12.03.1985
Sameinað þing: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3504 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

249. mál, rannsókn á innflutningsversluninni

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 427, sem er flutt af öllum þm. Alþb., og er till. á þessa leið:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd níu þm. hlutfallskosningu í Sþ. til þess að rannsaka málefni innflutningsverslunarinnar og til þess að gera tillögur til úrbóta. Nefndin skal beina rannsókn sinni að eftirfarandi atriðum:

1. Til hvaða ráðstafana er hægt að grípa í því skyni að tryggja að innflutningur til landsins verði hagkvæmari en nú er um að ræða?

2. Hvaða ráðstafanir er unnt að gera til þess að koma í veg fyrir misnotkun gjaldeyris : innflutningsverslun?

3. Hvað má ætla að stór hluti þjóðartekna tapist vegna óhagkvæmrar innflutningsverslunar?

4. Hvaða ráðstafanir er unnt að gera til þess að koma í veg fyrir að þeir, sem brotið hafa reglur um innflutnings- og gjaldeyrismál, fái verslunarleyfi á ný?

5. Hvernig er unnt að koma í veg fyrir að innflutningsverslun skipti við milliliði, heildsala, erlendis sem taka álagningu og umboðslaun af vörum sem seldar eru til Íslands?

6. Hvernig háttar innflutningsverði til annarra norrænna landa, þó einkum til Færeyja sem ætla má að séu á margan hátt sambærilegar við ísland?

Nefndin skili skýrslu til Alþingis haustið 1985. Nefndin kýs sér sjálf formann og varaformann. Kostnaður við nefndarstörfin greiðist af Alþingi, svo og sérfræðiaðstoð sem nauðsynleg kann að reynast.“ Í grg. er ítarleg grein gerð fyrir þessari till. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur lengi legið fyrir að innflutningur til Íslands er miklum mun dýrari en til grannlanda okkar. Þetta kom m.a. fram í könnun á innflutningsversluninni sem gerð var árin 1978 og 1979. Þessari könnun var þó ekki fylgt eftir á árunum 1980–1983, þegar viðskrh. Framsfl. fór með þetta mál, og að sjálfsögðu hefur viðskrh. núverandi ríkisstj. ekki sinnt þessu máli. Rannsóknin á högum innflutningsverslunarinnar var fyrsta heildstæða úttektin á vinnubrögðum heildverslunarinnar og er enn í fullu gildi.

Af og til koma svo upp mál sem staðfesta það hvað innflutningsverslunin er dýr fyrir þjóðarbúið. Þessi kostnaður veldur lífskjaraskerðingu svo að nemur hundruðum millj. kr., jafnvel milljörðum, eins og auðvelt er að sýna fram á.

Nýjasta málið, sem hér hefur komið upp, er kaffibaunasvindlið sem sagt var frá í blöðum í þinghléinu. Þar kemur fram að mismunurinn á raunverulegu verði og gjaldeyrisúthlutun nemur um 220 millj. kr. Það er svipuð upphæð og tekjur allra íbúa í Þorlákshöfn á árinu 1984. Allt það strit, sem íbúarnir þar lögðu á sig á síðasta ári á sjó og til lands, skilaði álíka heildartekjum og skrifborðsákvörðun um fáeinar faktúrur! Það þurfti heilt byggðarlag til þess að vinna fyrir þessu — sem þó er auðvitað aðeins eins og toppurinn á ísjakanum sem enn marar í kafi frjálshyggjunnar.

Gróðamyndun og sjálftaka innflutningsverslunarinnar á fjármunum almennings er í samræmi við stefnu núv. ríkisstj. Þess vegna er ekki við því að búast að hún taki á þessum hrikalegu vandamálum. Till. þessi er því flutt til þess að gefa Alþingi kost á því að taka málin í sínar eigin hendur. Ef alþm. vilja ná í peningana, sem þeir ríku hafa margfaldað á síðustu misserum, samþykkir þingið þessa till. um rannsókn á innflutningsversluninni, gjaldeyrisnotkun hennar og skattaframtölum.“

Með grg. þáltill. eru birt nokkur gögn. Þar er í fyrsta lagi birt í heild skýrsla verðlagsstjóra til viðskrh. um athugun á innflutningsversluninni í janúar 1979. Þar kemur mjög margt fróðlegt fram, m.a. um hagnað innflutningsverslunarinnar árin 1971–1976 og þær breytingar sem urðu á þessum hagnaði á árunum 1977, 1978 og 1979. Þá kemur það einnig glöggt fram í þessari grg. hvernig innflutningsverð hefur þróast í milljörðum kr. á árunum 1975–1978 og hversu stór hluti hefur verið tekinn í umboðslaun sem hlutfall af innflutningi á þessu árabili.

