13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

342. mál, verslunaratvinna

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Út af því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan varðandi ákvæði til bráðabirgða, þá eru í 4. gr. laganna um verslunaratvinnu upptalin þau skilyrði sem sett eru til þess að :á verslunarleyfi. Hins vegar er í þeirri grein gert ráð fyrir að heimilt sé að veita undanþágu undir vissum kringumstæðum. Það sem hér er átt við er að hægt sé að veita þeim aðilum leyfi sem þegar hafa sett á stofn slíka starfsemi, enda þótt þeir fullnægi ekki að fullu þeim kröfum sem þar um ræðir.

Það er hins vegar ljóst að um leið og um leyfisveitingu er að ræða fá aðrir aðilar, sem þurfa að gæta laga í þessum efnum, aðstöðu til þess að beita þeim ákvæðum sem þeir hafa til þess að framfylgja lögum, þ.e. leyfissviptingu og öðru slíku.

Varðandi það sem þrír hv. þm. hafa vikið að hér á eftir hv. 11. þm. Reykv., þá hafði formaður hv. fjh.- og viðskn., 4. þm. Norðurl. v., einmitt bent mér á það, þegar við áttum viðræður um það, að hér væri um fortakslaust ákvæði að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að að sjálfsögðu komi nefndin til með að fjalla um það hvort ástæða væri til að hafa eitthvert annað orðalag í þessari grein frv. þar sem einhverjar undanþágur, sem eðlilegt þætti að veita, væru teknar fram. En ég held að bókasöfn yrðu tæpast heimfærð undir lausafjármuni í atvinnuskyni. Það held ég að væri ekki um að ræða. En frá minni hendi er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að á greininni yrðu gerðar breytingar einmitt í sambandi við það sem á hefur verið bent hér. Ég held hins vegar að í sambandi við alla þá skattaumræðu sem fer fram, undanskot frá skatti, þá þurfi ævinlega að vera nokkur íhaldssemi þegar um undanþágur er að ræða, eins og t.d. í þessu tilviki. En ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að koma þar fram breytingum og veit að bæði formaður nefndar og nm. munu skoða málið á þeim forsendum.