12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

317. mál, meint fjársvik í fasteignasölu

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Það hefur löngum leitað á hug minn hverjar kröfur séu gerðar til fasteignasala. Þegar ég fór að hlusta grannt eftir málflutningi hæstv. dómsmrh., sem er mætur maður og gegn og ég tek undir að hann er örugglega fólki velviljaður og góðviljaður, fór að renna upp fyrir mér að annað af þessum málum kannaðist ég býsna vel við. Ég er nokkuð öruggur á því að sá ungi maður sem í hlut á leitaði til mín fyrir um það bil tveim árum. Ég talaði við Rannsóknarlögreglu ríkisins, einn af æðstu mönnum þar, og hann sagði mér að umræddur fasteignasali væri erlendis, en væri væntanlegur fljótlega. Þetta er mætur og góður embættismaður. Hann sagðist skyldu ganga í þetta þegar í stað og málið yrði tekið fyrir. Tveimur árum seinna upplýsist að þessu máli, sem átti að hraða, er ekkert komið áleiðis. Ungi maðurinn, sem hefur unnið hörðum höndum frá barnæsku, stendur frammi fyrir því að missa aleigu sína. Hús sem hann seldi úti á landi fer í hendurnar á óheiðarlegum fasteignasala og eftir stendur hann með sína fjölskyldu á götunni allslaus og gersnauður. Ég verð nú að spyrja sem ólögfróður maður: Málavextir í þessu máli eru einfaldir, en hvernig getur svona lagað skeð? Hvert er réttaröryggið í landinu hjá hinum óbreytta heiðarlega manni? Ég verð að segja eins og er að ég er furðu lostinn. (Forseti hringir.) Ég skal nú ljúka máli mínu, herra forseti.

Ég vil aðeins segja að fasteignasölum má skipta í þrjá flokka: mjög góða og vandaða, sæmilega og forkastanlega. Ég treysti hæstv. dómsmrh. til þess að gera allt sem hann mögulega getur í sambandi við þetta eina mál og eins til að tryggja að aðhald að fasteignasölum verði meira en nú er.