13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3523 í B-deild Alþingistíðinda. (2865)

307. mál, fjárfestingarsjóður launamanna

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja það að hér er á ferðinni mál sem er nokkurrar athygli vert. Hv. 1. flm. hefur nokkuð vikið að því að þetta væri á margan hátt hliðstætt mál við það sem komið er í framkvæmd a.m.k. í Svíþjóð. Það er greinilegt þegar þetta frv. er skoðað og litið til þeirra framlaga sem gert er ráð fyrir að fari stighækkandi, að þarna verður um allverulega samsöfnun fjármagns að ræða. Hinu er ekki að neita, að eins og umr. hafa átt sér stað um sparnað hér á landi hefur svokallaður frjáls sparnaður e.t.v. verið fyrirferðarmeiri í umr., þ.e. að hverjum einstaklingi sé þá frjálst með einum eða öðrum hætti að spara af sínu takmarkaða aflafé. Hér er hins vegar með vissum hætti á ferðinni skylda til sparnaðar.

Hv. 1. flm. vék að því að hér væri í raun og sannleika ekki um að ræða álögur á atvinnureksturinn. Ég get á vissan hátt tekið undir þessi ummæli þm., þ.e. ef þetta frv. verður samþykkt og kemur til framkvæmda verða launagreiðslur af hálfu fyrirtækja rýrari með tímanum að sama skapi en þessar framlagsprósentur segja til um. Niðurstaðan verður sú. Hins vegar vil ég síður en svo halda því fram að það form, sem hér er gerð till. um til að auka sparnað, eigi ekki rétt á sér.

Við fyrstu sýn virðist svo sem það sé nokkuð mikil miðstýring að því er varðar ráðstöfun fjár úr sjóðnum. Stjórn sjóðsins, sem kjörin verður að hluta til af fulltrúaráðinu og að hluta til af Alþingi, mun fara með framselt vald af hálfu fulltrúa ráðsins í raun, ef ég skil þetta rétt. Það stendur hér, með leyfi forseta:

„Stjórn sjóðsins tekur ákvarðanir um fjárfestingar og lánveitingar sjóðsins í samræmi við þá stefnu sem fulltrúaráðið hefur markað.“

Með vísan til síðari greina frv., ekki síst 7. gr., virðist mér augljóst að stjórn sjóðsins er í raun ekki myndug gagnvart nema 50% af innstæðum í sjóðnum. Í 7. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Almennt gildir að atvinnurekandi á rétt á því að sjóðurinn leggi fram fé í formi eignarframlags eða lánveitingar er nemi 50% af greiðslum fyrirtækisins til sjóðsins, enda liggi fyrir að starfsmenn þess hafi verið hafðir með í ráðum um ráðstöfun þessa fjár og meiri hluti þeirra veitt samþykki sitt, sbr. 8. gr.

Mér kemur til hugar að miðað við þessa framsetningu, sem ég fyrst vék að í 2. gr. frv., geti myndast togstreita á milli ákvarðana á vegum stjórnar sjóðsins og þeirra viðhorfa sem ríkja í viðkomandi fyrirtæki, ef það er þannig, sem ég efast um, að sjóðsstjórninni er ætlað að hafa á hendi ráðstöfunarrétt á öllu fé. En ég tel mjög mikilvægt að úr þessu sé skorið þannig að — (Gripið fram í.) Já, það er einmitt það. Þá hygg ég að eðlilegt sé að taka skýrar til orða í 2. gr. Ég geri það að sjálfsögðu að engri frágangssök, en ég hygg að það væri heppilegra.

Það er vert að minna á það að á árinu 1984, á síðasta þingi, voru samþykki lög um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Ég veit að hv. 1. flm. er fullkunnugt um þessa löggjöf og út af fyrir sig væri fróðlegt að hafa á hendi upplýsingar um það í hve ríkum mæli einstaklingar hefðu notað sér þann frádrátt frá tekjum vegna þess að þeir hefðu lagt fram fé í atvinnurekstur, ekki síst í formi hlutafjárkaupa. Það væri ekki síst forvitnilegt að vita eitthvað um það hversu víða hefðu verið stofnaðir starfsmannasjóðir. Ég get strax lýst því yfir að sá hluti viðkomandi löggjafar var mér geðþekkastur, ef ég má svo að orði komast. Mér virtist þá og virðist enn að það geti verið æskileg leið til að stofna til gagnkvæms áhuga starfsmanna og yfirstjórnenda fyrirtækja, leið til þess að auka hlutdeild starfsmanna í ákvarðanatöku um fyrirtækin. En þetta sem ég var að segja núna varðar þá starfsmannasjóði sem lagagrunnur var settur um árið 1984.

Ég geri fremur ráð fyrir því að fjh.- og viðskn. þurfi nokkurn tíma til að ígrunda þetta mál. Ég sagði það fyrst í minni stuttu tölu að hér væri mál á ferðinni sem væri nokkurrar athygli vert og ég vil að fjh.- og viðskn. skoði það vel. Hins vegar tel ég þrátt fyrir allt — og er það samhljóða því sem ég hef áður haldið fram-að sá sparnaður sé æskilegri þegar einstaklingarnir sjálfir ákveða hann á grundvelli síns aflafjár.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Að síðustu legg ég áherslu á það að menn hugi vel að því að þarna verði ekki sett upp stirt bákn. Allt fjárstreymi á grundvelli þessa sjóðs þarf að ganga sem eðlilegast fyrir sig og menn þurfa að gæta vel að því að menn lendi ekki í neinum blindgötum.

Hitt er það að eins og vikið er að í 4. gr. er gert ráð fyrir því að endanlegt uppgjör fari fram að tólf árum liðnum. Með vísan til hlutverks þessa sjóðs, sbr. að kaupa hlutabréf, og með vísan til þessa að uppgjör skal fara fram að tólf árum liðnum fyrir hvern einstakling, þá sýnist mér liggja í hlutarins eðli að það þurfi að koma til ærið ör endurfjármögnun á hlutabréfum því að það er eitt hlutverk sjóðsins að stofna til framlaga í atvinnurekstri með hlutabréfakaupum.