé sömu skoðunar í þessum grundvallaratriðum. sem ég hef hér verið að rekja. þá hljóta þeir. þ.e. meiri hluti alþm., að styðja afnám einkaréttar og einokunar í útvarpsmálum. Vitaskuld eru á þessu undantekningar sem við höfum heyrt hér m.a. í dag á afstöðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og við sjáum þá andstöðu og þá afstöðu einnig koma fram í frv. sem Kvennalistinn hefur borið hér fram á þinginu. Mér sýnist hins vegar spurningin ekki snúast um hvort menn vilji auka frelsið eða afnema einkarétt ríkisins. heldur hitt. í hvaða búning á að klæða þetta aukna frjálsræði. Á að setja því slíkar skorður og skilyrði að frelsið verði ekki nema nafnið tómt eða á að búa lögin svo úr garði að eftir þeim verði farið og hægt verði að fara eftir þeim?

Ég fer ekki dult með þá skoðun mína að ég hefði kosið að niðurstaða endurskoðunarnefndarinnar. sem gekk frá frv. upphaflega, hefði verið á annan og ýmsan hátt betri veg en frv. ber með sér. Mér er engin launung á því að ýmislegt er í frv. sem orkar tvímælis vegna þess að það setur útvarpsfrelsinu skorður og leggur stein í götu þeirra sem vilja veita Ríkisútvarpinu samkeppni. Ýmis þau ákvæði sem varða takmarkanir, eftirlit. skilyrði og heimildir eru mér lítt að skapi. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að ekki má fara of geyst í sakirnar og það er eðlilegt að menn séu varkárir og vilji stíga fyrstu skrefin varlega ef hálfrar aldar einokun er aflétt á annað borð. Þess vegna skrifaði ég undir nál. og frv. í sinni upphaflegu mynd með fyrirvara, en samþykkur því í öllum aðalatriðum. Mér kemur hins vegar ekki á óvart þó að viðhorf, nýjar tillögur og breytingar margs konar komi fram, enda mikið vatn til sjávar runnið síðan frv. var samið og sá fyrst dagsins ljós og það hefur átt sér stað þróun á þessum vettvangi sem sjálfsagt er að taka tillit til.

Við þessa umr. hafa hins vegar einnig séð dagsins ljós ýmsar brtt. sem útilokað er að samþykkja. Þær eru þess eðlis að frjálsræðið reyndist í orði en ekki á borði. Ég er t.a.m. furðu lostinn yfir þeirri tillögugerð Alþb. sem gerir ráð fyrir að banna eigi allar auglýsingar í dagskrártíma svæðisbundinna útvarpsstöðva. Þeir Alþb.-menn hafa mjög haft á orði að nýjar útvarpsstöðvar yrðu tæki í höndum fjármagnseigenda og „gróðaafla“. En ef einhver tillaga stuðlar að því að þeir einir sem eiga gnótt af peningum stofni og starfræki útvarpsstöðvar eru það einmitt tillögur sem banna auglýsingar. Það er gersamlega útilokað að nokkur aðili geti starfræki útvarpsstöð án auglýsingatekna nema sá sem efni hefur á að reka útvarpsstöð með tapi. Og hverjir eru það nema fjármagnseigendurnir og kapítalistarnir sem hafa efni á því að reka útvarpsstöðvar eða yfirleitt halda uppi atvinnurekstri með tapi — a.m.k. að því er Alþb. telur? (Grípið fram í: Og ríkið.) Já, já, það er sjálfsagt að bæta ríkinu við, en ekki er um það að ræða hér að verið sé að búa til löggjöf fyrir ríkið, þannig að ég hef það ekki með í upptalningunni.

Í þessum rekstri eins og öllum öðrum gildir það lögmál að rekstur verður að standa undir sjálfum sér með eigin tekjum. Engin útvarpsstöð mun lifa deginum lengur nema skilyrði séu sköpuð til auglýsingatekna, þ.e. ef eigendurnir eru ekki með fullar hendur fjár, og þá er auðvitað lítið orðið eftir af umhyggjunni fyrir valddreifingunni ef þessi háttur er hafður á. Gildi aukins frjálsræðis í útvarpsmálum er vitaskuld fólgið í því að sem flestir ef ekki allir hafi möguleika til að spreyta sig, ekki bara þeir sem hafa efni á að tapa.

Sömu annmarkar eru á till. meiri hl. menntmn. Þar er að vísu ekki lagt til að banna auglýsingar, en þar er gert ráð fyrir að útvarpsstöðvum skuli gert skylt að greiða 10% af verði auglýsinga til menningarsjóðs sem á m.a. að standa undir hallarekstri Sinfóníunnar og efla innienda dagskrárgerð. Þetta er að mínu mati algerlega óaðgengileg tillaga. Skattlagning af þessu tagi er frjálsum útvarpsstöðvum ofviða. Litlar staðbundnar útvarpsstöðvar sem greiða stefgjald, söluskatt, rekstrarkostnað og stofnkostnað og eru háðar ákvörðun annarra um auglýsingaverð, dagskrárgerð o.fl. hafa enga möguleika til að greiða 10% skatt af megintekjustofni sínum. Það er borin von og vanhugsuð ráðagerð. Hún kann að vera góð til að friða menningarsamviskuna, en hún er slæm fyrir þann menningarauka sem stöðvarnar sjálfar munu reynast. Það er aumt frelsi sem felst í því að veita Ríkisútvarpinu aðgang að nefskatti á alla landsmenn, veita Ríkisútvarpinu einu rétt til að ná til landsins alls, að heimila Ríkisútvarpinu að setja upp staðbundnar útvarpsstöðvar um land allt, að veita Ríkisútvarpinu aðgang að öllum stærstu bitunum, en skera á sama tíma frjálsar og litlar útvarpsstöðvar niður við trog og skattleggja þær að auki.

