12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3476 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

302. mál, framkvæmd iðnaðarstefnu

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Þetta var stutt svar frá hæstv. ráðh. en ekki að sama skapi innihaldsríkt. Hér var spurt hvernig framfylgt hefði verið samþykkt sem gerð var samhljóða hér á Alþingi þann 3. maí 1982. Og ég sé ástæðu til þess að rifja það upp hvernig samþykktin um þessa nefndarskipan er til orðin.

Þannig var að haustið 1981 komu fram tvær tillögur á Alþingi um iðnaðarstefnu. Önnur var endurflutt tillaga, í þriðja sinn að ég hygg, ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens, hin var tillaga frá gjörvöllum þingflokki sjálfstæðismanna í stjórnarandstöðu, líklega um 19 talsins, ég hef nú ekki talið þá saman. Og inn í þessa tillögu þingflokks Sjálfstfl. er tekið sérstaklega svofellt, með leyfi forseta:

„Iðnrn. hafi forustu um að samræma aðgerðir til að greiða fyrir framkvæmd þessara stefnu. Í þessum tilgangi verði sett á fót samstarfsnefnd um framkvæmd iðnaðarstefnu sem í eigi sæti skv. tilnefningu“ og síðan eru tilgreindir nokkrir aðilar sem sæti skuli taka í nefndinni.

Í texta þeirrar tillögu sem ég flutti sem iðnrh. á þeim tíma var aðeins kveðið á með svofelldum hætti: „Iðnrn. hafi forustu um að samræma aðgerðir hins opinbera, stofnana iðnaðarins og samtaka hans til að greiða fyrir framgangi þessarar stefnu.“

Veturinn 1981 — 1982 var í atvmn. Sþ. lögð veruleg vinna í það að ná samstöðu um þessar tvær tillögur, þ.e. að fá fram málamiðlun um þetta þýðingarmikla verkefni, stefnumörkun af hálfu Alþingis varðandi uppbyggingu iðnaðar í landinu á næstu árum og jafnvel áratugum. Í nefndinni starfaði þá m.a. núverandi varaformaður Sjálfstfl., hv. þm. Friðrik Sophusson, sem lagði sig mjög fram um það að þarna tækist samkomulag. Inn í þetta samkomulag voru tekin atriði frá báðum aðilum, þ. á m. þetta atriði að tillögu þingflokks sjálfstæðismanna á þessum tíma um sérstaka nefndarskipan. Hv. þm. Friðrik Sophusson hafði framsögu fyrir atvmn. hér í Sþ. 3. maí 1982 og sagði, með leyfi forseta, í upphafi:

„Þessi till. hv. atvmn. Sþ. er að langmestu leyti og nánast í öllum atriðum byggð á tveimur fyrirliggjandi þáltill. um iðnaðarstefnu, annars vegar 84. máli Alþingis, sem er till. 19 sjálfstæðismanna, og hins vegar 140. máli Alþingis, sem er þáltill. hæstv. ríkisstj.

Og hann segir enn frekar: „Þá kem ég að III. kafla, um framkvæmd. Fyrstu tvær mgr. voru í báðum þáltill. sem nefndin hafði til umfjöllunar, en í 3. mgr. er lagt til, eins og í till. sjálfstæðismanna, að sett verði á stofn samstarfsnefnd um framkvæmd iðnaðarstefnu. Auk fulltrúa iðnrn. og félagasamtaka iðnaðarins ásamt Sambandi ísl. samvinnufélaga, en það fyrirtæki stundar umfangsmikinn iðnrekstur, er lagt til að einn fulltrúi komi frá tilteknum ráðuneytum. Ég vitna hér ekki tímans vegna frekar í þetta, en hef þegar nefnt þá aðila sem kveðið var á um í þál. að ættu sæti í nefndinni.

Þetta var síðan samþykkt samhljóða sama dag, þessi texti sem hv. þm. Friðrik Sophusson mælti þarna fyrir og í samræmi við það var nefndin skipuð og sett á fót og starfaði mjög ötullega undir formennsku Vilhjálms Lúðvíkssonar til stjórnarskipta 1983. Svo vill til að daginn eftir samþykkt þessarar till. þann 4. maí 1982 mælti hv. þáverandi þm. Sverrir Hermannsson fyrir þáltill. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu og ég hygg að margir muni eftir þeirri framsögu. Ég leyfi mér hér að lokum, herra forseti, að vitna í örstuttan kafla úr máli hv. þm., núv. hæstv. ráðh., á þeim tíma. Hann sagði þar:

„Það verður æ meira áberandi að ráðherrar telja sér ekki skylt að fara að ályktunum Alþingis. Af svörum við fjölda fyrirspurna á Alþingi hefur komið í ljós að hæstv. ráðherrar hafa annaðhvort vanrækt framkvæmd ályktana Alþingis eða virt þær að vettugi með öllu. Slíkt getur Alþingi ekki látið bjóða sér. Það er engin afsökun að fleira sé samþykkt en frambærilegt getur talist. Ríkjandi meiri hluti á Alþingi hverju sinni ber aðalábyrgð á afgreiðslu mála. Honum ber að vega og meta málin og kjósa sér þau þrifamál til samþykktar sem meiri hlutanum eru skapfellileg. Að fengnu samþykki Alþingis á framkvæmdavaldið engra annarra kosta völ en hlýða og framkvæma eða að leita ásjár Alþingis á nýjan leik um breytingu eða niðurfellingu mála.“

Tilvitnun í mál hv. þáverandi þm. Sverris Hermannssonar lýkur. Ég hlýt að bæta hér við mína fsp.: Hvaða sinnaskipti hafa orðið hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni frá því 4. maí 1982 til þessa dags, að hann upplýsir okkur nú um það að hann hafi virt að vettugi samhljóða samþykkt Alþingis varðandi framkvæmd iðnaðarstefnu sem hér var gerð þann 3. maí 1982?