13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

342. mál, verslunaratvinna

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan upplýsa það að ég hef vakið athygli á því við hæstv. ráðh. að þetta geti verið nokkuð víðtækt ákvæði og tek undir þau sjónarmið sem komu hér fram hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssyni. Þetta mál kemur væntanlega til fjh.- og viðskn. og ég tel eðlilegt að það fái þar nokkuð góða skoðun. Ég hef bent á t.d. tjaldaleigu, skíðaleigu, leigu á hestum, smábátaleigu o.s.frv. Ég held að sú athugasemd, sem hér kom fram, sé réttmæt, að þetta sé nokkuð víðtæki ákvæði og þetta þurfi að skoða talsvert vel áður en málið gengur lengra en til nefndar. Hitt er auðvitað sjálfgefið að myndbandaleigurnar eiga að falla undir verslunarreksturinn.