Það kemur einnig fram í grg. hvað innflutningur til Íslands er mikið dýrari en til grannlanda okkar. Það kemur fram í fskj. III, sem er grg. verðlagsstjóra um samnorræna verðkönnun á innfluttum vörum, dags. 23. ágúst 1978. Þar kemur í ljós að sé innflutningsverð til Svíþjóðar á því ári 100, þá er innflutningsverð til Danmerkur 103.6, Noregs 103.6, Finnlands 104.7, en Íslands 126.7. M.ö.o.: innflutningsverð til Íslands á þessu ári er talið vera 26.7% hærra en til Svíþjóðar á sama tíma. Þetta hærra innflutningsverð borgar þjóðin auðvitað með lakari lífskjörum en ella gæti verið um að ræða.

Í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen fór viðskrh. Framsfl. með þessi málefni og það verður ekki sagt að hann hafi beint iðað í skinninu við að taka á þessum málum. Þrátt fyrir yfirlýsingar sem sú ríkisstj. gaf aftur og aftur í efnahagsáætlunum sínum var ekki snert á þessum málum fyrr en á árinu 1982 þegar þáv. hæstv. forsrh. skipaði nefnd til þess að fara yfir þessi mál. Í rauninni jafngilti ákvörðun forsrh. því að taka málið úr höndum þáv. viðskrh. Hygg ég að það sé næsta fátítt í ríkisstj., ef ekki einsdæmi, að forsrh. telji sig knúinn til að taka mál úr höndum fagráðh. með þeim hætti sem hér var gert.

Í framhaldi af inngripi þáv. hæstv. forsrh. var skilað skýrslu 11. mars 1983. Skýrslan er birt sem fskj. IV með þessari þáltill. á bls. 18 í þskj. Skilabréf er undirritað af Þórði Friðjónssyni og Ragnari Árnasyni. Fulltrúi Framsfl. í þessari nefnd, sem fjallaði um málin, tók ekki þátt í störfum nefndarinnar og skilaði engu áliti og neitaði að standa að því nál. sem þarna var um að ræða. Það mun hafa verið Björn Líndal, starfsmaður í viðskrn.

Í grg. Þórðar Friðjónssonar og Ragnars Arnasonar er komið inn á leiðir til að draga úr viðskiptahalla og styrkja samkeppnisstöðu innlendra atvinnugreina með aðgerðum í innflutningsmálum sem samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslendinga um utanríkisviðskipti. Í grg. er komið víða við. Ég ætla ekki að fara að rekja hana í smáatriðum í framsöguræðu minni nú, enda er hún aðgengileg þeirri nefnd, sem um málið mun fjalla, hér í þskj. Ég held að þó væri fróðlegt að rifja upp nokkur atriði úr tillögum þeirra Ragnars Árnasonar og Þórðar Friðjónssonar.

Í fyrsta lagi gera þeir tillögu um að gerðar verði breytingar á ytri tollum, þ.e. öðrum tollum en þeim sem lagðir eru á innflutning frá EFTA og Efnahagsbandalaginu. Það er lagt til að viðkomandi ráðuneytum verði falið að kanna þennan kost í einstökum atriðum og gera ríkisstj. grein fyrir niðurstöðum sínum og tillögum innan fjögurra vikna, eins og þar stendur.

Í annan stað leggja þeir til að beitt verði hér í vaxandi mæli svokölluðum jöfnunartollum. Í samningum okkar við EFTA og Efnahagsbandalagið er gert ráð fyrir þeim möguleikum að beitt verði jöfnunartollum á innflutning. Þetta hefur sáralítið verið gert. Ég man satt að segja bara eftir einu tilviki þar sem er um að ræða jöfnunartoll á innflutt tilbúin hús. Að öðru leyti held ég að þessu ákvæði hafi mjög lítið verið beitt. Tillaga þeirra tvímenninganna er þessi: Lagt er til að hafin verði kerfisbundin vinna á þessu sviði. Eðlilegast virðist að viðskrn. annist framkvæmdir í samvinnu við önnur viðkomandi rn. og innlenda aðila.

