13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3518 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

348. mál, þinglýsingalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á þinglýsingalögum nr. 39 10. maí 1978. Frv. þetta varðar breytingu á reglum um þinglýsingu skjala er varða skráðar bilreiðir. Fer nú um það efni skv. VI. kafla þinglýsingalaga með sama hætti og um þinglýsingu skjala er varða skráningarskyld skip minni en fimm rúmlestir. Skal slíku skjali þinglýst þar sem bifreiðin er skráð. Ef skráð bifreið er flutt milli skráningarumdæma skal senda skjöl, er hana varða, til þinglýsingardómara í nýja umdæminu en þinglýsing fer hins vegar ekki fram á ný.

Þetta frv. var flutt á síðasta Alþingi í tengslum við frv. til l. um breytingu á umferðarlögum sem þá var lagt fram. Þessi frv. urðu þá ekki útrædd og hlutu ekki afgreiðslu frá Alþingi. Nú hefur verið lagt fram frv. til umferðarlaga á Alþingi. Þar er gert ráð fyrir því að umdæmisskráning ökutækja verði lögð niður og að Bifreiðaeftirlit ríkisins annist skráningu ökutækja í stað lögreglustjóra.

Nauðsyn ber til að aðlaga ákvæði þinglýsingalaga nýjum reglum um skráningu ökutækja ef lögfestar verða. Felur frv. þetta í sér breytingar að þessu leyti og er þá gert ráð fyrir því að um þinglýsingu skjala, er varða skráðar bifreiðir, fari eftir sömu reglum og um lausafé almennt, svo sem ákveðið er í VII. kafla þinglýsingalaga. Verður skjali þá þinglýst á heimavarnarþingi eiganda bifreiðarinnar. Flytji eigandi úr þinglýsingarumdæmi eða eigendaskipti verða að bifreið má þinglýsing fara fram að nýju, en hún er eigi nauðsynleg.

Til að tryggja að tiltækar séu upplýsingar um það, hvort skjali hafi verið þinglýst á bifreið, er gert ráð fyrir því að í ökutækjaskrá Bifreiðaeftirlitsins, þar sem færðar eru upplýsingar um skráð ökutæki af öllu landinu, verði færðar upplýsingar um þinglýsingar á skjölum er varða bifreiðir. Vegna tölvuvæðingar Bifreiðaeftirlitsins og embætta þinglýsingardómara verður unnt að koma slíkum upplýsingum í ökutækjaskrá um leið og skjal er móttekið til þinglýsingar. Um tilhögun tilkynninga að þessu leyti og færslu í ökutækjaskrá verði settar nánari reglur. Gert er ráð fyrir því að í ökutækjaskrá verði einungis færðar upplýsingar um þinglýsingu skjala, er varða skráðar bifreiðir, en ekki önnur skráð ökutæki, svo sem bifhjól, dráttarvélar, tengi- og festivagna o.fl.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.