12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3492 í B-deild Alþingistíðinda. (2829)

317. mál, meint fjársvik í fasteignasölu

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson dró upp mjög skýra mynd af þeim erfiðleikum og fjárhagslega tjóni sem einstaklingur hefur orðið fyrir vegna svika í fasteignaviðskiptum og hvernig seinvirkt dómskerfi hefur enn aukið á fjárhagslega erfiðleika þessa einstaklings. Ég þekki nokkuð til þessa máls og þar var ekkert ofsagt. Það er með eindæmum að það skuli taka tvö, þrjú ár að fá niðurstöðu í því máli í gegnum dómskerfið.

Ég skora á hæstv. dómsmrh. að hann beiti sér fyrir því í þessu sérstaka máli, sem hann greindi hér frá. að því verði hraðað eins og kostur er að fá niðurstöðu því að þessi einstaklingur hefur þegar lent í það miklu fjárhagslegu tjóni að hann á það á hættu þessa dagana að missa sínar eignir ef ekkert verður að gert. Ég skora á hæstv. dómsmrh. að beita sér í því máli.

Hæstv. dómsmrh. ræddi nokkuð um frv. sem lagt var fram á síðasta Alþingi og sem hann upplýsir að hann muni leggja fram á Alþingi innan skamms. Það tekur oft langan tíma að fá fram vilja Alþingis í ákveðnum málum og svo er einnig í þessu máli varðandi fasteignaviðskipti. Ég vil minna á að liðin eru 5–6 ár síðan rædd var hér þáltill. frá þm. Alþfl. sem fjallaði um kaup og sölu á fasteignum og sem að efni til hafði það að markmiði að tryggja betur en nú er réttarstöðu kaupenda og seljenda í fasteignaviðskiptum. Þessi till. var samþykkt á Alþingi árið 1980. Í umræddri þáltill. var komist þannig að orði að við endurskoðun á lögum um fasteignaviðskipti, sem eru frá 1938, ætti einmitt að kveða nánar á um þá viðskiptahætti sem í fasteignasölu eiga að gilda, svo sem skyldur fasteignasalans gagnvart kaupendum og seljendum fasteigna, ábyrgð þá sem hvílir á sölu- og kaupaðilum í slíkum viðskiptum, svo og um fasteignaviðskipti á byggingarstigi. (Forseti hringir.) Ég verð að segja að það frv. sem var lagt fram á síðasta þingi inniheldur ekki, að mínum dómi, nægilega skýr ákvæði til þess að tryggja það.

Hæstv. dómsmrh. upplýsir hér að það frv. sem var lagt fram á síðasta þingi muni verða að einhverju leyti breytt þegar það verður lagt fyrir þing á nýjan leik. Ég vona að því verði þá breytt í þá veru að það muni tryggja betur skyldur fasteignasalans gagnvart kaupendum og seljendum fasteigna.