Í þriðja lagi er lagt til að fram fari kerfisbundin athugun á beitingu undirboðstolla á vörur og vörutegundir sem eru fluttar hingað til lands á undirboðsverði. Ég er sannfærður um að að þessu eru veruleg brögð í okkar innflutningi og í þeim efnum mætti jafnvel nefna dæmi. Staðreyndin er hins vegar sú að embættismannakerfið hefur ekki verið fáanlegt til að taka á þessu máli vegna þess að það er flókið, það tekur mikinn tíma og er vandasamt og ekki einfalt. Auðvitað er eðlilegast að fjmrn. taki að sér slíkt verkefni í samvinnu við viðkomandi rn. og aðra innlenda aðila. Ég er þeirrar skoðunar að það séu svo mikil brögð að undirboðstollum í okkar hagkerfi að eðlilegt væri að hafa starfsmann í fjmrn. sem hefði lítið eða ekkert annað verkefni en að fylgjast kerfisbundið með tollum á þessu sviði. Ég er sannfærður um að ef þetta væri gert mætti skila inn verulegum fjármunum og um leið styrkja innlenda framleiðslu gagnvart innflutningi þrátt fyrir þau ákvæði sem eru í okkar lögum í raun vegna aðildar okkar að Fríverslunarsamtökunum og samningum okkar við Efnahagsbandalag Evrópu.

Í fjórða lagi leggja þeir félagar til að lagt verði tímabundið þróunargjald á sömu vöruflokka innfluttra iðnaðarvara og aðlögunargjald var lagt á á sínum tíma. Sérstakri sendinefnd verði falið að ræða um álagningu þróunargjaldsins við fulltrúa EFTA- og Efnahagsbandalagslandanna. Gjaldið verði 3–4% í upphafi, en lækki að 6–12 mánuðum liðnum stig af stigi uns það falli úr gildi 18–24 mánuðum eftir að það var lagt á. Hér er um að ræða gjald sem upphaflega var lagt á 1. jan. 1979 og rann út á árinu 1981. Það var kallað tímabundið aðlögunargjald á innfluttar iðnaðarvörur. Tilgangur þessa aðlögunargjalds var tvíþættur: Annars vegar að afla tekna til að stuðla að innlendri iðnþróun og hins vegar að gera okkar iðnaðarvörur samkeppnisfærari við innflutning en ella hefði verið. Það má segja að þessi ákvörðun hafi orðið til sem beint framhald af aðlögunartíma Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Eins og menn muna var gert ráð fyrir því í fríverslunarsamningunum að fríverslunin tæki gildi á tíu árum. Hér var gerð tillaga um það að framlengingartímabilið yrði lengt um 3–4 ár.

Fimmta tillagan, sem þeir tvímenningar gerðu varðandi innflutninginn, var um tímabundna og sveigjanlega innborgunarskyldu. Þeir leggja til að tekin verði upp innborgunarskylda við innflutning eins og t.d. hefur verið gert með húsgögn í nokkrum mæli. Þá var gert ráð fyrir því um skeið að greiða yrði inn í banka ég held 35% af innflutningsverði húsgagna til þess að draga úr innflutningi og skapa innlendum húsgagnaiðnaði betri stöðu en annars var um að ræða.

Þá var gert ráð fyrir því í sjötta lagi að samstarfsnefnd um gjaldeyrismál yrði falið að koma á samráði við viðkomandi ráðuneyti um að kanna framkvæmd ákvæða um gjaldfresti og möguleika á að þrengja slíkar heimildir að því er varðar fullunnar vörur. Hér er um að ræða stórmál sem ekki hefur verið snert við, m.a. vegna þess, og ég kem aftur að því, að í embættismannakerfinu er ríkjandi vantrú á hvers konar aðgerðum af þessu tagi. Embættismennirnir telja margir að hér sé um að ræða tímafreki og flókið verk og þeir vilja undir engum kringumstæðum fara út í slíkt verk þegar það reynir að sumu leyti á þanþolið á aðild okkar að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samningi okkar við EFTA.

Hér eru taldar upp fleiri tillögur. Alls er hér um að ræða tólf ítarlegar tillögur um það hvernig hægt er að draga úr innflutningi, hvernig hægt er að draga úr viðskiptahalla, hvernig hægt er að styrkja iðnað okkar gagnvart innflutningi án þess að það þýði að brotnar séu þær reglur sem kveðið er á um í samningum okkar við EFTA og Efnahagsbandalagið.