Með þessum tillögum hafa tilgangur og innihald væntanlegrar löggjafar verið afskræmd á þann veg að vonlaust er að halda því fram að frjálsræði muni skapast til eðlilegrar samkeppni eða viðunandi dagskrárgerðar. Ég hef haft afskipti af útvarpsrekstri, átt bæði sæti í útvarpsráði um árabil og stóð að rekstri útvarpsstöðvar í okt. s.l. Ég fullyrði að án verulegra tekna af auglýsingum er útilokað að reka útvarp að neinu gagni. Það er vonlaus rekstur og dæmdur til að mistakast. Ríkisútvarpið getur ekki lifað án auglýsinga. Aðrar stöðvar geta ekki lifað án auglýsinga. Skattar sem leggjast á tekjur umfram það sem nú þarf að greiða eru út í hött og ef menn telja sér trú um að þeir stuðli að auknu frjálsræði og fleiri útvarpsstöðvum með þeim tillöguflutningi eru þeir vísvitandi eða óviljandi að blekkja sjálfa sig.

Hitt er rétt að taka fram að í till. meiri hl. menntmn. er ýmislegt sem til bóta horfir og skal ekki vanmetið. Ég vil lýsa því sem minni skoðun að brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophussyni er mjög jákvæð og virðingarverð tilraun til að rétta hlut nýrra útvarpsstöðva og er í rauninni eina forsendan fyrir því að dæmið gangi upp. Mér þótti þess vegna miður að heyra hér í hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni sem lýsti fullri, andstöðu sinni við þessa till. og hafði nánast í hótunum um það að ef hún yrði samþykki mundi flm. hennar og þá hans flokkur hafa verra af. Hann tók svo til orða að átökin mundu flytjast úr Nd. í Ed. og hann varpaði fram þeirri spurningu hvort menn vildu þetta frv. frá eða hvort þeir vildu það samþykkt. Auðvitað er ekki hægt að skilja þessi ummæli öðruvísi en svo, að hér séu uppi hótanir um að málið sé stöðvað ef þessi till. nái fram að ganga. Þetta finnst mér ekki málefnaleg afstaða.

Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með afstöðu annarra þm. og þingflokka til þessarar till. frá hv. 2. þm. Reykv. vegna þess að sú afstaða sker úr um hvort menn meina eitthvað með því að breyta lögum til aukins frjálsræðis í útvarpsmálum. Ég hef lýst skoðunum mínum á frv. Kvennalistans og ég hef jafnframt lýst skoðunum mínum á því hvernig Alþb. hefur haldið á þessu máli. En eftir er að vita hver afstaða annarra þingflokka er til þessarar till. og til málsins í heild. Við heyrðum áðan í hv. Stefáni Valgeirssyni. Hann lýsti algerri andstöðu sinni við frv. og nánast held ég allt sem það varðar. Spurningin er sú: Hvernig bregðast aðrir framsóknarmenn við? Má vænta þess að þeir hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Stefán Valgeirsson séu talsmenn flokksins í þessu máli? Þá er því miður ekki von á góðu. Og hvað gera allir hinir, m.a. BJ og Alþfl.? BJ hefur flutt hér jákvæðar till. að mörgu leyti, en þó með vissum annmörkum, en ekki verður afstaða þessa flokks skilin öðruvísi en svo að hann muni fylgja brtt. hv. þm. Friðriks Sophussonar, hann muni vera hlynntur því að frjálsræði sé komið á í orði en ekki bara á borði.

Afstaða Alþfl. kann að ráða úrslitum hvort öll þessi umr., áhuginn og nauðsynin á afnámi einokunar í útvarpsmálum nær fram að ganga. Alþfl. hefur, eins og hér hefur komið fram í umr., því miður dregið fæturna, slegið úr og í og verið með mikinn málatilbúnað, en það hefur aldrei kristallast eða komið skýrt fram hver afstaða þess flokks er raunverulega til megintilgangs þessa frv., þ.e. að veita öðrum frelsi til útvarpsreksturs. Þess vegna er afstaða Alþfl. til brtt. hv. þm. Friðriks Sophussonar ákaflega forvitnileg þegar að afgreiðslu hennar kemur. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni því nú fer að sneyðast um fundartíma.) Ég er u.þ.b. að ljúka ræðu minni.

Ég lýsi því yfir afdráttarlaust að ef till. um menningarsjóðsgjaldið frá meiri hl. menntmn., hvað þá till. um bann við auglýsingum sem kemur frá Alþb., ef þessar till. verða samþykktar þá eru ráðagerðirnar um fleiri útvarpsstöðvar andvana fæddar. Þá er jafnvel betra að gleyma þessu máli ef Alþingi vill ekki stíga skrefið til frjálsræðisins til fulls og af fullri einurð og heiðarleika.

Ég skal að lokum láta þess getið að ég er sammála ummælum hv. þm. Birgis Ísleifs um afstöðu hans og meiri hl. menntmn. til hugmynda Alþfl. um boðveitur og eignarhald þeirra. Ég held að þær till. séu að mörgu leyti athyglisverðar og eigi rétt á sér, en það eigi þá að koma þeim fyrir í öðru frv. og í öðrum lögum en útvarpslögunum sjálfum. Þar á ég fyrst og fremst við fjarskiptalögin.

Að öðru leyti, herra forseti, áskil ég mér rétt til þess að taka afstöðu til einstakra till. eftir efni og ástæðum og læt svo máli mínu lokið.