24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

6. mál, orka fallvatna

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um orku fallvatna og nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum nr. 15/1923, en flm. með mér að máli þessu eru hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson, hv. 7. landsk. þm. Kristín Halldórsdóttir og hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson.

Frv. sama efnis var flutt á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt, og ég vísa um rökstuðning fyrir máli þessu að verulegu leyti til allítarlegrar framsögu sem ég flutti hér í hv. Nd. 28. mars s.l. Þó vil ég rekja hér örfá atriði til þess að rifja upp fyrir hv. þdm. um hvað málið snýst í meginatriðum.

Með frv. er lagt til að lögfestar verði almennar reglur um eignarrétt að orku fallvatna landsins og nýtingu hennar. Er kveðið á um að orka fallvatna sé eign ríkisins sem eitt hafi heimild til að nýta hana. Frá þeirri meginreglu eru þó gerðar undantekningar sem snúa að virkjunarréttindum og koma fram í 2. gr. frv. Meginundantekningin kveður á um að réttur landeigenda haldist til virkjunar allt að 200 kw. Þeir sem þegar hafa nýtt heimildir sínar til virkjunar á fallvatni halda þeim rétti að sjálfsögðu svo og þeir sem hafa hafið framkvæmdir við slíkt verk. Loks er þeim sem virkjunarheimildir hafa veittur 10 ára aðlögunarfrestur til þess að nýta sér þær heimildir. Þannig kemur fram mikill sveigjanleiki í þessu frv. gagnvart þeim sem þegar hafa fengið heimildir til virkjunar.

Enn fremur er í frv. kveðið á um að ráðh. geti veitt leyfi til þess að virkja fallvötn, með þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja, m.a. um uppgræðslu lands í stað gróðurspjalla sem leiða af virkjunarframkvæmdum. Áður en virkjunarleyfi er veitt skal leitað umsagnar Náttúruverndarráðs.

Frv. þetta er afrakstur af starfi nefndar sem skipuð var í apríl 1979 af iðnrh. Verkefni hennar var að semja drög að frv. til laga um að virkjunarréttur fallvatna verði þjóðareign. Stefnumörkun um þetta efni var tekin inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., sem mynduð var 1. sept. 1978, en sú stjórn var studd af Alþb., Alþfl. og Framsfl. Áttu fulltrúar frá þessum flokkum sæti í nefndinni, sem frv. mótaði, ásamt sérfræðingum.

Nefndin skilaði áliti með bréfi dags. 22. sept. 1981 og fylgir það sem fskj. á eftir grg., en þar segir m.a.: „Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins.

Meiri hl. nefndarinnar, Árni Reynisson, Bragi Sigurjónsson, Guðmundur Vigfússon og Jakob Björnsson, leggur til að lögfestar verði almennar reglur um eignarrétt á orku fallvatna landsins og nýtingu hennar á þann veg sem rakið er í meðfylgjandi drögum að frv. til laga um orku fallvatna og nýtingu hennar“.

Nokkru síðar segir í sama bréfi:

„Minni hl. nefndarinnar, Páll Pétursson, sem vegna anna gat ekki setið nema nokkra af fundum nefndarinnar þótt hann fylgdist að öðru leyti með störfum hennar, lýsti sig í grundvallaratriðum ósammála áliti meiri hl. Hann skilar séráliti, sem einnig fylgir bréfi þessu, þar sem hann gerir grein fyrir viðhorfum sínum, en hann leggur ekki fram sérstaka frumvarpstillögu.“

Nál. minni hl. nefndarinnar, hv. alþm. Páls Péturssonar, og lögfræðilegt álit sem því fylgdi er birt sem fskj. með þessu frv. og hv. þm. gerði raunar grein fyrir því við umr. málsins hér fyrr á þessu ári í hv. Nd. Álit meiri hl. fylgir með frv. í heild sem uppistaða í grg., svo og athugasemdir við einstakar greinar.

Áður en frv. þetta var flutt á síðasta þingi var gengið úr skugga um að núv. ríkisstj. hygðist ekki taka þetta mál upp með þeim hætti sem gert er í þessu frv.

Flm. taka hins vegar undir þá stefnu að sem mest af náttúruauðlindum landsins beri að lýsa sameign þjóðarinnar, þar á meðal réttinn til virkjunar fallvatna, þó með þeim takmörkunum sem fram koma í 2. gr. frv. Því er mál þetta nú flutt við upphaf þings til að láta reyna á hvort ekki sé vilji hér á hv. Alþingi til að lögfesta ákvæði frv., e.t.v. að sjálfsögðu með einhverjum breytingum á einstökum ákvæðum þess í meðferð þingsins.

Ég mælti í gær hér í hv. Nd. fyrir öðru frv. um jarðhitaréttindi. Það byggir á sömu viðhorfum og endurspeglast í þessu frv., þ.e. að helstu náttúruauðlindir landsins eigi að vera sameign þjóðarinnar og að löggjafanum beri að marka um það ótvíræða stefnu Ég minnti á það, þegar ég mælti fyrir því máli í gær, að mætir menn, þ. á m. fræðimenn á sviði lögfræði eins og prófessor Ólafur heitinn Jóhannesson og dr. Bjarni heitinn Benediktsson, studdu þá meginstefnu sem fram kemur í þessum málum, þó að þeir hefðu ekki það atfylgi sem skyldi í sínum flokkum við þá stefnumörkun. En ég tel að rökstuðningur þeirra beggja fyrir þessum viðhorfum, sameignarviðhorfum varðandi náttúruauðlindir sem fram koma í lærðum ritgerðum af þeirra hálfu, ætti að vera hv. þm. til umhugsunar í sambandi við þessi mál.

Það er von mín að stuðningur við þessa stefnu fari vaxandi bæði innan þings og utan, svo eðlileg sem hún verður að teljast og lýðræðisleg að inntaki.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til hv. iðnn. þessarar deildar.