Því er stundum haldið fram að það sé ekkert hægt að gera í innflutningsmálum vegna þess að við höfum svo strangar reglur gagnvart Efnahagsbandalaginu og EFTA að það sé ekki hægt. Þessi skýrsla, sem birt er á bls. 18–24 í þessu þskj., sýnir alveg ótvírætt að hægt er að takmarka innflutning með margvíslegum aðgerðum án þess að það brjóti á neinn hátt í bága við þær reglur sem við höfum gengist undir í EFTA og Efnahagsbandalaginu.

Núv. ríkisstj. stendur frammi fyrir stórfelldum viðskiptahalla. Hún hefur keyrt kaup niður í 60–70% af því sem var hérna fyrir þremur, fjórum árum. Þrátt fyrir það verður hér um að ræða mikinn viðskiptahalla og greinilegt að grípa verður til sérstakra aðgerða til að draga úr innflutningi og viðskiptahalla. Hvað er viðskiptahalli? Viðskiptahalli er erlendar skuldir. Menn eru mikið að kvarta yfir því og tala um að við berum þunga greiðslubyrði af erlendum lánum. Það er rétt. Ein leiðin til að draga úr erlendum skuldum er að skera niður viðskiptahallann með þeim tillögum sem hér eru á dagskrá.

Fskj. V með þessari þáltill. er margvíslegar blaðaúrklippur sem birtar voru í blöðum í framhaldi af svokölluðu „kaffibaunasvindli“ og ætla ég ekki að rekja þær hér í einstökum atriðum að sinni nema sérstakt tilefni gefist til.

Í fskj. VI er farið yfir það hvaða lagaheimildir viðskrh. hefur í þessu efni samkv. gildandi lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Ég tel að ekki sé nokkur vafi á að hæstv. viðskrh. hafi mjög víðtækar lagaheimildir nú þegar til að draga úr innflutningi. Þessar lagaheimildir voru samþykktar samhljóða á Alþingi á sínum tíma. Það var gefin úr reglugerð á grundvelli þessara laga í nóvember 1979 af þáv. viðskrh. Kjartani Jóhannssyni. Þarna er, bæði í reglugerðinni og í lögunum, um að ræða mjög eindregnar heimildir sem viðskrh. landsins getur notað ef hann vill draga úr innflutningi, ef hann vill draga úr kostnaði við innflutningsverslunina. Öll hljótum við að vera sammála um nauðsyn þess að halda kostnaði við innflutningsverslunina sem mest niðri. Innflutningsverslunin er dýr og það er skylda Alþingis að fjalla um leiðir til að draga úr kostnaði við hana.

Herra forseti. Ég ætla í þessari umr. að draga fram nokkrar fleiri upplýsingar um innflutningsverslunina og þróun hennar og veltu á undanförnum árum. Gríp ég þá niður hér í atvinnuvegaskýrslur Þjóðhagsstofnunar 1980–1981 sem nýlega hafa borist þm. í hendur og eru um margt mjög fróðlegt plagg.

Það kemur t.d. fram í því plaggi, sem ég er ekki viss um að allir þm. hafi gert sér grein fyrir, a.m.k. fannst mér talan athyglisverð, hvað fyrirtæki eru mörg á Íslandi. Hvað ætla alþm. að fyrirtæki séu mörg á Íslandi með sjálfstæð framtöl? Þau eru 31 985 í þessu litla landi, þessu litla hagkerfi. Svo eru menn að undrast á því að erfitt sé fyrir skattaeftirlitið að ná utan um þetta kerfi. Hér er um að ræða 31 þús. og 900 fyrirtæki sem eru flokkuð sem slík samkvæmt atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands. Fróðlegt er að líta á að það eru 1300 heildverslanir á Íslandi, eins og þetta var 1982, og smásöluverslanir eru á sama tíma 1900. Þetta segir okkur talsverða sögu um íslenska hagkerfið, hvernig það er og hvað það vill í rauninni vera erfitt oft og tíðum fyrir stjórnvöld að ná utan um þetta og hætta á að hlutirnir verði sundurvirkir og skili ekki ýtrustu hagkvæmni í hverri grein.

