12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3499 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

332. mál, gjaldmiðlar í erlendum lánum fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég aðeins ítreka það sem ég gerði hér að umtalsefni, hvað val gjaldmiðils getur skipt miklum sköpum. Hugsum okkur t.d. fyrirtæki sem selur í dollurum. Það hefur á þessu tímabili fengið 34.3% hækkun vegna þess hvað dollarinn hefur hækkað en lánin hafa bara hækkað um 27.2%. Ef hann hefði selt í þýskum mörkum hefði verðið einungis hækkað um 5.2% en lánin um 27.2%. Þarna er 22% munur sem getur lent æði illilega á fyrirtækinu.

Svör ráðh. eru góð svo langt sem þau ná. Auðvitað er gott að þetta skuli verða með þessum hætti þegar það er komið til viðskiptabankanna. En væri ekki fyllsta ástæða til að gera þetta strax? Og ég ítreka spurningu mína: Hvað stendur í veginum fyrir því að veita þetta frjálsræði núna? Og vill ekki ráðh., ef mögulegt er að gera það núna, beita sér fyrir því? Að öðrum kosti verður hann að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem stendur í veginum.

Í öðru lagi hlýt ég að ítreka hina spurninguna sem hæstv. ráðh. svaraði ekki. Hvernig stendur á því að skv. hans svari hafa sum fyrirtæki fengið að taka lán í Evrópumyntum en öðrum hefur verið gert að taka þau í SDR, þó að þau hafi haft uppi óskir um annað, eftir því sem ráðið verður af þeirri umræðu sem fram hefur farið í þjóðfélaginu? Hvað ræður því að þessi mismunun á sér stað? Við þessu tvennu vil ég gjarnan heyra svör.