12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

297. mál, útflutningur landbúnaðarafurða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans við fsp. mínum. Þau voru að ýmsu leyti ljós og skilmerkileg, en að öðru leyti alls ekki.

Í 2. lið var spurt hverjir önnuðust flutningana og við hvaða farmgjaldataxta væri miðað. Þar er greint frá því hvaða þrjú skipafélög hafi annast þessa flutninga. Hins vegar kemur í ljós í svarinu varðandi farmgjaldataxtana að þar er annars vegar talað um dollara og hins vegar talað um þýsk mörk. Það er kannske ekki auðvelt að átta sig á því í einni svipan hvernig þetta kemur út. Hins vegar kemur ekki fram hve mikið hver aðili flutti sem hefði þó verið sjálfsagt. Mér segir svo hugur um að þessum flutningum sé ekki beinlínis skipt jafnt á milli skipadeildar SÍS, Hafskipa og Eimskipafélags Íslands, án þess að ég geti fullyrt það, það kemur ekki fram í svarinu.

Sömuleiðis kemur hér fram hvernig umboðslaunagreiðslur skiptast að því er kjötútflutninginn varðar. Þar fær SÍS-veldið hálfa elleftu milljón. Tvö önnur fyrirtæki hafa flutt út kjöt í einhverjum mæli, en svo lítið að þau komast ekki á blað. Þetta sýnir hvernig veldi Sambands ísl. samvinnufélaga ræður lögum og lofum á þessum markaði.

Síðan segir hæstv. ráðh. að öllum sé frjálst að flytja út kjöt og landbúnaðarvörur. Það má sjálfsagt vera að svo sé í orði kveðnu, en mig rekur nú minni til þess að þegar aðilar utan Sambandsveldisins ætluðu að fara að flytja út lambakjöt fengu þeir einfaldlega þau svör að það væri ekkert kjöt til. Það er skrítið að tala um frjálsan útflutning ef það er sami aðili sem ræður ráðstöfun birgðanna sem eru til í landinu og sem hefur mestra hagsmuna að gæta af þessum útflutningi.

Varðandi 5. lið fsp. sagði hæstv. ráðh. að þessir flutningar hefðu verið boðnir út. Nú leikur mér nokkur forvitni á að vita um hve langan tíma útboð hafa átt sér stað eða hversu lengi Skipadeild SÍS hafi að meira og minna leyti annast þessa flutninga og önnur skipafélög ekki fengið að bjóða í þá. Það væri fróðlegt að fá svör við því.

Öll svörin við þessum fimm fsp. sýna í hnotskurn hvernig Samband ísl. samvinnufélaga ræður ríkjum á þessum markaði varðandi útflutninginn á landbúnaðarafurðunum. Þó að hann sé í orði kveðnu frjáls er hann það ekki í raun. Ég er alveg sannfærður um að hægt væri að vinna stórvirki varðandi útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum af ýmsu tagi ef viðskiptafrelsi fengi þar að njóta sín í raun og framtakssamir menn gætu fengið að beita sér að því að selja þessar vörur. En eins og þetta er er þetta allt í viðjum einokunar og búið að vera í mörg ár, ekki bara salan heldur hafa flutningarnir verið það líka þó að einhver breyting hafi kannske orðið á því.

En ég ítreka að hér koma ekki fram tölur um það hve mikið hver þessara aðila hefur flutt út. Væri fróðlegt að fá þær. Ég óska eftir því. ef hæstv. landbrh. hefur þær tölur ekki handbærar, að þær verði útvegaðar og þeim komið á framfæri.