12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3486 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

313. mál, vanskil vegna húsnæðislána

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég er hér að svara ákveðnum spurningum og ætla ekki að eyða tíma deildarinnar í það að karpa um meðferð þessara mála. Ég vil aðeins taka það fram út af ræðu hv. 2. landsk. þm. að það kemur fram í svörum frá veðdeild Landsbanka Íslands að vanskil við Byggingarsjóð á nýbyggingarlánum voru 17.7% í árslok 1984 en voru 13.6% 1983. Menn sjá því hver aukningin hefur orðið.

Þegar rætt er um útsendar beiðnir um nauðungaruppboð, sem eru allháar tölur, þá er það náttúrlega í engu samræmi við það sem er í raunveruleikanum því að það er ákaflega lítið um nauðungarsölur á fasteignum á vegum byggingarsjóðanna. Það er undantekning frekar en hitt þó að þessi aðferð sé notuð af veðdeildinni í sambandi við innheimtuna sjálfa. Ég vil að það komi fram til að fyrirbyggja misskilning að alls ekki er um það að ræða að slíkar nauðungarsölur fari fram.

Mér finnst vera heldur leiðinlegt að hlusta á sífelld brigsl um svik og vanefndir í þessum málum. Það er hægt að nota önnur orð um þetta en hv. 2. landsk. þm. vill gjarnan nota í ræðustól um þessi mál og fleiri.

Ég vil aðeins geta þess, sem hefur raunar komið fram áður, að ríkisstj. hefur þessi mál til meðferðar og frá því í janúar hefur verið unnið að því að finna skynsamlegar leiðir til að draga úr greiðslubyrði húsnæðislána. Því neitar enginn að fólk á í miklum erfiðleikum í sambandi við verðtryggð lán og það misvægi sem þarna hefur myndast. En það er verið að reyna að finna leiðir út úr því og ég vona að áður en langt um líður hætti menn að nota þetta orðbragð sem hér hefur verið viðhaft.