12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3465 í B-deild Alþingistíðinda. (2793)

196. mál, skattar verslunarinnar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Í tilefni af fsp. hv. 3. þm. Reykv. Svavars Gestssonar um skatta verslunarinnar, banka og skipafélaga 1983 er fyrst nauðsynlegt að gera grein fyrir því að hjá skattyfirvöldum byggist ákvörðun um það hverjir eru taldir stunda smásöluverslun og hverjir heildsöluverslun á atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands. Þeir sem hafa jafnframt með höndum starfsemi aðra en verslun teljast til verslunar ef brúttótekjur af verslun í heild eru hærri en brúttótekjur af öðrum atvinnugreinum. Ljóst er því að einhverjir sem reka verslun koma ekki fram í þessum upplýsingum. Á sama hátt er greint á milli smásöluverslunar og heildsöluverslunar hjá aðilum sem reka hvoru tveggja eftir hærri brúttótekjum. Upplýsingar þær sem hér á eftir eru sýndar eru því ekki alveg nákvæmar, en eins nákvæmar og hægt er að fá með vélrænni vinnu.

Í 1. tölul. fsp. er spurt um hver verið hafi hagnaður a. smásöluverslunar, b. heildverslunar skv. skattaframtölum árið 1983 af rekstri.

Í svari við þessum tölul. er rétt að gera greinarmun á einstaklingum og lögaðilum. Ef litið er fyrst á einstaklinga er nauðsynlegt, áður en ég kem að svarinu, að gera nokkra grein fyrir þeim annmörkum sem eru á því að gefa upplýsingar og valda því að þær eru ekki alveg nákvæmar.

Á það er fyrst að lita að skv. tekjuskattslögum skal draga frá tekjum af sjálfstæðri starfsemi það endurgjald sem manni ber að reikna sér fyrir eigin vinnu. Eigi skiptir máli hvort endurgjaldið hefur verið greitt. Af þessu má sjá að þegar ekki er um að ræða hreinan hagnað, heldur einungis reiknuð laun er ekki ljóst hvort hagnaður sé jafn reiknuðum launum eða minni, jafnvel enginn. Hins vegar er ljóst hver hagnaður er þegar um er að ræða hreinan hagnað umfram reiknuð laun og telst þá hagnaðurinn vera reiknuð laun plús hreinn hagnaður. Í þessum upplýsingum eru reiknuð laun talinn hagnaður og getur af þeim sökum verið um minni hagnað að ræða en hér er gefið upp.

Varðandi „skattalegar ráðstafanir“ er eingöngu hægt að gefa upplýsingar um tillag í fjárfestingarsjóð.

Með þessum fyrirvörum, sem að framan greinir. var hagnaður hjá einstaklingum með smásöluverslun ásamt tillagi í fjárfestingarsjóð 208 millj. 60 þús. 51 kr., en hjá einstaklingum með heildverslun var hagnaður ásamt tillagi í fjárfestingarsjóð 87 millj. 43 þús. 729 kr.

Ef litið er á lögaðila er hægt að segja mun nákvæmara til um þetta hjá þeim þar sem reiknuð laun koma ekki eins inn í myndina. Hins vegar eru uppi sömu vandamálin varðandi „skattalegar ráðstafanir“ og hjá einstaklingum, þ.e. einungis er hægt að gefa upplýsingar um tillag í fjárfestingarsjóð og varasjóð. Hjá lögaðilum með smásöluverslun var hagnaður ásamt tillagi í fjárfestingarsjóð eða varasjóð 46 millj. 772 þús. 809, en hjá lögaðilum með heildsöluverslun var hagnaður ásamt tillagi í fjárfestingarsjóð eða varasjóð 231 millj. 906 þús. 817 kr.

Í 2. tölul. fsp. er spurt um hve margar smásölu- og heildverslanir hafi talið fram til skatts fyrir árið 1983. Með þeim fyrirvara sem getið er um hér að framan eru framtöl einstaklinga með smásöluverslun 873, en með heildsöluverslun 489. Lögaðilar með smásöluverslun eru 424 og heildverslun 558.

Í 3. tölul. fsp. er spurt um hver verið hafi hagnaður skipafélaganna alls skv. skattframtölum 1983. Tíu skipafélög voru með í hagnað án „skattalegra ráðstafana“ 324 millj. 659 þús. kr. Fyrningar skv. 44. gr. skattalaganna voru 11 millj. 443 þús. kr. Niðurfærslureikningur skv. 1. mgr. 31. gr. skattalaga var tekjufærður um 1 millj. 957 þús. kr. Hreinar tekjur voru 234 millj. 390 þús. kr. Ekkert þessara skipafélaga var með skattstofn til álagningar tekjuskatts og þar af leiðandi hvorki tillag í varasjóð né í fjárfestingarsjóð. Greiddur arður var 1 millj. 818 þús. og 15 kr.

Í 4. tölul. fsp. er spurt um hver verið hafi hagnaður banka árið 1983 — sundurliðaður eftir bönkum. Sjö bankar og sparisjóðir, sem voru skattskyldir, voru með hagnað án „skattalegra ráðstafana“ um 534 millj. 680 þús. kr. Afskriftareikningur útlána var að fjárhæð 138 millj. 719 þús. kr. Fyrningar skv. 44. gr. skattalaganna voru 23 millj. 272 þús. kr. Tillög í fjárfestingarsjóð voru 145 millj. 296 þús., en í varasjóð kr. 521 þús. Tekjuskattsstofn skattskyldra banka og sparisjóða var um 222 millj. kr. eða nákvæmlega 222 millj. 183 þús. Greiddur arður var 4 millj. 688 þús. kr. Hins vegar mun ég ekki sundurliða þessar upplýsingar eftir bönkum eins og beðið var um þar sem skattyfirvöldum er slík upplýsingagjöf óheimil skv. ákvæðum í 115. gr. laga nr. 75 frá 1981, um tekju- og eignarskatt.