12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3495 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

332. mál, gjaldmiðlar í erlendum lánum fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Fyrir tiltölulega skömmu síðan kom fram í fjölmiðlum að forsvarsmaður framleiðslufyrirtækis hélt því fram að hans fyrirtæki hefði tapað stórfé vegna þess að í sambandi við útflutning hefði fyrirtækinu verið gert að taka lán í annarri mynt en því hentaði, nefnilega í annarri mynt heldur en þeirri sem svaraði til útflutningsins, annarri mynt en varan var seld í. Forstöðumaður þessa útflutningsfyrirtækis hafði allstór orð um þetta mál sem ég skal ekki endurtaka. En þá hlýtur sú spurning að vakna sem hér er borin fram: Er það rétt að útflutningsframleiðendur, sem fá tækifæri til að taka erlend lán, geti hins vegar ekki fengið að taka þau í þeim gjaldmiðli sem þeir óska eftir, og þá t.d. ekki í þeim gjaldmiðlum sem sala vörunnar er gerð í? Þetta er fyrri hluti þeirrar fsp. sem ég ber hér fram.

Við könnumst náttúrlega við ýmis dæmi í sambandi við skipakaup sem sýna það glöggt hversu mismunandi afkoman getur verið hjá fyrirtækjum í útgerð eftir því hvort lán hafa verið tekin í einum gjaldmiðli frekar en öðrum. Og til þess að velja það sem víst mun vera, þá munar mestu hvort menn hafa tekið lánin í dollurum eða pundum eins og sakir standa. En spurningin er náttúrlega sú: Ef þetta er svo, að mönnum er ekki frjálst að taka lánin í þeim gjaldmiðlum sem þeir selja í, hvort menn telji þetta vera eðlilegt. Ég beini þeirri fsp. til ráðh., ef svo er að mönnum sé það ekki frjálst, hvort hann telji það eðlilegt, og ef hann telji það ekki eðlilegt, hvort hann hafi í hyggju að beita sér fyrir breytingum.