12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3475 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

297. mál, útflutningur landbúnaðarafurða

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það eru nokkrar upplýsingar í sambandi við það atriði sem hér kom fram, hvort gripið yrði til útsölu á kindakjöti. Það var reynt að meta hver útflutningsþörf yrði á s.l. hausti og jafnframt var lagt kapp á að reyna að flytja það magn út sem fyrst eftir að sláturtíð lauk. Skv. þeirri áætlun hefur verið unnið. Ég vænti þess að í þessum mánuði verði búið að flytja út mestallt það kjöt sem flytja þarf út, en samt sem áður verði útflutningurinn allt að því helmingi minni en hann var á fyrra verðlagsári vegna þess að þá var gengið svo mjög á birgðir og jafnframt hefur kjötframleiðsla í landinu verið að dragast saman.

Um umboðslaun á kindakjöti vil ég segja að þau virðast vera rúmlega 2 kr. á hvert kg sem út er flutt. Sá háttur sem hafður er á við útreikning þeirra var tekinn upp fyrir um 20 árum skv. ábendingu frá þáverandi landbrh. Hins vegar hef ég rætt um hvort hægt væri að haga útreikningi á einhvern annan hátt, en það virðist vera nokkuð vandamál. Sjálfsagt er þó að biðja um að það sé skoðað nánar. — En það var sem sagt eftir ábendingu þáverandi landbrh. sem þessi háttur var tekinn upp.