12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3485 í B-deild Alþingistíðinda. (2822)

313. mál, vanskil vegna húsnæðislána

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp og geri orð hans að mínum hér í lokin, að það er aldeilis óþolandi að við svo búið standi öllu lengur að það eina sem heyrist frá hæstv. ríkisstj. í málefnum húsbyggjenda séu fréttir utan úr bæ um hugmyndir að þessari eða hinni lausn, en engar framkvæmdir líti dagsins ljós. Lánsfjáráætlun liggur í salti og hæstv. félmrh. ber það gjarnan fyrir sig í umræðum um húsnæðismál eins og eitthvert náttúrulögmál að hendur hans séu bundnar og fætur hans heftir vegna þess að lánsfjáráætlun sé ekki komin fram, rétt eins og hæstv. ríkisstj. með sínum meiri hluta hér á Alþingi fái engu um það ráðið.

Það er hrikaleg mynd sem dregin er upp fyrir manni með þeim tölum sem komið hafa fram í svörum við þessari fsp., að nauðungaruppboðsbeiðnir skuli vera hátt á 18. þúsund talsins, ef ég hef tekið rétt eftir, og vanskil séu 136 millj. hjá Byggingarsjóði ríkisins og nemi allt að helmingi þegar um er að ræða lán til kaupa á eldri íbúðum.

Stjórnarandstaðan hefur lagt eitt og annað til þessara mála eins og hv. síðasti ræðumaður vék hér að. Ég minni í því sambandi á frv. okkar nokkurra þm. Alþb. um lausn á þessum málum þar sem m.a. er tekið á vandamálunum um greiðslubyrðina og hvernig hún hefur vaxið og gerðar tillögur um hvernig megi leiðrétta það misræmi sem þar hefur orðið. Einnig munu hv. þm. Kvennalista hafa flutt þáltill. sem gengur í svipaða átt. Sjálfstfl. og Framsfl., sem eiga að teljast í meiri hluta á hinu háa Alþingi, hafa hins vegar lítið sent frá sér. Þeir karpa gjarnan um það hér í ræðustólum hversu erfitt það sé í raun og veru að leysa þessi erfiðu vandamál. Einn hv. þm. Sjálfstfl. lét þau orð falla að þegar félmrh. dragi lappirnar þá sé erfitt fyrir hæstv. fjmrh. og Sjálfstfl. að leysa þetta. Og svipuð ummæli heyrast gjarnan frá hæstv. félmrh., að hann geti lítið því að fjmrh. fari með valdið og síðan sé það Seðlabankinn og svo liggi lánsfjáráætlunin negld niður í Ed. og ekki nokkur leið að þoka henni áfram og ekkert sé hægt að gera fyrr en hún sé komin fram.

Ég held að það sem hefur verið að gerast úti í þjóðfélaginu síðustu daga ætti endanlega að færa meiri hlutanum hér á Alþingi og hæstv. ríkisstj. heim sanninn um það að farið er að hitna undir rassinum á henni í þessum málum. Ég vona að þeir láti sér það að kenningu verða og gangi til liðs við okkur í stjórnarandstöðunni um að leysa þessi mál.