12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3493 í B-deild Alþingistíðinda. (2830)

317. mál, meint fjársvik í fasteignasölu

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svör hans.

Ég leyfi mér að benda á að skv. tölul. 3 í þessari fsp. er spurst fyrir um hvaða aðgerðum ráðh. sé reiðubúinn að beita sér fyrir núna til að auka eftirlit með fasteignasölu innan gildandi lagaramma þannig að tryggt sé að fasteignasalar uppfylli þau takmörkuðu skilyrði sem lög setja þeim. Hæstv. ráðh. hefur því miður ekki gefið yfirlýsingu um að hann muni ganga eftir því að svo verði gert. Ég tel því miður harla litlar líkur á því að frv. sem kemur fram á Alþingi eftir þennan tíma fái afgreiðslu og þess vegna ítreka ég þá ósk mína við hæstv. dómsmrh. að hann beiti því valdi sem hann hefur í dag skv. gildandi lögum til þess að fylgja því eftir að þeir fasteignasalar sem nú starfa uppfylli þau skilyrði sem gert er ráð fyrir að þeir uppfylli.

Í annan stað langar mig til að vekja athygli hv. þm. á tvennu:

Fasteignasali er talinn sekur um að hafa með rangindum fimm íbúðir af saklausu fólki. Það líða tvö ár frá því að ákæruvaldið fær málið til meðferðar og þangað til það er þingfest fyrir dómi. Tvö ár!

Hinu málinu sem hæstv. ráðh. nefndi vísar Hæstiréttur heim í hérað til endurupptöku þann 9. jan. 1984. Það er ekki þingfest til endurupptöku í héraði fyrr en 18. maí 1984. Það tekur það hálft ár að komast rétta boðleið frá Hæstarétti til undirréttar á ný. Síðan líða margir mánuðir, þangað til í desember sama ár. Þá er það aftur tekið fyrir. 1 þriðja sinn er það ekki tekið fyrir fyrr en 22. febr. og er þá liðið meira en heilt ár frá því að Hæstiréttur vísaði þessu máli til endurupptöku í héraði án þess að nokkuð hafi gerst, og ekkert er farið að gerast enn.

Við skulum athuga að sá einstaklingur sem þarna á hlut að máli hefur á þessum tíma orðið að taka á sínar herðar, rangindum beittur, yfir 600 þús. kr. sem honum er ætlað að bera vegna svika aðila sem hann átti skipti við. Nú á að fara að ganga að þessum manni og hirða það litla sem hann á. Enn er íslenska dómskerfið ekki búið að taka málið fyrir til úrskurðar í undirrétti eins og því þó ber.

Hvað sem líður lagalegum rökum í þessu efni er það alveg ljóst í mínum huga að íslenska kerfið, Alþingi, framkvæmdavaldið og dómsvaldið, allar þrjár valdastofnanir, bera siðferðislega ábyrgð á því sem er að gerst hjá þessari fjölskyldu.

Árið 1979 var stofnað í dómsmrn., því rn. sem hv. þm. Jón Helgason stýrir nú, embætti umboðsmanns til þess að taka við kvörtunum eins og þeim sem hér er um að ræða og reyna að hjálpa því fólki sem í hlut á. Það var á þeirri tíð þegar Alþfl. fékk einhverju ráðið um með hvaða hætti með þessi mál væri farið. Fyrsta verk manna eftir stjórnarskiptin þá var að leggja þetta starf niður. Nú er þetta embætti ekki lengur til í dómsmrn.

Ég veit að hæstv. dómsmrh. er maður velviljaður. Það er ekki hans sök né nokkurs annars einstaklings út af fyrir sig þó að myllur réttlætisins á Íslandi mali svona seint. En ég ætla að fara þess á leit við hann í fyrsta lagi að hann snúi sér til sakadóms Reykjavíkur og spyrji hvað valdi því að það er liðið á annað ár frá því að Hæstiréttur sendi mál þetta til baka til undirréttar til endurupptöku. án þess að neitt hafi gerst meira en það sem hæstv. ráðh. lýsti. Ég vil einnig að hæstv. ráðh. komi á framfæri athugasemdum. (Forseti hringir.)

Í öðru lagi, og þá lýk ég máli mínu, herra forseti, er það ósk mín til hæstv. ráðh., sem er góðviljaður maður, að hann leggi sig fram um það, eftir því sem hann getur, að leysa vanda þeirra sem eiga um sárt að binda vegna þess hve myllur réttlætisins á Íslandi mala seint.