Það er fróðlegt einnig í þessu sambandi að skoða hvernig vinnuafl hefur þróast eftir atvinnugreinum hér á síðustu árum. Ég er hér með yfirlit um hvernig þetta hefur þróast í heildversluninni 1974–1982. Þar kemur í ljós að allan tímann er um að ræða nokkra aukningu jafnt og þétt, stundum litla, stundum meiri, í þessari atvinnugrein. Aukningin á árabilinu er í kringum 17–18%. Ef hins vegar er skoðað annað atriði í þessu, sem er velta heildverslunarinnar, sjá menn hvað þetta er stór þáttur í þjóðarbúinu. Velta heildverslunarinnar á árinu 1983 var 16 milljarðar kr. Í dag komu fram upplýsingar um að hagnaður hennar hefði ekki verið nema í kringum 300 millj. kr. eftir „skattalegar ráðstafanir“ á árinu 1983. Það sem kallað er hér „heildverslun“ er heildverslun af hvaða tagi sem er, þ. á m. útflutningsverslun sem hefur mjög lítinn hluta af þessu eða um 780 millj. kr. Byggingavöruverslun hefur 2.5 milljarða kr., sala á bílum og bílavörum hefur 2.7 milljarða kr. og önnur heildverslun hefur hér um 10 milljarða kr.

Það er einnig fróðlegt, herra forseti, að virða fyrir sér skiptingu vinnuafls eftir atvinnugreinum á árunum 1974–1982 og athuga hvað heildverslunin er með marga menn í vinnu. Það kemur fram að á árinu 1982 er heildverslunin með 5623 menn í vinnu, en hvað skyldu allir sjómenn á Íslandi vera margir á sama ári? Þeir eru 5745. Allir þeir sem stunda fiskveiðar eru 5745. Þannig má segja að hver einn sjómaður sé með einn starfsmann heildverslunar á bakinu á sér.

Eitt af því, herra forseti, sem vakti athygli mína þegar ég fór að undirbúa framsöguræðu fyrir þessa þáltill. var hvað lítið er til af nýlegum upplýsingum um verslunina. Má það verða mönnum nokkurt umhugsunarefni, m.a. þeim mönnum sem telja sig tengda versluninni á einhvern hátt, að það eru í rauninni engar brúklegar upplýsingar til um verslunina eftir 1981 eða 1982. Þegar spurt er um brúttóhagnað verslunarinnar á síðustu árum eru engar tölur til. Það eru til gamlar tölur hjá Þjóðhagsstofnun. Þegar ég fékk engar tölur hjá Þjóðhagsstofnun hringdi ég í Verslunarráð Íslands og spurði: Hvað hafið þið af tölum í þessu? Ég hringdi í Félag ísl. stórkaupmanna og Kaupmannasamtökin og spurði: Hvaða tölur eru þið með? Á hverju byggið þið ykkar ályktanir um afkomu verslunarinnar, heildverslunar eða smásöluverslunar eftir atvikum? Það kom í ljós, sem mér þótti kostulegt, að Verslunarráð Íslands og Kaupmannasamtökin voru ekki með neinar áætlanir um þetta sem þau samtök voru tilbúin að láta mér í té, en það sem var mikið alvarlegra, má segja, var að Þjóðhagsstofnun er ekki með neitt af brúklegum nýjum tölum í sambandi við verslunina. Þetta er alveg yfirgengilegt, miðað við það hvað hér er um stóran þátt að ræða í okkar efnahagskerfi. Heildverslun og smásöluverslun á Íslandi velta á þessu ári sennilega 50 milljörðum kr., en það eru engar heildartölur um alla þessa súpu til í hagkerfinu. Þjóðarframleiðslan er 80– 90 milljarðar kr. 50 milljarðar fara í gegnum heildverslun og smásöluverslun. Það eru ekki til brúklegar upplýsingar um það að mínu mati.

Ég fékk upplýsingar um það frá Þjóðhagsstofnun hvernig afkoma þessara fyrirtækja er áætluð og hversu mikil laun þau eru talin greiða á árunum 1981, 1982 og 1983. Þar kemur fram að heildarlaunagreiðslur í þessum fyrirtækjum eru taldar vera um 777 millj. kr. á árinu 1983 sem er rétt að hafa til hliðsjónar við 30 milljarða veltu. Vissulega eru þessi fyrirtæki mikilvægir atvinnurekendur og vissulega skulum við ekki gera lítið úr nauðsyn þess að hér þrífist brúkleg innflutningsverslun, en við skulum líka reyna að átta okkur á því að ef stjórnvöld eiga að geta tekið ákvarðanir í efnahagsmálum, það er sama um hvað það er, verða að liggja fyrir upplýsingar um þátt eins og þennan. Þess vegna verð ég að segja að það er alveg makalaust að maður skuli koma að algerlega lokuðum dyrum svo að segja hvað snertir upplýsingar um verslunina bæði hjá Þjóðhagsstofnun og jafnvel hjá Verslunarráði Íslands sem hefði nú átt að hafa einhverjar upplýsingar um þessi mál. Þetta þætti skrýtið t.d. hjá bændasamtökunum svo ég nefni dæmi. Þar eru menn með búreikningastofu og halda allnákvæmt bókhald um afkomu bænda eftir því sem kostur er á. Sama er að segja um frystinguna, saltfiskverkunina og útgerðina í landinu. Upplýsingasöfnunin er nokkuð nákvæm, eftir því sem mögulegt er, eftir skattaframtölum og leiðréttingum eftir á. En það vantar í rauninni allar upplýsingar um verslunina og Verslunarráð Íslands þorir ekki einu sinni að senda frá sér ágiskanir um þessa hluti vegna þess að Verslunarráðið hefur ekkert í höndunum.

