12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3480 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

302. mál, framkvæmd iðnaðarstefnu

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal svara því. Hv. 5. þm. Austurl. má ekki undrast þótt í einu og öllu sé ekki farið að þeirri skipan mála sem hann setti þegar hann var æðsti yfirmaður iðnaðarmála. Þá gæti hann rétt eins spurt hvernig á því standi að hann er ekki iðnrh. enn þá.

Ég hef breytt til að þessu leyti, það er rétt. En ég minni á það að við myndun nýrrar stjórnar kemur nýtt umboð mönnum til handa og ég fullyrði að ég hafi umboð hér á hinu háa Alþingi, meirihlutaumboð til þess að hafa haldið á iðnaðarmálum og framkvæmd þessara mála eins og ég hef gert. Ég fullyrði það þangað til sýnt verður fram á annað.