13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (2869)

307. mál, fjárfestingarsjóður launamanna

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fullyrðir fyrst að þetta sé skyldusparnaður á launþega, en spyr svo á eftir hver greiði og segir að hér sé verið að fara eitthvað í kringum hlutina. Í kringum hvað?

Ég hef lýst því að úr þessari spurningu verður ekki leyst með einföldu svari. Það er greinilegt að þeir sem greiða þetta endanlega eru fjölmargir, kannske við öll í þjóðfélaginu. Greiðslan kemur hins vegar ótvírætt frá atvinnurekandanum í upphafi, leggst ofan á gildandi samninga og er því ekki skyldusparnaður á launþega. Frekar má kalla þetta í upphafi skyldusparnað á atvinnurekendur. En vegna þess að greiðslan er frádráttarbær í bókhaldi og kemur ekki fram sem skattskyldar tekjur launamannsins er á það bent, og réttilega verið að skýra frá staðreyndum, að auðvitað eru það einnig skattgreiðendur sem þarna gjalda sitt og einnig vel hugsanlegt að í mörgum tilvikum gjaldi neytendur þess í einhverju. Ég sá ekki ástæðu til annars en að draga fram þessar þrjár hliðar málsins: þ.e. annars vegar launagreiðsluna sem slíka, hins vegar skattahliðina og svo aftur verðlagshliðina. Þetta eru allt þrjár hliðar á sama máli og vegna þess að hliðarnar eru þrjár er ekki alveg hægt að svara því með einföldu nafnorði hver það er sem innir þessa greiðslu af hendi. Greiðslan kemur bersýnilega frá öllu efnahagskerfinu.