13.03.1985
Efri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3532 í B-deild Alþingistíðinda. (2877)

342. mál, verslunaratvinna

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég get í sjálfu sér, eins og margir þeir sem hér hafa talað, tekið undir það að það ákvæði, sem fyrirhugað er að fella hér inn í lög um verslunaratvinnu, geti verið helst til víðtækt.

Í sambandi við leigurekstur hygg ég að það megi jafnvel finna dæmi þess að annars konar rekstur en bein útleigustarfsemi kunni að vera til staðar í skjóli útleigustarfseminnar. Ég vil ekkert fullyrða í þessu efni en ég vil fagna því að þetta frv. er fram komið og ætla ekki að hafa uppi umr. um aðdragandann að flutningi þess.

En ég er fremur á því að ástæða væri til að setja skýrari ákvæði inn í lög um verslunaratvinnu, jafnvel kafla sem fjallaði einvörðungu um þessa tegund iðju, því að hún er nokkuð sérstæð, eins og menn hafa reyndar vikið að.

Í athugasemdum með frv. er að sjálfsögðu getið um fleira en myndbandaleigur. Þar er getið um áhaldaleigur og leigubíla, svo að eitthvað sé drepið á. Ég er ekki maður til þess að spá um niðurstöðu þessa máls í fjh.- og viðskn., en ég vildi leggja áherslu á það að menn útfærðu nánar þau ákvæði sem þurfa óumdeilanlega að vera í lögum um leigu lausafjármuna. Ég tel ástæðulaust að um það gildi sérstök lög. Það er eðlilegt að það verði nánar útfært í lögum um verslunaratvinnu.