Ég bað Þjóðhagsstofnun um nýjustu upplýsingar um hag smásöluverslunar og heildverslunar. Hér segir, með leyfi forseta: „Nýjustu tölur um raunverulegan hag smásöluverslunar eru frá árinu 1980.“ Það eru fimm ár. Og svo segir hér: „Svipuðu máli gegnir um heildverslun og smásöluverslun.“ Það eru fimm ár. Það eru engar skráningar til á þeirri sveiflu sem hefur orðið í þessari stóru starfsgrein á fimm ára tímabili.

Hins vegar hafði Seðlabankinn upplýsingar um gjaldeyrisskil umboðslaunatekna inn í bankakerfið frá 1968 og þar kemur margt fróðlegt fram. Það sem mér fannst athyglisverðast var hversu þessi gjaldeyrisskil eru sveiflukennd. Á einu árinu skilar innflutningsverslunin kannske í heildarumboðslaun 1.6% af almennum innflutningi, en annað árið skilar innflutningsverslunin 3.6% af almennum innflutningi í umboðslaun. Þetta eru stórar upphæðir, sem hér er um að ræða, fyrir þjóðarbúið. Á árinu 1984 munar þetta, bara þetta hlaup í lágum prósentum, milli 20 og 30 millj. kr.

Herra forseti. Tilefni þáltill. eru að nokkru leyti þær umræður sem í upphafi þessa árs urðu um innflutning á kaffibaunum hjá ákveðnu fyrirtæki. Ég vil hins vegar taka fram að að sjálfsögðu er engin ástæða til að ætla að sú innflutningsaðferð og gjaldeyrisskilaaðferð sé bundin við það fyrirtæki eitt. Það eru mörg fleiri fyrirtæki í innflutningi, eins og ég hef hér rakið. Það eru mörg fleiri fyrirtæki í kaffibaunainnflutningi en það fyrirtæki sem einkum hefur verið rætt um að undanförnu. Það má segja að það sé jákvætt að upplýsingar hafi komið frá þessu fyrirtæki sem tengist samvinnuhreyfingunni. Vonandi verður það til þess að unnt verði að taka á innflutningsmálum einkaverslunarinnar líka, vegna þess að ég er ekki í nokkrum vafa um að það er víðar pottur brotinn í þessu efni en aðallega hefur verið rætt um að undanförnu í tengslum við Samband ísl. samvinnufélaga.

Það kom fram fyrr í dag, herra forseti, að á árinu 1983 hefði heildarhagnaður skipafélaga, smásöluverslunar, heildverslunar og banka numið 1.5 milljörðum kr. Það jafngildir árslaunum 6–7000 verkamanna miðað við kauptaxta. Þetta gerist á sama tíma og kaup fólksins í landinu var skorið niður um 27% frá því að núverandi ríkisstjórn tók við á miðju því ári. Þarna eru peningarnir sem teknir voru upp úr launaumslögum fólksins. Þeir eru hjá þessum aðilum sem hafa grætt meira en nokkru sinni fyrr á undanförnum misserum. Þarna kemur afleiðing stjórnarstefnunnar fram: tilflutningur fjármagns frá fólki og framleiðsluatvinnuvegum, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, yfir til milliliða og innflutningsaðila. Til þess að ná utan um þetta mál, til þess að rannsaka það til hlítar er Alþingi skylt að taka ákvörðun vegna þess að ríkisstj. sjálfri er ekki treystandi í þessu efni. Þess vegna er þessi till. flutt og ég vona að Alþingi sjái sóma sinn í því að samþykkja hana.