12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3501 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

333. mál, ávöxtun gjaldeyrisforða

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér verið sammála þeim markmiðum sem fram komu um að gjaldeyrisforðann skuli ávaxta þannig að hann sé öruggur, hann ávaxtist sem best og hann sé til ráðstöfunar þegar menn þurfa á honum að halda. En trú mín er sú að það sé einmitt í sambandi við ráðstöfun fjárins sem menn leggja allmikla vinnu í það hjá erlendum bönkum og sparisjóðum að gera sér grein fyrir því hvenær menn muni að líkindum þurfa á þessu ráðstöfunarfé að halda og hins vegar að velja bestu ávöxtun með tilliti til þess.

Það kom ekki fram í svari hæstv. ráðh. hversu stór hluti gjaldeyrisforðans frá Seðlabankanum verði ávaxtaður í verðbréfum sem bera vitanlega hærri vexti en skammtímainnstæður í erlendum bönkum. Ég hefði nú óskað eftir því að það væri upplýst, þannig að auðveldara væri að átta sig á því hversu vel hefði til tekist í þeim efnum. Það skiptir nefnilega verulegu máli.

Að öðru leyti hlýt ég að segja um þessar tölur, sem hér eru gefnar, að þær gefi ekki á þessu stigi tilefni til þess að um þær sé frekar fjallað, en ýmiss konar annan samanburð, sem ég hef ekki óskað eftir að gerður yrði, væri ástæða til að skoða til að ganga úr skugga um hvort sú ávöxtun, sem hér um ræðir, sé eins góð og æskilegt hlýtur að teljast.

Þessi fsp. er borin fram ekki síst til að vekja menn til umhugsunar um að hér getur verið um stórkostlegar fjárhæðir að ræða. Ég hefði nú haldið að jafnvel viðskiptabankarnir gætu ávaxtað sínar gjaldeyriseignir með einhverjum öðrum hætti en bara með tilliti til þess að gjaldeyriseignin ætti að vera til daglegra nota.

Ég vil, um leið og ég þakka hæstv. ráðh. svörin, beina því til hans að hann beiti sér í þessu máli og hefði gjarnan viljað að tækifæri gæfist til þess síðar að fá nánari samanburðarupplýsingar um það hvernig til hafi tekist um ávöxtun gjaldeyrisvarasjóðsins. Þá er það m.a. með tilliti til þess að þegar við lítum á samanburð við lántökurnar eru inni í þeirri súpu ýmiss konar gömul lán sem eru á lægri vöxtum en þeim sem gildandi eru varðandi ný lán.